25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. mun ekki rísa hátt í þingsögunni fyrir ræðu þá sem hann hefur flutt hér í kvöld. Á löngum þingferli, sem staðið hefur með hléum síðan 1934, hefur risið sjaldan verið lægra. Risið er lágt vegna þess að hæstv. forsrh. fer einasta almennum orðum um almenn stefnumál. Hann skírskotar meira til fortíðar en framtíðar. Hann minnist hins vegar ekki á hitt, sem allir þó vita, að það er stjórnarkreppa í landinu. Ríkisstj. hefur misst meiri hl. sinn í annarri þingdeildinni. Þar er jafntefli. Jafnaðarmenn, stjórnarandstaðan yfir höfuð að tala, ber ekki ábyrgð á því að hv. þm. Eggert Haukdal hefur sagt upp tryggðum við Gunnar Thoroddsen. Það hefur þm. væntanlega gert sjálfur og einn og gert upp samvisku sína. Þetta hefur gerst. Þetta eru staðreyndir. Um þær staðreyndir hefði hæstv. forsrh. átt að fjalla, hefði hann verið einlægur við hlustendur. Hann kaus að þegja.

Stjórnarsinnar segja, að stjórnarandstaðan eigi nú að koma til bjargar ríkisstj. af því að hv. þm. Eggert Haukdal er hlaupinn. Þessi framsetning er einkennileg og hún er röng. Jafnaðarmenn hafa verið andvígir hæstv. ríkisstj. Við lítum svo á, eins og allir vita, að efnahagsstefna hennar sé þjóðinni hættuleg. Því fyrr sem ríkisstj. fer frá því betra. Ríkisstj. sem ekki getur lifað af sjálfri sér og styrk sínum á auðvitað að segja af sér. Og hvað á að koma í staðinn? spyrja menn. Því svaraði Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., á fundi með ráðh. á föstudag. Það á að reyna myndun meirihlutastjórnar sem taki upp nýja og gerbreytta stjórnarstefnu. Gangi það ekki, þá tí að reyna myndun minnihlutastjórnar og gangi það ekki, þá á að huga að myndun utanþingsstjórnar. Þetta er einfalt og þetta er skýrt. Núv. ríkisstj. er efnislega fallin. Hún hefur gagnað lítið í gegnum tíðina, hún er nú gersamlega gagnslaus. Hún þvælist fyrir framförum og er til óþurftar. Ný ríkisstj. þarf að ákveða kosningadag, hún þarf að gera drög að gerbreyttri efnahagsstefnu og ný ríkisstj. þarf að leggja fram drög að nýrri stjórnarskrá svo fljótt en samt svo vel og vandlega sem verða má.

Spurt er um brbl., lögin um kjaraskerðinguna. Því er auðsvarað. Jafnaðarmenn eru andvígir þessari lagasetningu. Þetta er ábyrgðarlaus lagasetning, röng ákvörðun á röngum tíma. Þetta eru auðvitað ekki efnahagsráðstafanir í réttum skilningi orðsins. Brbl. eru ekkert annað en 10–11% kjaraskerðing og það í upphafi jólamánaðar. Aðalatriðið er þó hitt, að það er röng aðferð að skerða laun með lögum. Þessi lög þýða, að maðurinn eða konan sem eru með 9 þús. kr. á mánuði eru svipt 1 þús. kr. í upphafi jólamánaðar og það með lögum. Ráðstafanirnar svokölluðu eru ekkert, ég endurtek, ekkert nema þetta. Þessi mál hafa að vísu verið illa skýrð af fjölmiðlum, en ég er viss um að þegar nær líður 1. des. og þessi einfalda staðreynd blasir við, þá munu menn, allir réttlátir menn, sjá hvað þessi aðferð er ranglát.

Aðalatriðið er þó hitt, að einhliða og lögbundin kjaraskerðing, eins og sú sem nú er lagt til að verði gerð, er úrelt og úr sér gengin aðferð. Það verður að breyta um stefnu. Auðvitað má vel vera, að fyrirtækin segi satt þegar þau segjast ekki geta borgað þessi laun 1. des., en leiðin er ekki að grípa inn í með lögum. Nær væri að gefa samninga frjálsa, að ætlast til þess að launafólk og fyrirtæki semji upp á nýtt og semji þá skynsamlega, semji um þau verðmæti sem til staðar eru. Þetta verður að vera framtíðarsýnin. Kjarni málsins er sá, að einstaklingar og samtök þeirra verða að fara að bera sjálf ábyrgð á því sem þau eru að gera. Það er ekki hægt að semja ábyrgðarlaust um laun, um fiskverð, um hvað sem er og síðan komi annar eða báðir aðilar til ríkisvaldsins og heimti lög. Slík inngrip löggjafans eru ævinlega ranglát og bjóða auk þess heim auknu ábyrgðarleysi. Það hefur verið samið um of háar upphæðir í síðustu samningum og séu báðir aðilar sammála um það, þá eiga þeir að semja upp á nýtt. Menn eiga að bera ábyrgð. Ríkisstj. hefur auðvitað aukið enn á þennan vanda með ábyrgðarlausri sjávarútvegsstefnu, með fokdýrri landbúnaðarstefnu, með aðgerðarleysi í iðnaðarmálum, með því að bila í verðtryggingarmálum, en samt verða menn og samtök þeirra að bera ábyrgð. Það er krafa næstu framtíðar.

Hæstv. forsrh. heldur því fram í upphafi máls síns hér í kvöld, að hér sé kreppa, að heimskreppan hafi komið hingað með fullum þunga. Ég vara við þessum ábyrgðarlausu orðum forsrh. Hér er vissulega kreppa í ríkisstj. og víst er kreppa á því heimili sem þarf að lifa af 10 þús. kr. á mánuði, en almennum orðum talað þyrfti ekki að vera kreppa á Íslandi. Það eru einungis orð þeirra manna sem í örvæntingu eru að reyna að verja verk sín og umfram allt völd sín. Krepputal forsrh., sem á sér rætur uppi í stjórnarráði og viljanum til að vera þar lengur, er stórhættulegt. Við eigum auð í orkulindum, við eigum auð í hafinu umhverfis landið, landið sjálft er mikill auður. Víst hefur verið stjórnað illa, en hér þarf ekki að vera kreppa og hér á ekki að vera kreppa. Verðmætum er óréttlátlega skipt, það er auðvitað rétt, og sennilega er svo mikið svikið undan sköttum á Íslandi að aðeins jafnast á við Suður-Evrópu, en það er vegna þess að hér hefur of lengi verið of mikil kreppa í stjórnkerfinu. Við stöndum á þröskuldi tölvualdar innan örfárra ára. Hvað halda menn að þeir geti þá, sem nú væla um kreppu? Þess vegna eru orð forsrh. hættuleg.

Menn spyrja: Hvernig ríkisstj. á að taka við fram að kosningum og hvað á hún að gera? Ég vísa til ummæla Kjartans Jóhannssonar þar um. Hitt er rétt, að þar er nokkur vandi. Vandinn er m.a. sá, að í undanförnum kosningum hefur um þriðjungur þjóðarinnar kosið Sjálfstfl., sennilega allflestir á öðrum forsendum en þeir ætluðu sér. Sá Sjálfstfl. sem starfar á Alþingi Íslendinga er ekki klassískur frjálslyndur flokkur almennra leikreglna. Þetta er ríkisafskiptaflokkur í þágu hinna efnameiri. Felipe Gonzáles, jafnaðarmaðurinn sem er að sigra með glæsibrag í kosningum á Spáni, segir í blaðaviðtali að spánskir jafnaðarmenn séu um margt að segja það sem heilbrigð og upplýst borgarastétt ætti að segja og gera, en segir ekki og gerir ekki. Sama er á Íslandi. Jafnaðarmenn á Íslandi hafa verið talsmenn markaðar í landbúnaðarmálum, heilbrigðis í sjávarútvegsmálum. Hvar er Sjálfstfl.? Framsóknarmegin við Framsfl. Jafnaðarmenn hafa verið talsmenn verðtryggingarstefnu í peningamálum, siðaðra peningaviðskipta. Hvar er Sjálfstfl.? Hann er ónýtur í öllum slíkum málum. Sjálfstfl. er hægt og hægt að grafa undan borgaralegum verðmætum á Íslandi. Klofningurinn á milli Gunnars og Geirs er auðvitað engin tilviljun og sannleikurinn er sá, að Sverrir Hermannsson í Framkvæmdastofnun ríkisins, Egill Jónsson, Pálmi Jónsson og Steinþór Gestsson í landbúnaðarmálum og Matthías Bjarnason og Friðrik Sophusson í vaxtamálum þættu sennilega of yfirgengilegir til þess að rúmast í Framsfl. Allt eru þetta stjórnarsinnar í hjartanu.

Hæstv. forsrh. kom bæði með sálina og söguna í Sjálfstfl. inn í núv. ríkisstj., að því leyti hafði hann rétt fyrir sér, og hver er málefnalegur ágreiningur stjórnarandstöðu Sjálfstfl. við núv. ríkisstj.? Þið heyrðuð Geir Hallgrímsson og Lárus Jónsson hér í kvöld. Þessi ágreiningur er enginn. Hann er deilur um vegtyllur og valdastóla, hégóma, Geir eða Gunnar. Sjálfstfl. er svona. Það vitum við hér á Alþingi, en það veit ekki nógsamlega vel sá þriðjungur þjóðarinnar sem enn veitir honum brautargengi og heldur að með því sé verið að styrkja og efla borgaraleg verðmæti á Íslandi.

Á Íslandi er ekki kreppa í eiginlegum skilningi þess orðs. Hins vegar eru allt of margir allt of fátækir. Þess vegna er kreppa á of mörgum heimilum og það ríkir kreppa í stjórnkerfinu. Hæstv. forsrh. er kreppa af sjálfum sér. Þessa stjórnkerfiskreppu má rekja til úreltrar stjórnarskrár, sem verður að endurskoða.

Virðingarleysi fyrir landslögum er auðvitað algjört. Í lögum frá 1979 er þess krafist að inn- og útlán séu verðtryggð. Það stendur þar skýrum stöfum. En hvað gerist? Ríkisstj. hlýðir ekki landslögum, heldur ákveður öðruvísi. Og hvað eigum við að gera, loka bankamálaráðh. inni? Það gerum við varla. En hvernig er þá hægt að ætlast til þess að aðrir menn hlýði annars konar lögum?

Og stjórnkerfið er í kreppu af öðrum ástæðum. Við ætlum að breyta kjördæmaskipan til að auka jafnræði þegnanna, til að ná fram jafnvægi milli dreifbýlis og þéttbýlis, en vita menn hvernig vandinn raunverulega er? Ef menn ætla að fjölga alþm. til að ná fram jafnræði allra kjördæma án þess að fækka neins staðar, þá þarf að fara með þá í rúmlega 120 — ég endurtek: rúmlega 120. Ef menn ætla hins vegar að ná fullu jafnræði, en samt halda sér við töluna 60, þá þarf að fara með fámennustu kjördæmin niður í 2 — ég endurtek: 2. Hvorugt dettur mönnum í hug í alvöru, svo engin furða er þó að menn hiki. Sannleikurinn er sá, að fjölgun þm. um 7 eða 9, sem auk þess er vitlaus leið, leysir engan vanda.

Menn verða að fara að ræða nýja stjórnarskrá og samfélagið allt verður að taka þátt í þeirri umræðu. Ný ríkisstj. á að beita sér fyrir slíkri umræðu. Við þurfum að ræða mannréttindamál, skiptingu og dreifingu valdsins, eignarréttarákvæði, og við megum ekki gleyma því að jafnvægisleysi í kjördæmismálum hefur leitt til jafnvægisleysis í efnahagsmálum og það er mikill kjarni þessa máls. Einnig þess vegna þurfum við að huga að nýjum leiðum. Við þurfum að fara varlega, fara með gát, en við þurfum að reifa nýjar hugsanir, nýjar hugmyndir. Við getum ekki borið ábyrgð á því að framlengja þá kreppu hugar og þjóðar sem hæstv. forsrh. hefur lýst og ber sjálfur verulega ábyrgð á.

En hvað gæti verið nýtt, hvað gætu verið nýjar brautir? Í stað þess að huga stöðugt að annaðhvort fjölgun eða tilfærslu þm., sem augljóslega leysir hvort eð er engan vanda, má hugsa sér aðrar leiðir. Það má hugsa sér að kjósa forsrh. eða ígildi hans beinni kosningu yfir landið allt í tveimur umferðum. Sá skipi aftur með sér ríkisstjórn innan þings eða utan. Aðgreining framkvæmdavalds og löggjafarvalds verði skýr, m.ö.o. að framkvæmdavaldið sé þannig kosið að atkv. vegi jafnt í Kópavogi og á Kópaskeri, í Reykjavík og á Reykjanesi við Djúp. Framkvæmdavaldið hallaðist þó fremur til þéttbýlis, en löggjafarvaldið yrði óbreytt, — ég endurtek: óbreytt, — enda myndaði það mótvægi. Þá væri fyrst eðlilegt að hagsmunir dreifbýlis vægju þyngra, enda kæmi það minna eða ekki að sök. Reglur um samskipti framkvæmdavalds og löggjafarvalds er auðvitað hægt að hafa með mörgum hætti og þær eru ekki til hindrunar, ef menn á annað borð vilja huga til þessarar áttar.

Því er þessi hugmynd nefnd, og ég ítreka að þetta er aðeins hugmynd sem rædd hefur verið meðal jafnaðarmanna, að umræðan eins og hún nú er er auðvitað stöðnuð, helfrosin, full af vonleysi eins og ríkisstj. En góðir hlustendur, við megum ekki láta það á okkur fá. Þessi ríkisstj., andlit hennar og kreppa, kjaraskerðingaráform, vonleysistónn og hugmyndaleysi er ekki lengur andlit þessarar þjóðar. Stjórnin mun fara frá innan tíðar. Og á Íslandi þarf ekki að vera kreppa, hvað sem dr. Gunnar hefur sagt í framsöguræðu sinni hér í kvöld. Kreppan í stjórnarráðinu á ekki og má ekki vera kreppa þjóðarinnar. Það eru að koma nýir tímar. Kraftmikil jafnaðarstefna, nýjar hugmyndir, sem sóttar eru til margra manna og kvenna, eiga erindi við hina nýju tíð. Við megum ekki gefast upp, uppgjöf og krepputal forsrh. og ríkisstj. má ekki vera uppgjöf og kreppa þjóðarinnar og þarf ekki að vera það.

Einu tímaskeiði er um það bil að ljúka. Nýtt tímaskeið er að hefjast og það skal verða von, en ekki vonleysi. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.