16.12.1982
Neðri deild: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 73 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Eins og hv. alþm. vita fjallar þetta frv. um álagningu fasteignaskatta og innheimtu og er stjfrv. Meginefni þessa frv., eins og kemur fram í 4. gr. þess, þ.e. ákvæði til bráðabirgða, er að gerð er tilraun til að lækka tekjustofna ákveðinna sveitarfélaga að því er varðar fasteignaskatt, þ.e. á íbúðarhúsnæði í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellshreppi, og miðað við 92.7% fasteignamat þessara eigna.

Nefndin fjallaði um frv. á nokkrum fundum sínum og kallaði á sinn fund fulltrúa sveitarfélaga, m.a. stjórnarmenn úr Sambandi ísl. sveitarfélaga, fulltrúa Reykjavíkurborgar, Kópavogskaupstaðar, Hafnarfjarðarbæjar, ennfremur forstöðumann Fasteignamats ríkisins og fulltrúa ríkisskattstjóra.

Á þessum fundum komu fram frá öllum aðilum einróma mótmæli gegn þessu frv., sérstaklega 4. gr. þess, mótmæli þar sem mótmælt er afskiptum ríkisvaldsins af málefnum sveitarfélaga, og voru færð ýmis rök fyrir því, sem komu fram bæði í viðtölum aðila við n. og ennfremur í skriflegum greinargerðum sem lagðar voru fram á fundum nefndarinnar frá þessum aðilum.

Ég tel ástæðu til að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um málið:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga leggur áherslu á að ákvæði 4. gr. frv. um álagningu fasteignagjalda 1983 í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu verði felld úr frv. Stjórnin lítur svo á, að nýting tekjustofna þeirra sem sveitarfélögum eru ætlaðir í lögum nr. 73/1980 sé alfarið á ábyrgð kjörinna sveitarstjórnarmanna. Þess vegna hlýtur það að skoðast sem alvarleg aðför að sjálfstæði sveitarfélaga þegar ríkisstj., þrátt fyrir gefin fyrirheit í stefnuyfirlýsingu um aukið sjálfstæði sveitarfélaga, leggur fram frv. til l. um skerðingu á grundvelli álagningar samkv. fyrrgreindum lögum.

Þá lýsir stjórnin sig andvíga frekari undanþágum um greiðslu fasteignagjalda samkv. 2. gr. frv., sbr. fyrri samþykktir Sambands ísl. sveitarfélaga þar að lútandi. Stjórn sambandsins mælir hins vegar með samþykkt ákvæða í 1. og 3. gr. frv.“

Í svipuðum dúr eru skrifleg mótmæli frá öðrum sveitarfélögum sem hér um ræðir. Sé ég ekki ástæðu til að fara að vitna í það álit sérstaklega hér. Það kom berlega fram í þessum viðtölum við n. að öll þessi sveitarfélög hafa ákveðið, sum löngu áður en þetta frv. kom fram, að lækka álagningu fasteignaskatta í viðkomandi sveitarfélögum og er sú lækkun í flestum tilfellum talsvert meiri að vöxtum en bráðabirðgaákvæði 4. gr. frv. gerir ráð fyrir. Og mér þykir ástæða til að vekja einnig athygli á því, að samkv. tekjustofnalögum að því er varðar fasteignaskatta hafa sveitarfélögin heimild til 25% álags, sem þau hefðu eftir sem áður heimild til að nota ef þetta ákvæði yrði sett í lög.

Félmn. Nd. varð sammála um að fasteignagjöld væru, eins og allir vita, alfarið tekjustofn sveitarfélaga og álagning þeirra væri alfarið á ábyrgð kjörinna sveitarstjórnarmanna og þess vegna væru afskipi ríkisvaldsins af þessum tekjustofnum umfram það sem lög heimila algerlega andstæð yfirlýstri stefnu, bæði stjórnvalda og stjórnmálaflokka yfirleitt hér á landi, sem eru sammála um að auka þurfi sjálfstæði sveitarfélaga. Þegar talað er um sjálfstæði sveitarfélaga er náttúrlega fjárhagslegt sjálfstæði þeirra þýðingarmest.

Nefndin varð sammála um að leggja fram brtt. við frv. og hún er hér lögð fram á þskj. 181.l. brtt. er við 3. gr., en 3. gr. er í raun og veru samræmingaratriði varðandi innheimtu skattalaga. Í samráði við ríkisskattstjóra eða fulltrúa hans þótti eðlilegt að nota tækifærið til þessarar samræmingar. Við 3. gr. er því þessi brtt.:

„Greinin orðist svo:

1. mgr. 43. gr. tekjustofnalaganna orðist þannig: Séu gjöld samkvæmt lögum þessum eigi greidd innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða sveitarfélagi dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Með gjalddaga í þessu sambandi er átt við reglulega gjalddaga samkv. 4. mgr. 4. gr. og 3.–5. mgr. 29. gr., en gjaldfelling vegna vangreiðslu á hluta samkv. 6. mgr. 29. gr. hefur ekki áhrif á dráttarvaxtaútreikning. Dráttarvextir eru þeir sömu og hjá innlánsstofnunum, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.“

Þessi breyting er nákvæmlega shlj. ákvæðum í skattalögum og þykir eðlilegt að þarna sé fullt samræmi á. Til viðbótar þessu kemur svo greinin eins og hún er í frv.: „Heimilt er í lok hvers árs að bæta áföllnum dráttarvöxtum við höfuðstól skuldar.“

2. brtt. n. er sú, að 4. gr. eins og hún er í frv. verði felld niður.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til, nema sérstök tilefni gefist, að fara fleiri orðum um þetta. Ég vil endurtaka þá skoðun að sveitarfélögin eiga að hafa þennan ákvörðunarrétt ein sér. Ef þau misnota þessa tekjustofna sina er ljóst að sveitarstjórn sem slíkt gerir missir traust sinna kjósenda og hefur þá ekki möguleika til að stjórna viðkomandi sveitarfélagi.

Ég vil aðeins geta þess hér, vegna þess að ég hef orðið var við að það er nokkur misskilningur ríkjandi í sambandi við fasteignaskatta, að ef menn lesa 5. gr. tekjustofnalaganna, þar sem eru ákveðnar undanþágur í sambandi við greiðslu eða álagningu fasteignaskatta, má sjá að Alþingi samþykkti 30. apríl 1982 á s.l. vori að skýra þetta ákvæði enn frekar að því er varðar lífeyrisþega. Eins og hv. alþm. vita eru þessi lög þannig eftir meðferð Alþingis s.l. vor, að 3. mgr. 5. gr. laganna orðist svo:

„Skylt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.“

Þarna eru skýr ákvæði í lögum sem gera að verkum að sveitarstjórn getur ekki misnotað sér þetta ákvæði 5. gr. Þannig á að vera fengin viss trygging fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja.

Herra forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir áliti félmn. Félmn.-menn skrifa allir undir þetta álit, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.