17.12.1982
Efri deild: 22. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

28. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, þá fjölluðu báðar heilbr.- og trn. um þetta mál á sameiginlegum fundi á síðari stigum umfjöllunar í Nd. Eins og jafnframt hefur komið fram, þá ríkir eining, a.m.k. að miklu leyti, um þetta mál og hefur gert það í umfjöllun þess, bæði utan þings og innan má segja. Þegar ég segi utan þings, þá á ég við tildrög að samningu þessa frv. og gerð þess.

Eins og fram hefur komið, þá flutti n. í Nd. allmargar brtt. við frv. sem samþykktar voru. Þessar brtt. grundvallast ekki síst á umsögnum sem bárust um málið til n. Í nál. er dregið saman í örstuttu máli hverjar þær aths. voru sem bárust fyrst og fremst. Ég vil leyfa mér að lesa upp það sem stendur í nál. frá heilbr.- og trn. Nd., en ég ítreka það að þegar þær brtt. voru til umfjöllunar sat Ed.-nefndin á fundi með Nd.-nefndinni.

Þessar aths. samandregnar í 8 liðum eru eftirfarandi í meginatriðum:

1. Réttmæti þess að setja sérlög um málefni aldraðra. Lagaákvæði um þessi málefni eigi heima í heildarlögum um félagslega þjónustu. Ég vil geta þess í leiðinni að um þetta urðu allnokkrar umr. í nefnd Ed.

2. Nauðsyn þess að setja á fót sérstaka deild innan heilbr.- og trmrn. til að sinna öldrunarmálum. Ég vil taka það fram að þarna varð breyting á með tilliti til brtt. sem samþykktar voru í Nd., þ.e. það er ekki gert ráð fyrir sérstakri deild, heldur aðeins deildarstjóra.

3. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, fjölda nm., tilnefningu og verkefni.

4. Ekki sé nægilega tryggt í frv. að samstarf stjórna heilsugæslustöðva og félagsmálaráða verði virkt, sbr. 5. og 16. gr.

5. Að svæðisskipulag öldrunarmála taki á engan hátt mið af sérstöðu Reykjavíkurborgar.

6. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þar var gerð breyting á, svo að eitthvað sé nefnt. Það er gert ráð fyrir því, eins og frv. hefur verið afgreitt frá Nd., að samstarfsnefndin sjái um og hafi á hendi stjórn Framkvæmdasjóðs.

7. Að ekki sé nægilega tryggt í frv. framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þarna hefur orðið breyting á því að samkv. brtt. á það framlag að vera tryggt.

8. Stjórnun dvalarstofnana fyrir aldraða.

Í þessu sambandi vil ég álykta, ekki síst á grundvelli þess samkomulags sem orðið hefur um frv. alveg til lokaafgreiðslu þess nú, að umfjöllun hafi verið allnokkur í þingflokkum um málið, fyrir það fyrsta er málið var rækilega kynnt og jafnframt á síðari stigum umfjöllunar eftir að brtt. komu fram. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara út í þau atriði í einu eða neinu. Þar er ekki um að ræða neinar grundvallarbreytingar eins og fram hefur komið.

Það urðu umr. um málið í n. Ed., ekki síst með tilliti til samstarfs ríkis og sveitarfélaga, sbr. ýmsa þætti í þessu frv. Ég fer ekki út í það nánar.

Eins og hv. alþm. hafa veitt athygli, þá er gert ráð fyrir því eins og frv. er afgreitt frá Nd., og það er tekið fram í ákvæði til bráðabirgða, að lög þessi skuli endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku. Það er ekki tekinn fram einskorðaður gildistími. Við leggjum til — og segja má að það hafi orðið til samkomulags með tilliti til örlítið mismunandi viðhorfa til ýmissa þátta í frv. að ítreka það — að lögin verði endurskoðuð eða ný löggjöf undirbúin innan fimm ára.

Á þskj. 199 er brtt. þar sem gert er ráð fyrir að 28. gr. orðist svo:

„Lög þessi gilda frá 1. jan. 1983 til 31. des. 1987. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um dvalarheimili aldraðra, nr. 28/1973, og lög um Framkvæmdasjóð aldraðra, nr. 49 frá 1981, sbr. breyting á þeim lögum, nr. 93 frá 1981.“

Jafnframt er gert ráð fyrir að 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða falli brott. Það er augljóst að þegar tiltekinn er ákveðinn gildistími, þá leiði það af sér viðbrögð í átt við þau sem getið er um í ákvæði til bráðabirgða, 2. tölul.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þetta frekar. Ég vil þó geta þess, að enda þótt nefndirnar störfuðu saman á síðari stigum umfjöllunar málsins, þá verður það að segjast eins og er að tíminn var heldur naumur til að fjalla um málið eins og vert hefði verið. Hins vegar voru allir nm. sammála um það að bregða í engu fæti fyrir þetta frv. Það er ár aldraðra og ég hygg að fleiri en færri hafi viljað leggja sitt af mörkum til að þetta frv. yrði að lögum á því herrans ári.

Eins og fram kemur í nál. rita Lárus Jónsson og Salome Þorkelsdóttir undir nál. með fyrirvara.