17.12.1982
Efri deild: 22. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

28. mál, málefni aldraðra

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl., sem mælti fyrir nál., þá var stuttur tími til að fjalla um þetta frv. í heilbr.- og trn. Ed. Að vísu höfðum við setið tvo fundi með Nd., en engu að síður hefði verið æskilegt að lengri tími hefði gefist til þess að fara betur ofan í þetta frv.

Við hv. 3. þm. Norðurl. e. og ég höfum skrifað undir nál. með fyrirvara. Það er fyrst og fremst vegna þess að við erum andvíg þeirri meginstefnu, sem kemur fram í frv., að það er eiginlega horfið til baka með það samkrullsríkis og sveitarfélaga sem allir flokkar, ráðherrar og þm. tala um að þurfi að lagfæra, gera hreinni skil á milli ríkis og sveitarfélaga. Það virðist vera alveg þveröfugt farið að í þessu frv. þar sem nú er horfið til baka og aftur á t.d. heimilisþjónustan að vera þarna í samkrulli og greidd af báðum aðilum. Það er fyrst og fremst með þetta í huga, sem við hefðum óskað eftir að skoða betur, að við gerum fyrirvara á nál. Vegna málstaðarins vildum við þó ekki tefja málið frekar og vorum því sammála að það fengi afgreiðslu núna á þinginu.