19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

24. mál, tollskrá o.fl.

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þar sem hér er á dagskrá mál, sem ég ásamt fleiri átti nokkurn þátt í undirbúningi að, þykir mér rétt að láta nokkur orð falla við þessa umr., þ.e. um lækkun tolla á ýmsum nauðsynjavörum til heimilanna.

Það kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. að þarna hefðu verið viðhöfð handahófskennd vinnubrögð. Ég neita þessu sem ein af þeim sem tóku þátt í að skoða tollskrána, þegar verið var að athuga hvað hægt væri að gera til að koma til móts við heimilin í landinu, þegar þessi brbl. voru sett. Þetta er einn liðurinn í mildandi aðgerðum ríkisstj. eins og kunnugt er:

Það má segja að tollskráin sé heill frumskógur að fikra sig í gegnum og það vænti ég að hv. 5. landsk. þm. þekki eins vel og ég. Þegar ég fór fyrir löngu, eftir að ég kom á hv. Alþingi, að skoða tollskrána, þá komst ég fljótt upp á lagið með að nota nokkurs konar þumalputtareglu til þess að átta mig á því hvað væru nauðsynjavörur heimilanna. Og hún er mjög einföld. Ef maður rennir fingri niður eftir dálkunum með tollaprósentunni, sem er lögð á vörur, og staldrar við töluna 80–90%, þá er það örugglega eitthvað sem tilheyrir nauðsynjum heimilanna. Það gerðist einnig þegar verið var að vinna í þessu máli varðandi þær matvörur sem hér hafa verið til umr. og lítið hefur verið gert úr á þessu sumri að tollar hafi verið lækkaðir á, eins og döðlur og fíkjur, sykraðir ávextir, spaghetti, Corn flakes o.s.frv. Nú er ég handviss um að hv. 5. landsk. þm. þekkir það eins vel og ég að þetta eru einmitt vörur sem eru notaðar næstum daglega á hverju einasta heimili, a.m.k. hjá ungu fólki þó í litlum mæli sé. Þarna var eingöngu verið að hreinsa út úr tollskránni þær vörur sem sátu eftir í háum tollaflokki þegar verið er að tala um matvörur, því að sem betur fer hafa fyrri ríkisstjórnir einnig fundið hvöt hjá sér til að reyna að koma til móts við fólk með því að lækka tolla á matvörum. Það má segja að þarna hafi verið um nokkurs konar hreinsun að ræða, sem þótti eðlilegt og sjálfsagt að láta fylgja með. Það vegur kannske ekki þungt hjá ríkissjóði, en áreiðanlega munar hvern mann um ef lækkaðir eru tollar einnig á þessum vörum.

Það hefur undrað mig á þessu sumri, hversu litla umfjöllun þessi ráðstöfun ríkisstj. hefur fengið hjá almenningi í landinu og jafnvel hjá fjölmiðlum, fréttamönnum, sjónvarpi og öðrum. Þarna hefði verið kærkomið tækifæri til að kynna fyrir almenningi, fyrir heimilunum, fjölskyldunum, hvað hefði verið gert til að koma til móts við þær. Það má segja að öll búsáhöld eða nauðsynjavörur heimilanna, sem hér hafa verið taldar upp, hafi lækkað um 20–22%. Við getum nefnt eina pönnu. Ef hún kostaði 1500 kr., þá lækkaði hún um a.m.k. 300. Mér er kunnugt um verslun í Reykjavík sem selur slíkar vörur eingöngu. Eftir að þessi brbl. voru sett voru allar vörur í þeirri verslun lækkaðar um 20%.

Ég get ekki séð að það sé hægt að gagnrýna svona aðgerðir hjá hæstv. ríkisstj. Það er sjálfsagt að gagnrýna þegar ástæða er til, en mér finnst einnig sjálfsagt að þakka það sem vel er gert. Og ég er sannfærð um að heimilin í landinu, það fólk sem fer í verslanir og þarf að viða að sér einhverjum vörum til heimilanna, kunna vel að meta þetta.

Ég er hér með lista og ég gæti talið upp þær verðlækkanir sem áætlað var að yrðu á útsöluverði varanna sem hér eru nefndar og hæstv. ráðh. taldi upp. Ef við tökum vörur eins og þurrkaðar döðlur og nýjar þurrkaðar fíkjur, sem hv. 5. landsk. þm, ef ég man rétt, gerði heldur lítið úr í blaðagrein í Dagblaðinu og Vísi í sumar að væri nú lítil ástæða til að vera að lækka, þá er það 17% lækkun. Það munar um þetta eins og hvað annað. Það er alveg óhætt að segja það.

Borðbúnaðurinn og aðrar slíkar vörur hafa lækkað í útsöluverði um 21–22%. Ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir að þetta er virkilega þess virði að það sé metið þegar svo stendur á í þjóðfétaginu eins og nú er.

Við skulum ekki heldur gleyma því hvernig málin hefðu staðið ef ekkert hefði verið að gert, verðbólgan hefði fengið að blómstra áfram — ef við getum talað um það að hún blómstri, við skulum heldur segja bólgna. Þá getum við rétt hugsað okkur hve margir dagar hefðu liðið þangað til öll sú kauphækkun, sem átti að koma 1. júní og mikið hefur nú verið talað um að hafi ekki komið, hefði verið uppurin.