24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

100. mál, stefna í flugmálum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka enn á ný þá vinsemd sem mér er sýnd með því að fá að mæla fyrir þessum málum og vil taka skýrt fram að það hefur tekið mig u.þ.b. 1/10 af þeim tíma sem það tók einn hv. þm. hér í dag að gera grein fyrir öðru máli að mæla hér fyrir þrem. — Það er nú önnur saga.

Ég mæli hér, herra forseti, fyrir till. til þál. um mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum. Þessi till. var flutt í annað sinn á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd. Till. fylgir allítarleg grg.

Ég vil láta þess getið, að til allshn. bárust á síðasta þingi fjölmargar umsagnir um þessa till. og nær undantekningarlaust eru þær jákvæðar. Flugráð tekur mjög undir þessa till., og ég er sannfærður um að hv. þm. Skúli Alexandersson getur staðfest það og getur auðvitað lesið upp umsögn Flugráðs. Ég er hér einnig með ljósrit af þeim umr. sem fram fóru um þessa till., þar sem þáv. hæstv. samgrh. Steingrímur Hermannsson fer lofsamlegum orðum um flesta liði till. Þá er ég með umsögn Flugleiða um málið, þar sem farið er heldur jákvæðum orðum um það, og umsögn Arnarflugs sem er kannske hvað síst í þessu máli og af eðlilegum ástæðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja till., hún skýrir sig algjörlega sjálf. Hún er í átta meginatriðum. Ég vil eingöngu ítreka það, sem ég hef sagt áður við flutning þessarar till. og í framsögu, að það stefnuleysi sem ríkir hér á landi í flugmálum er orðið mjög alvarlegt mál. Það er engin stefna til í íslenskum flugmálum. Það er ekki stefnt að neinu meginmarki í íslenskum flugmálum. Það er ekkert markmið fram undan. Ég vil líka segja að mjög alvarlegt mál er hvernig það hefur verið látið viðgangast að fjármunir til flugmála hafa farið að raungildi stöðugt minnkandi með þeim afleiðingum að flugöryggi á flugvöllum víða úti á landi er langt fyrir neðan þau mörk sem sæmileg geta talist. Á þessum málum verðum við að taka. Það verða allt of mörg alvarleg flugslys á þessu landi. Við byggjum geysilega mikið á flugsamgöngum vegna þess að vegakerfi okkar er ekki nægilega gott. Við verðum að tryggja að það sé gætt mestu hugsanlegrar hagsýni í flugrekstri og í flugmálum almennt.

Herra forseti. Ég vona að þessi till. fái nú afgreiðslu á hinu háa Alþingi og einn og einn afturhaldssamur þm. komi ekki í veg fyrir að það verði mótuð stefna í flugmálum á Íslandi. Þetta er geysilega veigamikið mál og ég er sannfærður um að allir sem um það hugsa af raunsæi geti séð að það er nauðsynlegt að leggja þessa stefnu frá A til Z, ef Z væri til.