24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

100. mál, stefna í flugmálum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Flm. þessarar þáltill., um mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum, hefur flutt hér á undan tvær aðrar till. og í umr. um þær báðar lét hann í það skína að þm., ég held að hann hafi orðað það svo, gerðu allt of lítið af því að stuðla að virðingu þessarar stofnunar. Nú fyrir skömmu lýsti hann því einnig yfir að honum hefði tekist að koma þessum þrem till. sínum frá í umr. í hv. Sþ. á 1/10 þess tíma sem einhver annar hv. þm. hefði notað til að koma frá annarri ræðu.

Sjálfsagt er mismunandi mat lagt á virðingu Alþingis. En mér finnst, að þessi hv. þm. geri virðingu Alþfl. ekki neitt sérstaklega mikla með því að koma inn á þing og líta svo á að hann þurfi endilega að koma þeim málum sem þeir Alþfl.-menn voru með á síðasta þingi í gegnum umr. hér í hv. deild meðan hann situr á þingi. Það lítur þannig út, að hann treysti ekki flokksbræðrum sínum og öðrum til að flytja þau mál sem voru til umr. á þinginu í fyrra og hitteðfyrra. (Gripið fram í.) Þetta er ósköp svipaður tónn og tónninn í ræðu hv. þm. áðan. Þetta er alveg sami tónninn.

Þessi till., sem hér er til umr., er eins og sumar fleiri till. þeirra Alþfl.-manna óskatillaga um að gerðir verði ýmsir góðir hlutir. En oftast nær felast í slíkum till. ýmsir þeir punktar sem allir eru ekki sammála um.

Það urðu þó nokkrar umr. um þessa till. bæði hér í fyrra og eins í hitteðfyrra. Ég held því að ástæðulaust sé að fara að lengja umr. um till. nú. En ég vil benda á að mér virðist að hv. þm. hafi þurft að flýta sér við að koma þessari till. hér á framfæri, vegna þess að hann gerði sér ekki grein fyrir því að ýmsir hlutir höfðu breyst frá því í fyrra. Kannske sá punkturinn sem skiptir mestu máli í þessari till. hafi tekið ansi miklum breytingum, þ.e. 7. punkturinn, þar sem hv. þm. Alþfl. leggja til að þegar verði hafnar framkvæmdir við smíði flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Er ekki öllum hv. þm. kunnugt um að þegar eru hafnar framkvæmdir við flugstöð á Keflavíkurflugvelli? Ég geri ráð fyrir að þeir hv. þm. viti líka að til þeirra framkvæmda eru áætlaðar aðeins 104 millj., tvöföld sú upphæð sem er áætluð til flugvallafjárfestingar á fjárlögum í ár. Þarna hafa hv. þm. orðið á mistök. Hann hefði átt að óska eftir að þarna yrði haldið áfram framkvæmdum í staðinn fyrir að óska eftir að þær yrðu hafnar. Óskaframkvæmdin þessi er sem sagt þegar hafin.

Áðan flutti hv. þm. mjög góða till., sem ég vil af heilhug taka undir. En þegar hann á næsta þskj. á eftir mælir með því að hafnar verði framkvæmdir og haldið áfram framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli á sama tíma og það lítur út fyrir að jafngóða till. og till. um að hraða jarðgöngum í Ólafsfjarðarmúla dagi uppi og framkvæmdir þar dragist um ófyrirsjáanlega framtíð, þá get ég því miður ekki annað sagt en að fyrir þann þátt einan er ég eindregið á móti till. um mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum. Ýmsir þættir aðrir í þessari till. væru vel athugandi, en alls ekki það sem segir um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Ég skil ekki í þeim landsbyggðarþingmanni, og síst af öllu þm. frá Norðurl. e., sem leggur til að slíkum framkvæmdum verði haldið áfram á Keflavíkurflugvelli, sem þarna er lagt til, síst af öllu þeim þm. sem áðan flutti ágætisræður og lýsti ágætlega ástandinu í samgöngumálum á því svæði. Ég held að við ættum frekar að sameinast um að hraða framkvæmdum við Ólafsfjarðarmúla og vítt um landið en leggja til að framkvæmdir við flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði auknar og þeim haldið áfram.