25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. núv. fjmrh. var sem kunnugt er á sinni tíð guðfaðir fyrrv. ríkisstj. sem frægt er orðið. Með því er við það átt að hæstv. ráðh. ritaði bréf þar sem hann lýsti því yfir að hann mundi firra þá ríkisstj. vantrausti en það var forsenda fyrir myndun þeirrar ríkisstj. Undir lokin sá hæstv. ráðh. að sér og snérist til andstöðu við þá ríkisstj. að fenginni reynslu. Sem kunnugt er fóru efnahagsmál á Ístandi endanlega úr böndunum í tíð þeirrar ríkisstj., verðbólga komst hér á suður-amerískt stig, ríkisfjármál voru að hruni komin, staða atvinnuvega var botnlaus. En einn svartasti bletturinn á ferli fyrrv. ríkisstj. var einmitt í húsnæðismálum.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir er tilraun til að efna að hluta til gefin loforð stjórnarliða við húsbyggjendur og húskaupendur um að tryggja þeim hærri lán, þ.e. lán sem næmu hærra hlutfalli af byggingarkostnaði en verið hefur áður. Menn hafa uppi efasemdir um að þessi aðgerð skili árangri, að það verði nægileg eftirspurn eftir þessum bréfum. En það er sérstaklega ástæða til að minna á eitt atriði í sambandi við húsnæðisfjármálin sem þetta snýst um.

Ástæðan fyrir hruni hins félagslega kerfis í húsnæðismálum var fyrst og fremst sú að markaðir tekjustofnar til húsnæðismála sem áttu að tryggja sæmilega öruggan eigin fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins voru af þeim teknir og notaðir til annarra almennra þarfa. Í staðinn var húsnæðislánakerfinu vísað á lánamarkaðinn og þá sérstaklega til þess að taka lán hjá lífeyrissjóðum.

Nú er það svo að þau lán sem Byggingarsjóður ríkisins tók hjá lífeyrissjóðunum voru yfirleitt fengin með hærri vöxtum, 3.5% vöxtum og til 15 ára, en þetta sama fé síðan lánað út með lægri vöxtum 21/4% og til lengri tíma. Þetta þýddi að eiginfjárstaða Byggingarsjóðs ríkisins rýrnaði stöðugt og sjóðurinn var undir lokin rekinn á yfirdrætti hjá Seðlabanka. Afleiðingin varð síðan sú að ekki var unnt að halda uppi eðlilegu lánshlutfalli sem var undir lok ráðherraferils hæstv. fyrrv. húsnæðismálaráðherra sem hér talaði áðan komið niður í 12% af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Við þau skilyrði mátti segja að heilli kynslóð ungs fólks hefði verið úthýst af húsnæðismarkaðinum.

Það má kannske bæta því við að við þessi skilyrði styttist óðfluga í það að öll framlög ríkissjóðs til húsnæðislánakerfisins, Byggingarsjóðs ríkisins færu í það eitt að standa undir vaxtamun tekinna og veittra lána. Það er þessi aðferð við fjármögnun félagslegs kerfis í húsnæðismálum sem hrundi og sem getur ekki gengið lengur. Nú er það út af fyrir sig mjög skiljanlegt að ríkisstj. sem tekur við svona ástandi og hefur sett sér það mark að taka ekki frekari erlend lán láti á það reyna að afla lánsfjár á innlendum markaði. Það markmið er út af fyrir sig lofsvert. En það er ein spurning sem mig langar til að beina til hæstv. ráðh. sem vakið var máls á í umr. í Ed. en var þá ekki svarað. Hún er þessi: Er það ætlun ríkisstj. að Byggingarsjóði ríkisins verði ætlað að standa undir þeim vaxtamun sem væntanlega verður á þessum lánum nú teknum samkv. þessum heimildum á innlendum markaði? Er ætlun ríkisstj. að Byggingarsjóður ríkisins eigi að standa undir þeim vaxtamun, þannig að enn rýrni eiginfjárstaða Byggingarsjóðs, eða er það ætlun ríkisstj. að það komi í hlut ríkissjóðs sjálfs?

Hv. þm. Magnús H. Magnússon lét þess getið í umr. í Ed. að þessi bréf séu verðtryggð með einum eða öðrum hætti og beri vexti alls 4.16%. Ef húsbyggjendum eða Byggingarsjóði ríkisins er ætlað að standa undir þeim vaxtamun sem þá mun af þessu leiða miðað við á hvaða vöxtum þetta fé er síðan endurlánað, þá mun þetta verða til að rýra enn stöðu Byggingarsjóðsins sjálfs. Þess vegna vil ég fá þeirri spurningu svarað hvort það er ætlun fjmrh. að það verði ríkissjóður sem standi undir þessum vaxtamun eða Byggingarsjóður ríkisins.