25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil reyna að svara með nokkrum orðum virðulegum 3. þm. Reykv. Fyrst var spurt um hvort öruggt væri að þau bréf sem nú er verið að gefa út og sala hefur reyndar hafist á renni örugglega til húsbyggjenda eða húsnæðismála. Ég vil geta þess að bréfin eru sérstaklega merkt í þann málaflokk.

Í öðru lagi var spurt um viðbótarlánin, hvort staðið yrði við fyrirheit þau sem húsbyggjendum eða lánþiggjendum hafa verið gefin. Það verður staðið við þau fyrirheit og það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að það verður gert með aukafjárveitingu meðan beðið er eftir að peningar komi inn fyrir þau bréf eða víxla sem gefnir hafa verið út. Þannig að hugsanlega gæti farið svo að eitthvað af þessu félli á ríkissjóð ef bréfin seljast ekki. Það er ekki neinn hókus pókus í því. Ríkissjóður verður að leggja út fyrir þeim loforðum sem húsbyggjendur eða lánþiggjendur hafa fengið frá ríkisstj. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu standa við sín loforð, en við verðum að vona að eitthvað og helst allt komi til baka í gegnum söluna á skuldabréfunum eða víxlunum. Þetta er um viðbótarlánin.

Að sjálfsögðu var haft fullt samráð við Seðlabanka Ístands í vaxtaákvörðun og ríkisstj. þó að svo sé til orða tekið í frv. að fjmrh. ákveði þar um. Ég skil ekki hvers vegna virðulegur 3. þm. Reykv. gerir aths. við aðrar leiðir en þær hefðbundnu. Menn geta haft trú eða vantrú á ýmsum leiðum í fjárfestingu. Vísitölutryggð bréf eru til sölu eins og áður. Því til viðbótar eru ríkisvíxlarnir og gengistryggð bréf. Fólk hefur þá valfrelsi, það eru þá þrjár leiðir í staðinn fyrir eina og það er svo misjafnt hvað hver einstaklingur vill trúa á þegar um er að ræða varðveislu þess sparifjár sem hann á, og vill geyma, annaðhvort í sparisjóðum eða bönkum eða í slíkum bréfum sem hér eru í boði.

Ég skal ekki segja, ég er ekki nógu vel upplýstur um það hvort gengisbundinn sparnaður eða vísitölusparnaður hefði reynst sparifjáreigendum betri eða hagstæðari á undanförnum 10 árum. Það hygg ég ekki, en ég efast um að vísitölubundinn sparnaður sé miklu betri því að gengislækkanir og gengissveiflur hafa verið örar og miklar með annaðhvort gengisfellingum eða gengissigi gegnum árin. En þetta er hlutur sem ég get ekki svarað.

Í sambandi við væntanlega sölu ríkissjóðsvíxla og brask eins og orðað var, hvort það gæti ekki hugsanlega fallið undir okurlög, þá er svo nú ekki. Það stendur hér í aths. við frv. þar sem talað er um ríkissjóðsvíxlana og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„3. Ríkisvíxlar til þriggja eða 12 mánaða sem héldu óbreyttu nafnverði allan lánstímann, en bæði forvextir sem urðu ívið hærri en almennir forvextir af víxlum eða yrðu boðnir til sölu og seldir þannig að forvextir réðust af markaðslögmálum,“ — þannig að hér er aðeins um forvextina að ræða en ekki afföll af bréfunum sjálfum, sem er ekkert óeðlilegt í frjálsum viðskiptum.

Það er líka spurt um hvað selst hefði af ríkisskuldabréfum og það er líka í aths. á bls. 2. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 1983, 6. gr. lið 2.1, er fjmrh. heimilað að gefa út til sölu innanlands spariskírteini og/ eða ríkisskuldabréf að upphæð allt að 200 millj. kr. Þá er til viðbótar heimild í lánsfjárlögum fyrir árið 1983 til lántöku á innlendum lánsfjármarkaði að upphæð 188 millj. kr. og skiptast þannig að 85 millj. kr. var fyrirhuguð lántaka til lífeyrissjóða, en 103 millj. kr. var fyrirhuguð sala verðtryggðra bréfa til lánastofnana. Þegar er búið að selja spariskírteini að nafnvirði 64 millj. Markaður fyrir spariskírteini ríkissjóðs hefur verið fremur erfiður. Kaup lánastofnana á verðtryggðum bréfum ríkissjóðs hafa heldur ekki skilað sér sem vonast var til. Það sem af er árinu hafa aðeins selst slík verðbréf að andvirði 17 millj. kr. Samkv. framansögðu eru því ónýttar eldri heimildir til öflunar ríflega 200 millj. kr. innlends lánsfjár.“ — Og svarar það síðustu spurningunni.

Ég held að ég hafi þá svarað virðulegum 3. þm. Reykv., en er reiðubúinn til að gefa honum frekari upplýsingar ef óskað er eftir, munnlegar eða skriflegar, en vonast til að við meðferð í nefnd, fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, upplýsist það sem menn telja sig þurfa að vita áður en þeir vonandi veita þessu frv. brautargengi.

Það kom mér nú ekkert á óvart að hv. 4. landsk. þm. lýsti yfir stuðningi við minnihlutaálit n. Ég átti ekki von á öðru og það er svona yfirleitt orðin hefðbundin afstaða hans til mála.

Virðulegur 5. þm. Reykv., Jón Baldvin, undirstrikar enn einu sinni að ég hafi verið guðfaðir fyrrv. ríkisstj. Minni spor hafa nú margir skilið eftir sig í stjórnmálasögu landsins þó þeir hafi setið lengur á þingi en ég svo ég held að ég fagni því að slíkur minnisvarði skuli reistur af Alþfl.-mönnum um mig. Ekki voru þeir svo hrifnir af stjórninni, en þeir vilja þó halda nafni hennar lifandi og tengdu mér persónulega og ég fagna því. Ég skammast mín nú ekki mikið fyrir það. (JBH: Og ánægður með aðkomuna að málefnum ríkissjóðs í húsnæðismálum?) Nei, ég var alls ekki ánægður með aðkomuna, mjög langt í frá. Og það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Og þó veit ég ekki, það getur verið að það hafi farið fram hjá einum. En hv. 5. þm. Reykv. spurði: Er það ætlun ríkisstj. að Byggingarsjóður standi undir vaxtamun? Ég get ekki svarað þessu. Það er ekki að mínu mati búið að ákveða vextina á þessum lánum út úr Byggingarsjóði. Ég bara veit það ekki. Hitt er annað mál að mér þætti ekkert ótrúlegt að Byggingarsjóður yrði að taka þá vexti sem það kostar að fá peningana að láni, annað væri bara hreint óeðlilegt. Það gefur enginn peninga nema viðskiptabankarnir Seðlabankanum í vaxtamun, neikvæðan vaxtamun.

Ég held að ég hafi ekki meira um þetta mál að segja. Ég hef svarað nokkurn veginn þeim spurningum, sem til mín var beint. Ég þakka sérstaklega hv. 3. þm. Reykv. fyrir tillitssemina. Hann veit að ég er illa fyrirkallaður í dag og á von á að hann tali meira í þessum málum þegar þau koma til 2. umr.