25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Karvel Pálmason hefur ekki enn áttað sig á þeim vinnubrögðum sem við Alþb.-menn í stjórnarandstöðu teljum eðlilegt að stjórnarandstæðingar sýni hver gagnvart öðrum. Ef aðrir stjórnarandstöðuþingmenn flytja jafnágætt mál og jafnvel og hv. þm. hefur gert í dag, þá teljum við alveg óþarfa að vera að reyna að bæta þar um betur, heldur veita viðkomandi þm. siðferðilegan og pólitískan styrk með því að vera í þingsalnum og hlýða á mál hans og fylgja því eftir með þeim hætti. Við höfum gert það vel og rækilega hér í dag, þm. Alþb., og verið mun fleiri viðstaddir þessa umr. en þm. Alþfl. (Gripið fram í: Ég sé nú ekki marga núna.) Nei, það er að vísu rétt að fáeinir menn gengu út úr salnum áðan, vegna þess að menn áttu ekki von á að hv. þm. Karvel Pálmason teldi sig þurfa að bæta um betur varðandi þá ræðu sem hann flutti áður í dag. — En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þm. Karvel Pálmason skilji að við stjórnarandstæðingar hér á Alþingi eigum ekki að vera að skamma hver annan í ræðustól, eins og hann var að gera áðan, heldur eigum við að styðja hver annan, eins og við Alþb.-menn höfum gert varðandi frv. sem hann var að mæla hér fyrir og gerum. Þarf enginn að draga það neitt í efa. Og þótt við sjáum ekki nauðsyn á því að koma hér upp og geta þess má þm. alls ekki skilja það á þann veg, að þar með sé stuðningurinn ekki fyrir hendi. Þegar mælt er fyrir góðu máli af hálfu eins af stjórnarandstöðuflokkunum hér á Alþingi er alveg óþarfi að aðrir fulltrúar annarra stjórnarandstöðuflokka séu jafnframt að koma upp í ræðustólinn, heldur sýnum við það með framgöngu okkar hér að við erum hæstánægðir með það, Alþb.-menn, að eiga í þessu máli jafntraustan, ötulan og snjallan talsmann og hv. þm. Karvel Pálmason. Hann ætti þess vegna að fagna þessu viðhorfi okkar og vera ánægður með traustið sem við sýnum honum í stað þess að vera að skattyrðast við okkur.