28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

47. mál, frestun á greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð og í raun spurningar til hæstv. ráðh. Ég fagna þessari ráðstöfun út af fyrir sig, enda vart stætt á öðru fyrir stjórnvöld í kjölfar þeirra aðgerða sem gripið var til að gera eitthvað í þessa áttina. En meta skal hvað eina sem til bóta er. Mínar spurningar væru kannske fyrst og fremst um það hversu margir hefðu notfært sér þessa möguleika til frestunar sérstaklega hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég reikna ekki með því að hæstv. ráðh. hafi yfirlit um það almennt hvað þessi frestun hafi tekið til margra, en a.m.k. hjá Húsnæðisstofnun ríkisins hljóta að vera til upplýsingar um hvað margir hafa notið þess, þ.e. bæði hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna.

Í tengslum við þetta vakna spurningar, alveg sérstaklega í tengslum við ummæli hæstv. félmrh. um bankakerfið og hvernig það hafi tekið hér á málum. Mig minnir ég lesa það einhvern tíma í sumar að hæstv. félmrh. kvartaði mjög undan því hvernig bankakerfið hefði brugðist við þessari ráðstöfun ríkisstj., bæði um aðstoð og ekki síður um upplýsingar af þessu tilefni. Ég spyr einnig vegna þess að ég þekki því miður nokkur dæmi um ónógar upplýsingar um eðli málsins. Jafnvel veit ég þess dæmi að neikvæð mynd var dregin upp af því, þ.e. að hér væri um stundargróða einn að ræða sem í raun kæmi til með að hefna sín síðar. Þannig veit ég að einstaka húsbyggjandi fór bónleiður til búðar. Kannske var eitthvað um það, þó að ég vilji ekki fullyrða það, að menn héldu í bláeygðri bjartsýni sinni, sérstaklega stjórnarsinnar, að hér væri um eftirgjöf að ræða en ekki frestun á greiðslum. Ég veit að eitthvað hefur verið um það hjá þeim sem höfðu nógu mikla trú á þessari hæstv. ríkisstj. og fögnuðu henni mest. (Gripið fram í.) Það gætu hafa verið stjórnarandstæðingar líka. Jú, jú, það eru bjartsýnir menn í þeim flokkum líka, en kannske ekki svo mjög bjartsýnir á þessa hæstv. ríkisstj. (Gripið fram í.) Jú, líka það, ef hæstv. ráðh. vill fara í manngreinarálit hvað það snertir. Það má líka satt vera. En mér þóttu ýmsar fréttir af þessari fyrirgreiðslu bankanna of neikvæðar og ég veit um marga sem svo sannarlega þurftu á aðstoð að halda, en hættu við af því að þeir fengu ekki nægar upplýsingar eða ráðgjöf um raunverulegt eðli þessarar aðstoðar, sem vissulega var mikilvæg. Ég vildi því aðeins spyrja hæstv. ráðh. hvort hann tæki undir með hæstv. félmrh. um það að þarna hefði bankakerfið ekki staðið sig sem skyldi.