28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

83. mál, lögræðislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. það til lögræðislaga á þskj. 88 sem hér liggur fyrir hv. deild var lagt fyrir Alþingi á s.l. vetri. Það kom til 1. umr. undir janúarlok en fékk ekki meiri umfjöllun á því þingi að öðru leyti en því, að nefnd sú sem fékk það til meðferðar leitaði umsagna um málið. Komu svör frá lagadeild Háskólans. Enn fremur hafa nú, eftir að frv. hefur verið útbýtt, borist ábendingar frá félaginu Geðhjálp um breytingar á frv. Erindi þessi verða að sjálfsögðu send nefnd þeirri er málið fær til meðferðar hér.

Frv. er nú lagt fram efnislega óbreytt. Það var samið af nefnd sem falið var að endurskoða gildandi lögræðislög. Var sú nefnd skipuð undir árslok 1980. Sérstök áhersla mun hafa verið lögð á að teknar yrðu til endurskoðunar lagareglur um vistun manna á sjúkrahúsi án samþykkis þeirra. Mun ábending um þörf á frekari athugun á þessum lagaákvæðum hafa komið frá þeim dómstóli sem mest fjallar um slík málefni, þ.e. Sakadómi Reykjavíkur, og enn fremur frá þeim læknum sem flesta slíka sjúklinga fá til meðferðar, þ.e. læknum geðsjúkrahúsa ríkisins.

Núgildandi lögræðislög, sem sett voru árið 1947, hafa að geyma mikilsverðar úrbætur á réttarstöðu þeirra sem sæta verða vistun á sjúkrahúsi. Eftir eldri lagareglum var ekki krafist umfjöllunar dómstóla um ákvörðun stjórnvalda um vistun manna á sjúkrahúsi. Voru hinar nýju reglur í lögunum frá 1947 til þess fallnar að girða fyrir mistök þegar til slíkrar vistunar kemur. Samkv. gildandi lögum má segja að aðalreglan um skilyrði fyrir því að maður sé vistaður án samþykkis hans sjálfs á sjúkrahúsi eða líkri stofnun sé að hann hafi áður verið sviptur sjálfræði. Hins vegar er slík vistun heimil til bráðabirgða, ef brýn nauðsyn krefur, en þó er skilyrði að krafan um sjálfræðissviptingu hafi verið lögð fyrir dómara. Ástæður fyrir því að bæði dómarar og læknar telja óæskilegt að sá háttur sé hafður á, sem þær reglur gera ráð fyrir, eru fyrst og fremst að nauðsyn ráðstöfunar geti borið að svo brátt að dómari hafi litla aðstöðu til að meta aðgerðaþörf til fullnustu á stundinni og því sé æskilegra að stjórnvald, þ.e. dómsmrn., geti tekið ákvörðun um vistun til bráðabirgða, en jafnframt því er í frv. ákveðið að slík bráðabirgðavistun megi ekki standa lengur en 15 daga nema gerð sé krafa til dómara um sjálfræðissviptingu. Einnig er þeim sem vistaður er gegn vilja sínum heimilt að leita þegar úrtausnar dómstóla um ákvörðun rn. um vistunina.

Rétt er að vekja athygli á því að í nágrannalöndum okkar er ekki krafist sjálfræðissviptingar sem skilyrðis fyrir vistun. Einnig hefur verið haft í huga við mótun lagareglna þessara að sjálfræðissvipting er talsvert harkaleg aðgerð. Jafnframt er rétt að geta þess, að það er tiltölulega fátítt að til sjálfræðissviptingar komi, þótt krafa sé ávallt um hana gerð svo sem lög mæla fyrir. Þó er málum hraðað, svo sem skylt er, ef sá sem vista skal æskir þess. Einnig má minna á að á allra seinustu áratugum hefur almennt orðið mjög veruleg stytting á vistunartíma geðsjúklinga vegna örra framfara í meðalameðferð.

Rétt er að taka fram að dómsmrn. hefur talið núgildandi meðferð sæmilega viðhlítandi þótt skilningur sé á viðhorfum þeirra aðila sem áður voru nefndir. Jafnframt skal vakin athygli á því, að í frv. er ráðgert að dómsmrn. hafi aðgang að trúnaðarlækni sér til styrktar við mat á þörf á vistun til bráðabirgða, og er slíkum trúnaðarlækni heimilað að kanna heilsufarsástand sjúklinga sem vistaðir eru gegn vilja sínum.

Í frv. er gert ráð fyrir því að mál til sviptingar lögræðis og brottnáms lögræðissviptingar verði flutt frá sakadómi til almenns héraðsdóms, í Reykjavík til borgardóms. Hefur í því sambandi láðst að leggja til að fellt verði niður ákvæði 4. tölul. 2. gr. laga um meðferð opinberra mála, um meðferð þessa máls, og er því beint til nefndar þeirrar sem málið fær til meðferðar að úr þessu verði bætt.

Nefnd þeirri sem frv. samdi var falið að endurskoða lögræðislögin í heild, eftir því sem hún teldi ástæðu til. Nefndin fór lítið út fyrir það svið sem sérstaklega var tilefni endurskoðunarinnar og kann því að verða síðar tilefni til að öðrum efnum verði gerð skil. Má þar nefna reglur um fjárforráð ómyndugra, en það efni mun þarfnast umfangsmikillar könnunar.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að máli þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.