28.11.1983
Neðri deild: 18. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

14. mál, verslunaratvinna

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir var flutt snemma á þessu þingi og ég geri ráð fyrir því að hv. alþm. hafi kynnt sér efni þess nokkuð. Það á mjög vel við einmitt núna að ræða þetta mál, vegna þess að nú er uppi sérstakur og mikill vandi í þjóðarbúinu og þess vegna ekki aðeins réttlætanlegt heldur líka nauðsynlegt að leita allra leiða sem hugsanlegar eru til að mæta þeim vanda sem um er að ræða. Þá mega menn ekki aðeins horfa á hefðbundnar lausnir, heldur verður einnig að skoða aðra möguleika í efnahagsmálum þjóðarinnar — möguleika sem ekki hefur verið gripið til á undanförnum árum, m.a. möguleika sem hafa það í för með sér að takmarka eitthvað aðgang að takmörkuðum gjaldeyrisforða landsmanna.

Það frv. sem hér er flutt gerir ráð fyrir einni lítilli breytingu á lögunum um verslunaratvinnu í þá veru, að það þurfi sérstök leyfi og sérstök meðmæli til að stunda innflutningsverslun hér á landi.

Nú kann að vera að einhver segi sem svo, að það sé mikil bjartsýni að vera að flytja slíkt frv. um þessar mundir, þegar búið er að mynda hér í landinu ríkisstjórn sem starfar nánast í einu og öllu eftir uppskriftum Verslunarráðs Íslands, sama hvar er borið niður í þeim efnum. Það er Verslunarráð sem þessa dagana fær skýrslur um helstu afrek úr stjórnarherbúðunum á undan Alþingi auðvitað og sennilega á undan stjórnarflokkunum sjálfum líka. Þegar nýkjörinn formaður Sjálfstfl. greinir frá því hvað hann vilji gera í bankamálunum, þá byrjar hann á því að gefa Verslunarráðinu skýrslu. Aldrei hefur stjórnarandstaðan séð þessa skýrslu, sennilega ekki heldur stjórnarflokkarnir, en Verslunarráðið fær skýrslu um að nú sé svo komið að eitt það brýnasta í efnahagsmálum Íslendinga sé að gefa stofnun bankaútibúa í landinu frjálsa, það sé það sem koma skal og gera beri andspænis hinum mikla vanda þjóðarinnar um þessar mundir með samdrætti í þorskafla og öðru því sem slíkri óáran fylgir. Síðan er því lýst yfir að einnig sé mjög nauðsynlegt um þessar mundir, frammi fyrir hinum miklu vandamálum þjóðarbúsins, að gefa verslunarálagninguna frjálsa. Það sé alveg sérstaklega brýnt og nauðsynlegt innlegg í þjóðmálabaráttuna um þessar mundir að verslunarálagningin verði frjáls. Og hún á víst að verða það frá og með 1. febr. n.k. samkv. blaðafréttum. Það hefur auðvitað ekki verið sagt frá því hér á hv. Alþingi frekar en öðru, en formaður Verslunarráðs Íslands, Ragnar Halldórsson, greindi hins vegar frá því núna á dögunum að ríkisstj. væri á réttri leið í þessu eins og öðru, og gerist það mjög um svipað leyti að þeir sem þarna er verið að hampa, það er ekki alþýða manna sem verið er að hampa þarna, en þeir sem verið er að hampa eiga vona á meiri glaðningi frá þessari ríkisstj. framsóknarmanna og Sjálfstfl., þ.e. skattfrelsi hlutafjár, sem framsóknarmenn telja brýnast að innleiða um þessar mundir, samvinnuleiðtogarnir. Skattfrelsi hlutafjárins verði sú fyrsta umbót í skattamálum sem gripið verði til. Kemur það í sjálfu sér engum á óvart, en fróðlegt er engu að síður að þannig skuli vera ástatt um stjórn landsins um þessar mundir. Einmilt þegar sverfur harðar að alþýðuheimilunum en nokkru sinni fyrr um áratuga skeið er það skattfrelsi hlutafjár sem er brýnast að knýja fram í þjóðfélaginu. Og ekki er það væntanlega hin blásnauða láglaunaalþýða sem ætlar að kaupa hlutabréfin — eða hvað? (Gripið fram í: Hvaða mál er á dagskrá, herra forseti?)

Hér er á dagskrá mál sem snertir mjög hinn alvarlega efnahagsvanda í þjóðarbúinu og heitir frv. til l. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu og gerir ráð fyrir að það þurfi sérstakt leyfi til að stunda innflutningsverslun, vegna þess að þeir sem fara með innflutningsverslunina eru að eyða hinum takmarkaða gjaldeyri þjóðarinnar. Það er nauðsynlegt og sjálfsagt einmitt um þessar mundir að bregðast við vanda þjóðarbúsins með því að takmarka aðgang að þessum gjaldeyrisforða. En því rakti ég þetta svo ítarlega, herra forseti, í upphafi máls míns að það kann að virðast sem þetta frv. sé nokkuð á skjön við hina ofstækisfullu trúboða verslunarfrelsisins, sem núna sitja í valdastólum í þessu landi, fulltrúa Framsfl. og Sjálfstfl.

Út af fyrir sig er nokkuð til í því að það frv. sem hér er flutt sé sennilega ekki í samræmi við þá stefnu sem þar er boðuð. Engu að síður tel ég rétt að vekja athygli þingheims á þessu máli og láta á það reyna hvaða undirtektir það fær einmitt um þessar mundir, vegna þess að ég tel að með aðgerðum eins og þeim sem frv. þetta boðar, mörgum slíkum aðgerðum, auðvitað ekki bara þessu heldur mörgu öðru, eigi að reyna að bregðast við vanda þjóðarinnar til að draga úr viðskiptahalla og gjaldeyriseyðslu.

Lögin um verslunaratvinnu, sem hér eru á dagskrá, eru frá 1968 með breytingum frá 1970 og 1972. Lögin um verslunaratvinnu eru að mörgu leyti ófullkomin lög og þeir sem stunda verslun í þessu landi hafa oft á liðnum árum sent frá sér ályktanir og áskoranir um að nauðsynlegt sé að laga þessi lög. M.a. er mér kunnugt um að komið hafa um það ábendingar frá Kaupmannasamtökunum og einnig Verslunarráði Ístands að margt í þessum lögum sé þannig, að það megi betur fara og þurfi að lagfæra.

Eins og kunnugt er er verslun hér á landi yfirleitt ekki leyfisbundin nema með mjög takmörkuðum hætti. Til að fá verslunarleyfi þurfa menn ekki að uppfylla mjög miklar kröfur, það eru ekki gerðar strangar kröfur til þeirra sem fá verslunarleyfi. Hins vegar hefur það verið svo, að útflutningsverslun hér á landi hefur verið háð leyfum. Það hefur enginn maður fengið að flytja úr landinu vöru öðruvísi en að hann gæti sýnt fram á að hann gæti tryggt fullnægjandi verð og skil á andvirði vörunnar til íslenskra bankastofnana. Í útflutningsversluninni hefur sem sé verið beitt ströngu aðhaldi í þeim efnum. Það hefur verið gagnrýnt á liðnum árum nokkuð, en þó er það nú þannig í heildina tekið að ég held að ekki sé svo að útflutningsverslunin hjá okkur liggi undir stórárásum. Auðvitað má margt að henni finna, m.a. að þar sé of lítið gert af því að reyna að brjótast í leit að nýjum mörkuðum, en hitt verða menn að muna í þessu efni, að miklu skiptir að vel sé með hlutina farið og að útflutningsverslunin sé traust, svo mikilvæg sem hún er fyrir allt efnahagslíf landsmanna.

Í innflutningsversluninni hefur þetta hins vegar verið með öðrum hætti. Þar hefur ríkt frumskógarlögmál, mörg hundruð aðilar hafa verið að flytja inn vörur til landsins, hafa fengið takmarkalausan aðgang að gjaldeyrinum til þess að kaupa vörur inn til landsins. Þar hefur sem sagt kveðið við talsvert annan tón en í útflutningsversluninni. Margir hafa orðið til að benda á það á liðnum árum að nauðsynlegt sé að setja reglur um innflutningsverslunina og starfsemi hennar og að það sé lítið samræmi í því að menn stundi útflutningsverslun undir ströngu eftirliti, eins og nú er um að ræða, en innflutningsverslunin leiki algjörlega laus.

Ég er ekki hér að mæla með haftabúskap, sem svo er kallaður, í innflutningsverslun. Ég er ekki að mæla með því kerfi sem ríkti hér fyrir nokkrum áratugum í þeim efnum á vegum fjárhagsráðs, sem Sjálfstfl. leiddi um árabil. Ég tel að það væri ekki til velfarnaðar fyrir þjóðina að taka upp á ný skömmtunar- og haftakerfi Sjálfstfl., sem fólst í fjárhagsráði. Ég held hins vegar að það gæti vel komið til greina að setja þarna vissar reglur til að betur væri farið með þann takmarkaða gjaldeyrisforða sem þjóðin á.

Margir hafa verið þessarar skoðunar á liðnum árum. Af þeim ástæðum var það svo að viðskrh., Ólafur Jóhannesson, fór fram á það 1978 við verðlagsstjóra að gerð yrði sérstök könnun á innflutningsversluninni til landsins. Niðurstaða þeirrar könnunar varð sú, að vöruverð til Íslands væri 10–15% hærra en til grannlanda okkar, þ.e. innflutningsverslunin væri þessum mun dýrari og lífskjör í landinu þessum mun lakari.

Nú er það auðvitað svo, að á þessu eru margar skýringar, sem sumar eru fullkomlega eðlilegar m.a. vegna þess að landið liggur fjær hinum stóru mörkuðum milljónanna, og af ýmsum öðrum ástæðum verður að viðurkennast að það er erfitt að tryggja vöruverð hingað til lands sem er í öllum tilvikum eða flestum jafnhagstætt og það vöruverð sem boðið er í grannlöndum okkar. Engu að síður er ekki hægt að neita því að margt kom undarlegt fram í þessari könnun verðlagsstjóra, sem var eins og ég gat um upphaflega unnin fyrir atbeina þáv. hæstv. viðskrh. Ólafs Jóhannessonar.

Í framhaldi af þessari könnun gerði verðlagsstjóri ítarlegar tillögur um breytingar á starfsemi innflutningsverslunarinnar, sem voru síðan unnar og var hrint í framkvæmd að nokkru leyti af þeirri ríkisstjórn sem sat á árunum 1978 og 1979. Meginatriðið sem sú ríkisstj. beitti sér fyrir var að mínu mati setning laganna um innflutnings- og gjaldeyrismál og útgáfa reglugerðar seint á árinu 1979 um gjaldeyrismál, sem var að verulegu leyti byggð á reynslunni af þessari könnun. Í framhaldi af reglugerðinni um innflutnings- og gjaldeyrismál, sem gefin var út í desember 1979, og þessari könnun hafa verið tekin upp ný vinnubrögð allt frá árinu 1979 í sambandi við innheimtu umboðslauna og gjaldeyrisskil umboðslauna vegna gjaldeyrisverslunarinnar — ný vinnubrögð sem vafalaust hafa skilað tryggari tekjum til íslenska bankakerfisins að því er gjaldeyri varðar en áður var um að ræða.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, vegna þess að ég tel að það skipti miklu máli í þessu sambandi að hafa alfa myndina í huga, að rifja upp nokkrar þær tillögur sem verðlagsstjóri gerði á árinu 1979 um innflutningsverslunina og jafnframt að fara yfir hvernig þau mál hafa staðið.

Fyrsta tillaga verðlagsstjóra var sú að beina þyrfti starfsemi verðlagsskrifstofunnar í ríkari mæli að eftirliti með innkaupsverði til landsins og má gera það á ýmsan hátt, segir í áliti verðlagsstjóra, m.a. í áframhaldandi samstarfi við hin Norðurlöndin.

Mér er kunnugt um að þessi tillaga verðlagsstjóra hefur í rauninni verið framkvæmd að svo miklu leyti sem hann hefur haft efni og aðstæður til. Það hefur verið fylgst með innkaupsverði til landsins betur á síðari árum en áður var og það hefur einnig verið um að ræða skipulagt samstarf verðlagsskrifstofunnar hér á landi við samsvarandi stofnanir á öðrum Norðurlöndum.

Í öðru lagi lagði verðlagsstjóri áherslu á, eins og segir í hans álitsgerð: „Jafnframt kemur til athugunar, með tilliti til hve verðlagsskrifstofan er fáliðuð, hvort ekki eigi að beina starfsemi hennar enn frekar inn á þá braut að fylgjast mjög vel með verðmyndun á almennum neysluvörum, en skipta sér minna af öðrum, eins og t.d. ýmsum munaðarvörum“, eins og segir hér.

Ég hygg að það megi segja að með ákvörðunum sem teknar voru og hafa verið teknar á síðustu árum hafi verið fylgt þeirri tillögu sem verðlagsstjóri benti á á sínum tíma og það hafi verið farið öðruvísi í verðlagseftirlitið en var gert fyrir fimm árum og þaðan af lengri tíma.

Síðan segir verðlagsstjóri: „Þá virðist mjög æskilegt að verðlagsskrifstofan geti reglulega framkvæmt verðkannanir í því skyni að örva verðskyn neytenda hér innanlands og þar með aðhald þeirra með vöruverði.“

Menn þekkja kannanir þær sem hafa sprottið upp af þessu áliti verðlagsstjóra frá árinu 1979. Þessar kannanir og niðurstöður þeirra hafa verið birtar hvað eftir annað á undanförnum misserum og ég hygg að allir geti lokið upp einum munni um að hér hafi verið vel að verki staðið af hálfu verðlagsskrifstofunnar og skynsamlegt að eyða fjármunum í þessa starfsemi. Það hefur verið svo, að síðustu árin hefur þurft að verja auknu fé til verðlagsskrifstofunnar af þessum ástæðum. Ég tel að því fé hafi verið skynsamlega varið.

Síðan segir hér: „Loks er vert að huga að því, hvort ekki sé mögulegt að einfalda það verðútreikningakerfi sem notað er í dag til hagræðis og sparnaðar fyrir innflytjendur og stjórnvöld. Sú hugmynd hefur komið fram að vinna og afgreiða samtímis tollskýrslur og verðútreikninga, en það tryggði hraðari og betri skil á verðútreikningum og ætti að spara mjög verulega mannafla, fyrirhöfn og fjármuni.“

Ég held að þessi hugmynd verðlagsstjóra um sameiginlegan útreikning á tollum og innflutningsverði sé ákaflega athyglisverð. Hún krefst hins vegar samræmingar á starfsemi tollsins og verðtagsskrifstofunnar. Þann tíma sem ég staldraði við í viðskrn. kom fram að það var ekki einfalt að koma þessu samstarfi á og hefði tekið nokkurn tíma. Ég óttast að þetta mál hafi orðið útideyða síðan þar sem ekki hafi reynst mögulegt að laða þá saman sem saman eiga í þessu efni.

Hér var aðallega verið að hugsa um að taka upp krónutöluálagningu í innflutningsversluninni. Það var aftur og aftur gerð til þess tilraun á árunum 1980–83 í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens að fá þáv. viðskrh. og verðlagsskrifstofuna til að vinna gagngert að þessu, þ.e. að taka upp krónutöluálagningu í innflutningsversluninni, en það reyndist ekki fært. Annaðhvort hefur ráðh. ekki haft áhuga á því eða ástæður eru einhverjar aðrar, því að ég veit að verðlagsskrifstofan var tilbúin að vinna að því að setja reglur um krónutöluálagningu í innflutningsversluninni. En ein meginforsenda þeirrar álagningaraðferðar er hins vegar sú, að það sé um að ræða sameiginlega verðútreikninga og afgreiðslu á tollskýrslum á vegum verðlagsskrifstofunnar og tollyfirvalda. Það verður að segja það eins og er, að verðútreikningar í innflutningsversluninni hér á landi hafa verið fyrir neðan allar hellur yfirleitt. Þetta hefur komið allt of seint og hefur þess vegna ekki veitt það aðhald sem þurfti að eiga sér stað þannig að verðútreikningar þeir sem hér hafa verið í framkvæmd hafa því miður verið mjög gagnslitlir.

Í niðurstöðum sínum benti verðlagsstjóri sérstaklega á að til að ná tökum á málefnum innflutningsverslunarinnar í heild væri nauðsynlegt að endurskoða lögin um verslunaratvinnu. Verðlagsstjóri sagði um það mál, með leyfi forseta:

„Þótt skammt sé liðið síðan lög þessi voru endurskoðuð er íhugunarefni hvort hugsanlegt væri með breytingum á þeim og framkvæmd þeirra að lagfæra verslunarhættina í samræmi við tilgang laganna. Tilgangurinn er samkv. 1. gr. þeirra að tryggja borgurunum sem besta verslunarþjónustu, að þeir sem við verslun fást séu nægilegum hæfileikum búnir til að rækja skyldur sínar og að verslun geti þrifist í landinu sem atvinnugrein.“

Síðan er hann með í sinni skýrslu, sem birt er sem fskj. með frv. þessu, ítarlegar tillögur um breyt. á lögum um verslunaratvinnu; að því er varðar útgáfu verslunarleyfa, að því er varðar skilyrði til að fá verslunarleyfi, eftirlit með verslunarleyfishöfum, gjöld fyrir verslunarleyfi og loks um fyrirgerð verslunarleyfis, en ákvæði laganna um fyrirgerð verslunarleyfis eru mjög óljós eins og þau eru nú.

Í beinu framhaldi af þessari skýrslu verðfagsstjóra frá árinu 1979 var gripið til ýmissa aðgerða varðandi verslunina, eins og ég hef þegar komið að. Eitt af því var að gerðar voru ráðstafanir til að bæta umboðslaunaskil. Mér hefur nú borist bréf frá seðlabanka Íslands og viðskrn. þar sem greint er frá því hvernig að þessum málum hefur verið staðið, en sem fskj. II með frv. þessu um verslunaratvinnu er birt bréf viðskrh. til Seðlabankans 8. febr. 1979 um umboðslaunaskil. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í síðustu mgr.:

„Með bréfi þessu er hér með formlega af hálfu viðskrh. óskað eftir því að bankastjórn Seðlabankans geri sérstakt átak í þessum efnum, þannig að betri regla komist á þessi mál (þ.e. umboðslaunaskil) en verið hefur að undanförnu.“

Ég innti Seðlabankann eftir því og viðskrn. núna fyrir nokkrum mánuðum hvernig staðan væri í þessu efni, hvað hefði verið gert og með hvaða hætti hefði verið unnið að þessum málum í tengslum við þetta frv. Og hæstv. viðskrh. sá til þess að mér barst svar við þessu núna á dögunum, en þar segir, með leyfi forseta:

„Frá 1970 hefur Seðlabankinn haft starfsmann í gjaldeyriseftirlitinu sem starfar alfarið að þessu verkefni. Tölur um peningaskil undanfarin ár eru hér meðfylgjandi. Óhætt er að fullyrða að skil urðu meiri en þar greinir. Vakin er athygli á því, að skilin geta verið með þrennu móti.“ — Síðan er það rakið nokkuð. Svo segir: „Þá má benda á að veruleg breyting var gerð til að stuðla að frekari skilum, er stofnað var fyrst til innlendra gjaldeyrisreikninga í jan. 1978. Reglur um þá voru nánar útfærðar með reglugerð um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála nr. 519 frá 14. des. 1979, “— en það er sú reglugerð sem ég var að vitna í áðan —„ og þá beinlínis settar reglur um fyrirtækjareikninga, almenna og sérstaka, til að stuðla að frekari skilum.“

Þessum gögnum, sem mér bárust frá viðskrn., fylgja sýnishorn af þeim bréfum sem innflytjendur fá frá gjaldeyriseftirlitinu. Hér er m.a. dæmi um bréf sem sent er þegar tregða hefur verið á umboðslaunaskilum. Það er bréf frá gjaldeyriseftirlitinu og Seðlabanka Ístands til innflytjanda. Þessi bréf eru stöðluð og iðulega send út þegar tregða er á umboðslaunaskilum. Ég held að fróðlegt sé fyrir hv. þm. að heyra hvernig þau eru stíluð. Þar segir, þegar búið er að benda á að menn eigi að sinna beiðni gjaldeyriseftirlitsins um gjaldeyrisskil:

„Með tilvísun til 15. gr. laga nr. 63 frá 31. maí 1979“, — en það eru lög um gjaldeyris- og viðskiptamál sem sett voru í tíð þáv. vinstri stjórnar“, — skal tekið fram að hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir þessum málum getið þér átt von á því að öll gjaldeyrissala til yðar verði stöðvuð án frekari fyrirvara.“

Hér er sem sagt um það að ræða að Seðlabankinn og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans setja þær reglur alveg skýrt nú orðið samkv. þessum nýju lögum og reglugerð frá 1979, að ef ekki er um að ræða skil samkv. lögunum og reglugerðinni sé öll gjaldeyrissala til viðkomandi innflytjanda stöðvuð. Hér er um ákaflega sterkt aðhaldstæki að ræða að mínu mati og ég er sannfærður um að það hefur haft og hefur stöðugt veruleg áhrif á gjaldeyrisskil og það hvernig með þau mál öll er farið.

Vert er að geta þess í þessu sambandi, herra forseti, að sú könnun sem gerð var af verðlagsstjóra og var birt þáv. viðskrh. 23. ágúst 1978 sýndi hróplegan mun á innflutningsverði til Íslands og annarra Norðurlanda, eins og ég gat um hér áðan. Ég ætla aðeins að rifja þær tötur upp: Ef sagt er að innflutningsverð til Svíþjóðar sé 100 er innflutningsverð til Danmerkur 103.6, til Noregs 103.6, til Finnlands 104.7 og til Íslands 126.7. Þetta þýðir auðvitað ekkert minna en það, að á árinu 1983 er innflutningur til Íslands mörgum milljörðum króna dýrari en vera þyrfti ef hér væri um að ræða svipaða verslunarhætti og gerast í grannlöndum okkar. Nú er verið að tala um að það mikla áfall sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir í sambandi við þorskstofninn kosti þjóðina 2–2.5 milljarða kr. á næsta ári. Staðreyndin er sú, að með aðhaldsstefnu í innflutningsmálum væri hægt að vega þetta upp að talsvert miklu leyti. Núv. ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. sér auðvitað ekkert annað en kauplækkun í þessu efni, en með aðhaldsaðgerðum í innflutningsmálum mætti vafalaust ná þarna mjög verulegum árangri.

Fráfarandi ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen fjallaði ítarlega um þessi mál á sínum ferli, m.a. með stofnun sérstakrar ráðherranefndar um innflutningsmál. Sú nefnd var sett á laggirnar þegar það lá fyrir að þær ráðstafanir sem ríkisstj. greip til í ágúst 1982 mundu að vísu skila verulegum árangri í þá átt að draga úr viðskiptahalla, en ekki nægilegum og það þyrfti að grípa til viðbótaraðgerða, til að draga úr innflutningi. Í þessari ráðherranefnd voru auk mín Steingrímur Hermannsson núv. hæstv. forsrh. og Gunnar Thoroddsen þáv. hæstv. forsrh. Þessi nefnd hafði sérfræðinga starfandi á sínum vegum í sambandi við innflutningsmál og sérfræðingar skiluðu áliti með bréfi dags. 11. mars 1983. Þetta áfangaálit um aðgerðir vegna halla á viðskiptajöfnuði og samkeppnisstöðu iðnaðar er birt sem fskj. IV með þessu frv. mínu um verslunaratvinnu. Undir álitið rita Þórður Friðjónsson hagfræðingur, núverandi efnahagssérfræðingur ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, og Ragnar Árnason lektor. Þriðji nm., sem var tilnefndur af þáv. viðskrh. Tómasi Árnasyni, var Björn Líndal deildarstjóri í viðskrn. Hann mætti ekki á fundi nefndarinnar af einhverjum ástæðum og tók ekki þátt í störfum hennar. En hér er um að ræða álit sem er undirritað af tveimur hagfræðingum og annar þeirra er núna efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Mér sýnist á þessu plaggi að því hafi ekki verið hampað mikið í þeirri ráðgjöf sem veitt hefur verið til þessa.

Þetta plagg er aðallega merkilegt fyrir þær sakir, að í því er bent á leiðir til að takmarka innflutning án þess að með því sé verið að brjóta á einn eða annan hátt þær reglur sem gilda í sambandi við fríverslun milli aðildarríkja EFTA og milli þeirra ríkja sem hafa samninga við Efnahagsbandalag Evrópu eins og um er að ræða hjá okkur.

Í grg. þeirra Þórðar Friðjónssonar og Ragnars Árnasonar er þeirra álit rökstutt með þeim hætti, að „umskipti í efnahag þjóðarbúsins hafa sjaldan orðið meiri og óvæntari en á síðasta ári. Þessi atriði valda því, að við meiri erfiðleika er nú að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar en verið hefur á síðustu 15 árum. Því ber brýna nauðsyn til að beita þeim aðferðum, sem unnt er, til að koma hagkerfinu á vaxtarbraut á ný.“

Í þeirra tillögum, sem birtar eru á bls. 20 til og með bls. 23 í þskj. sem hér er verið að ræða um, þ.e. þskj. 14, er komið víða við og eru birtar þar 12 till. um takmörkun á innflutningi, sem allar eru þannig, að þær samrýmast reglum og samningum okkar gagnvart EFTA og Efnahagsbandalagi Evrópu.

Hér er t.d. gert ráð fyrir breytingum á ytri tollum, beitingu jöfnunartolla og beitingu undirboðstolla. Það er lagt til að lagt verði á sérstakt tímabundið þróunargjald. Það er rætt hér um tímabundna og sveigjanlega innborgunarskyldu. Ég vek alveg sérstaklega athygli á að það er ekki í þessu gert ráð fyrir að tekin verði upp innborgunarskylda á ný. Men telja að hún sé í rauninni ekki heppileg, því að þó að hún geti takmarkað innflutning um skeið til að byrja með dugi hún ekkert til langframa.

Hér er í sjötta lagi rætt um takmarkanir svonefndra vörukaupalána. Nú er það þannig, eins og alþm. vita, að það er heimilt að flytja inn margvíslegar vörur með erlendum vörukaupalánum. Þessar vörur eru auðvitað ekki lítill þáttur í þeirri erlendu skuldasöfnun sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir. Meðal þess sem enn er flutt inn með gjaldfresti, á svokölluðum vörukaupalánum, eru tæki eins og heimilistæki og t.d. einkabílar. Ég held að það væri full ástæða til að þrengja verulega allar heimildir fyrir erlendum vörukaupalánum af þessu tagi.

Í tillögum Þórðar Friðjónssonar og Ragnars Árnasonar er rætt nokkuð um svokallaða innflutningskvóta. Þeir komast þannig að orði varðandi það mál, með leyfi forseta:

„Beinar magntakmarkanir á innflutningi geta með ýmsum hætti haft neikvæð áhrif á efnahagslífið. Við þær aðstæður, sem nú er við að etja í þjóðarbúskapnum, kunna þær þó að vera réttlætanlegar til bráðabirgða. Slíkar aðgerðir eru heimilar samkv. ákvæðum 19. gr. viðskiptasamningsins við EFTA.“

Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að hafa í huga, vegna þess að á undanförnum árum hefur það verið þannig, að þegar rætt hefur verið um viðskiptamál, m.a. aðgerðir til verndar iðnaðinum, hefur því yfirleitt verið borið við að það væri ekki hægt að grípa til aðgerða til verndar iðnaðinum vegna þess að það bryti í bága við samninga okkar við Efnahagsbandalagið og aðild okkar að Fríverslunarsamtökunum. Ég held að aðstaða Íslands innan Fríverslunarsamtakanna sé þannig, og það sýnir reyndar reynslan, að íslensk stjórnvöld geti, ef þau vilja, látið hlusta á tillögur sínar varðandi aðgerðir til að halda utan um íslenskan iðnað og þróunarmöguleika hans. Og reynslan sýnir, að ef okkar afstaða er kynnt af fullum myndugleika á vettvangi Fríverslunarsamtakanna er tillögum okkar þar vel tekið. Ég minni á í þessu sambandi að 1979 samþykkti ráðherranefnd EFTA einum rómi og athugasemdalaust að það yrði lagt á svokallað aðlögunargjald. Og í lögum sem hér voru afgreidd á hv. Alþingi nokkru síðar var gert ráð fyrir að heimilt yrði, ef samkomulag næðist við Fríverslunarsamtökin, að leggja slíkt gjald á á nýjan leik.

Niðurstaðan hefur ekki orðið sú að leggja þetta gjald á aftur. Ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að menn séu ragir við að bera upp málið fyrir ráðherranefnd Fríverslunarsamtakanna. Ég á satt að segja dálítið erfitt með að skilja hvernig á því stendur að menn þora ekki að fara með þessi mál fyrir ráðherranefndina, því að mín reynsla er sú, og ég hvet núv. hæstv. viðskrh. til að kynna sér það vel, að málaleitan Íslendinga í sambandi við stuðningsaðgerðir við iðnaðinn og því um líkt er yfirleitt tekið þarna vel. Ég tel því að við þurfum ekkert að vera feimin við að flytja okkar mál á þessum vettvangi og eigum að gera það af fullri reisn og djörfung.

Áttunda tillaga þeirra Þórðar Friðjónssonar og Ragnars Árnasonar var svo um sérstakar aðgerðir til að styðja samkeppnisstöðu einstakra framleiðslugreina, sem eiga í erfiðleikum, í samræmi við 20. gr. EFTA-samningsins.

Í níunda lagi voru þeir með tillögur um að settar yrðu reglur um gæði, vörumerkingar, upprunamerkingar, staðla og þess háttar varðandi innflutning. Í þessu efni höfum við hér á Íslandi gengið mun skemmra en aðrar þjóðir. Ég held að þarna væri hægt að ná mjög verulegum árangri. Ég minni t.d. á þær reglur sem voru settar um innflutt hús á þessu ári samkv. þessari ábendingu í áliti þeirra Ragnars og Þórðar. Ég vil einnig minna á og láta þess getið hér, að snemma á þessu ári hófst sérstök athugun á hvernig best er að haga merkingum innfluttra matvæla hingað til lands. Það er verk sem er unnið á vegum Hollustuverndar ríkisins. Ég er sannfærður um að í því efni stöndum við langt að baki öðrum þjóðum. Það er iðulega svo, að verið er að flytja hingað inn matvæli sem þyrfti að hafa miklu betra eftirlit með svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Í tíunda lagi benda þeir félagar á óformlegt samkomulag um takmarkanir á innflutningi. Þá ræða þeir einnig um auglýsingar á erlendum innfluttum vörum, en erlend fyrirtæki hafa ruðst inn á auglýsingamarkaðinn með verulegri sókn á liðnum árum, m.a. í gegnum sjónvarpið, þar sem erlend fyrirtæki virðast geta vaðið fram með auglýsingar oft og tíðum langt umfram það sem okkar innlendu fyrirtæki geta. Þar með stendur innflutningurinn á markaðnum betur að vígi en innlenda framleiðslan.

Í tólfta lagi ræða þeir svo um gjaldfresti í smásölu. Hér eru því samtals inni tólf tillögur, ítarlegar, nákvæmar, útfærðar tillögur, um hvernig er unnt að takmarka innflutning til landsins án þess að í því felist nein brot á þeim reglum sem Ísland hlýtur að fylgja sem aðili að Fríverslunarsamtökunum. Þetta finnst mér mikilvægt, virðulegi forseti, að komi hér fram um leið og frv. um breyt. á lögum um verslunaratvinnu er rætt. Ekki vegna þess í sjálfu sér að þetta frv. leysi allan vanda, heldur vegna þess að ég tel að málefni innflutningsverslunarinnar í heild séu svo þýðingarmikil í þjóðarbúskap okkar að það sé réttlætanlegt og eðlilegt að þau séu rædd mjög ítarlega hér á hv. Alþingi.

Þegar við ræðum málefni innflutningsverslunarinnar verðum við auðvitað að hafa alla þætti málsins undir. Það má ekki takmarka þetta bara við innflutningskvóta, vegna þess að það er ekki verið að gera hér neina tillögu um slíkt, það má ekki heldur takmarka þetta við verslunarleyfin sjálf, vegna þess að ekki er verið að gera tillögu um að þar verði látið staðar numið, heldur verða menn að reyna að ræða þetta sem heild sem einn meginþátt í íslenskum þjóðarbúskap. Og við skulum gera okkur grein fyrir að það eru ekki svo fáir sem starfa núorðið í innflutningsverslun, það eru ekki svo fá fyrirtæki sem aðallega hafa með að gera heildverslun hér og innflutning til landsins. Hér er því um að ræða málefni sem snertir hvern einasta mann í landinu á svo að segja hverjum einasta degi beint og þetta snertir fjölda fólks, þúsundir manna, sem hafa störf í kringum þennan þátt í efnahagslífinu.

Nú er það hins vegar svo, og ég er þeirrar skoðunar, að það hefði þurft að leggja stóraukna áherslu á að draga úr þessum kostnaði í okkar þjóðarbúi. Og ég er sannfærður um að með markvissum aðgerðum í innflutningsmálum er mögulegt að standa þannig að verki, að því áfalli sem þjóðin verður fyrir vegna samdráttar í þorskveiðum á næsta ári verði að verulegu leyti mætt með takmörkun á innflutningi til landsins. Það er a.m.k. alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er óhæfa með öllu að ætla sér að leysa þessi mál einvörðungu með því að rífa kaup af fólkinu í landinu og líta á innflutningsverslunina eins og svo að segja heilagan hlut. Það er algjörlega fráleitt. Meðan verið er að leggja þær byrðar á fólkið í landinu sem fylgja samdrætti í þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu verður að taka á öðrum þáttum líka. Og ég vil kveða sterkar að orði og segja það, að ef ekki er tekið á allri heildinni, ef einvörðungu er ráðist að kjörum hins almenna manns, þá tekst ekki að ná verðbólgunni niður með þeim hætti sem menn hafa gert ráð fyrir, vegna þess að þá eru menn að egna á móti sér hina stóru hreyfingu launafólks í landinu, sem er tilbúin að taka þátt í að rífa verðbólguna niður sem hluti af heild en er ekki reiðubúin að gera það ein og sér og sérstaklega ekki þegar það gerist á sama tíma og þeir þættir í þjóðfélaginu sem ég er hér að tala um, bankarnir og milliliðirnir, hirða stóraukið fjármagn, sem verið hefur. Það er ekkert annað en storkun, að ég segi ekki dónaskapur, við þetta láglaunafólk, að á sama tíma og verið er að lækka hjá því kaupið, fólk sem er með 15 þús. kr. er að tapa jafnvel þriðjungi launa sinna á tveimur, þremur misserum, þá skuli það gerast að formaður Sjálfstfl. er að boða Verslunarráðinu að nú sé það bjargræði helst handa þjóðinni að það eigi að gefa stofnun bankaútibúa frjálsa, það eigi að gefa verslunarálagningu frjálsa og það eigi að opna ennþá frekar leið heildsalanna að hinum takmarkaða gjaldeyrisforða landsmanna. Svona tillögur um þessar mundir eru ekkert annað en storkun við almenning í landinu, storkun við það láglaunafólk sem hefur verið að taka á sig stórfelldar byrðar vegna stjórnarstefnunnar og vegna þess samdráttar sem orðið hefur í þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu.

Í frv. mínu er gert ráð fyrir að orðinu „innflutningsverslun“ verði bætt inn í 2. gr. laga um verslunaratvinnu, þannig að þegar taldar eru upp tegundir verslunarinnar verði innflutningsverslun bætt þar við upptalninguna. 1. mgr. 2. gr. laganna orðist svo:

„Með orðinu verslun í lögum þessum er átt við heildverslun, umboðsverslun, þ.m.t. tilboðasöfnun um vörusölu og vörukaup, innflutningsverslun, útflutningsverslun og smásöluverslun.“

Síðan er gert ráð fyrir því að í 2. gr. frv., sem snertir 4. og 5. gr. laganna, að þar verði nokkur breyting að því er varðar gildistíma verslunarleyfanna. Í lögum um verslunaratvinnu er gert ráð fyrir að verslunarleyfin gildi til fimm ára í senn. Í frv. er um að ræða breytingu frá því, þannig að gert er ráð fyrir að tími verslunarleyfis til innflutnings- og útflutningsverslunar verði aðeins þrjú ár. Þá er í greininni það nýmæli, að við endurnýjun verslunarleyfis þurfi að liggja fyrir meðmæli Verðlagsstofnunar, en við endurnýjun verslunarleyfis til innflutnings- og útflutningsverslunar skuli liggja fyrir meðmæli gjaldeyriseftirlitsins. Við mat á þessu skal gjaldeyriseftirlitið sérstaklega meta umboðslaunaskil.

Hér er um ákaflega mikilvægan þátt að ræða, að verðlagsskrifstofan og Seðlabankinn hafi með að gera endurnýjun á verslunarleyfum, að verslunarleyfin renni út eftir þrjú ár og að þeir einir fái endurnýjuð verslunarleyfi í þessu efni sem eru með hreinan skjöld og hafa skilað gjaldeyri og skýrslum svo sem gera ber samkv. lögum landsins og reglugerðum.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að viðskrn. fái afrit af öllum tilkynningum um verslunarleyfi og að rn. geti stöðvað útgáfu verslunarleyfis innan eins mánaðar frá útgáfu þess, ef ætla má að skilyrði laganna séu ekki uppfyllt. Það er eðlilegt að mínu mati að viðskrn. komi við sögu varðandi skráningu verslunarleyfa, en það er ekki tryggt samkv. lögum um verstunaratvinnu eins og þau eru nú.

Í 4. gr. er ítarlega fjallað um skráningu verslunarleyfa og um það segir í grg.:

„Eðlilegt er að viðskrn. komi við sögu þegar verslunarleyfi eru skráð, en ekki aðeins Hagstofa Íslands eins og nú er gert ráð fyrir í lögum um verslunaratvinnu.“

Það er þannig í lögum um verstunaratvinnu núna, að það er aðeins Hagstofan sem hefur með þetta að gera og hún skráir ekki sérstaklega verslunarfyrirtæki, heldur er það þannig að Hagstofan heldur almenna fyrirtækjaskrá, þannig að í þeirri skrá er ekki hægt að sjá hvaða fyrirtæki það eru sem sérstaklega stunda innflutningsverslun. Hérna er gert ráð fyrir að skráin um verslunaratvinnu verði sundurliðuð og hún verði bæði til í viðskrn. og hjá Hagstofu Íslands. 1 þessari tillögu er gert ráð fyrir að viðskrn. komi skráningu verslunarleyfa fyrir t.d. í tengslum við hlutafélagaskrána.

Ég hef hér farið yfir efni þessa frv. og rakið nokkur önnur atriði sem snerta innflutnings- og gjaldeyrismál. Ég held að með markvissum aðgerðum í innflutningsmálum sé hægt að draga verulega úr innflutningi og spara gjaldeyri og auka atvinnutækifæri í landinu.

Ég tel að þetta megi gera annars vegar með þeim fjölbreyttu aðgerðum sem Þórður Friðjónsson og Ragnar Árnason gerðu grein fyrir í nál. sínu, sem ég hef hér rakið, en þar er hvergi um að ræða brot á EFTA-sáttmálanum eða viðskiptasamningum við Efnahagsbandalag Evrópu. Ef við stefndum að því að spara þarna um það bil 5% í almennum innflutningi frá því sem nú er mundi það þýða um 400 millj. kr. Það munar um minna þegar þjóðin stendur frammi fyrir jafnmiklum vanda og nú er um að ræða í efnahagsmálum.

Í öðru lagi held ég að þarna megi ná árangri með aðgerðum gagnvart innflutningsversluninni, eins og þeim sem verðlagsstjóri gerði tillögur um og ég greindi frá áðan. Niðurstöðurnar af slíkum aðgerðum gagnvart innflutningsversluninni væru í fyrsta lagi betri staða landsins út á við og traustari gjaldeyrisforði, í öðru lagi fleiri atvinnutækifæri og í þriðja lagi aukin framleiðsla og meiri útflutningur.

Ég tel að við núverandi aðstæður eigi ríkisstjórninni í landinu að vera skylt að líta á þessi veigamiklu atriði og þau þungu rök sem hér hafa verið borin fram í þessu efni. Ég held að það verði að viðurkenna, að aðstaða nú er óvenjuleg um margt og kallar á óvenjuleg svör og óvenjulegar aðgerðir. Þess vegna verða menn að hrista af sér viðjar vanans og láta það ekki hafa áhrif á sig þó að ekki hafi verið gripið til slíkra aðgerða nú um skeið. Hér er um að ræða aukinn vanda sem kallar á ný svör.

Það er hins vegar svo, að núv. ríkisstj. virðist í einu og öllu ætla að selja þetta land og þjóðina alla undir lögmál og ok markaðshyggjunnar og gróða- og fésýsluaflanna. Slík ríkisstj. á að sjálfsögðu mjög erfitt með að fallast á þau sjónarmið og þær till. sem hér eru lagðar fram, vegna þess að þær hefta framrás fésýsluaflanna. Ég held hins vegar að í stjórnarliðinu hljóti að finnast menn sem sjá að það er brýn nauðsyn einmitt nú að bregðast við vanda þjóðarbúsins með svipuðum hætti og hér eru gerðar till. um.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.