28.11.1983
Neðri deild: 18. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

14. mál, verslunaratvinna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að flytja langa ræðu um það mál sem hv. flm. var að lýsa í sinni löngu ræðu áðan. Hér er um að ræða örfáar till. til breytinga á lögum, ekki stórar í sniðum. Mér er kunnugt um að í viðskrn. er verið að vinna að þessum málum. Hvort niðurstaðan þar verður á þessa leið eða ekki get ég ekki sagt á þessari stundu. En ég sá ástæðu til að koma hér upp og taka þátt í þessum umr., jafnvel þótt ég fái tækifæri til að fjalla um málið í hv. fjh.- og viðskn. Nd., vegna þess m.a. að hin langa ræða fyrrv. viðskrh., hv. 3. þm. Reykv., byggðist aðallega á fimm ára gamalli skýrslu frá verðlagsstjóra og nokkrum öðrum aðilum í þjóðfélaginu — skýrslu sem rædd var nokkuð ítarlega fyrir 4–5 árum á hv. Alþingi. Nú þegar öll þessi ár eru liðin og hv. 3. þm. Reykv. hefur setið í stjórn nánast allar götur frá því að skýrslan kom út kemur hann með till. sem hann telur byggja á þessari gömlu skýrslu. Það sýnir kannske betur en flest annað hve fljótur hv. þm. er að gera sér mat úr því sem hann efndi til að gert yrði þegar hann var viðskrh. á árunum 1978–1979.

Í raun og veru má halda því fram og sýna fram á og sanna, það er auðvelt, að hv. 3. þm. Reykv. og flokksbræður hans hafi á undanförnum árum, þegar þeir sátu í ríkisstj., verið bestu vinir innflutningsverslunarinnar. Að vísu voru þeir ekki að styðja sérstaklega við bakið á innflutningsversluninni, heldur að reyna að ná auknum tekjum í ríkissjóð. Þetta gerðist með þeim hætti, að gengið var skráð þannig að innflutningur jókst langt umfram útflutninginn. Þannig hagar til, að innflutningurinn er stofn fyrir tekjur ríkissjóðs. Til þess að ná jafnvægi hjá ríkissjóði var það bókstaflega viljandi gert að örva innflutninginn í því skyni að fá fjármuni í ríkissjóð og færa þannig til fjármuni þjóðarinnar frá fólkinu í landinu til handhafa valdsins, til þeirra manna sem þá sátu í stjórnarráðinu, m.a. hv. 3. þm. Reykv.

Þessi þróun gerðist með þessum hætti og kom auðvitað innflutningsversluninni til góða vegna þess að með rangri gengisskráningu var miklu meira flutt inn í landið en ástæða var til og miklu meira en hollt var fyrir efnahagskerfið. Það er m.a. af þessum ástæðum sem núv. ríkisstj. á við að glíma einhverja mestu erfiðleika sem yfir hafa dunið. Til viðbótar öðru verður nú að jafna þann mun sem varð á útflutnings- og innflutningsversluninni á stjórnarárum hv. 3. þm. Reykv. — Þetta þarf að koma afar skýrt fram, hefur reyndar gert það oft, en þarf sérstaklega að benda á þegar hv. Alþb.menn koma nú og gagnrýna hluti sem þeir hafa meira og minna staðið fyrir sjálfir.

Það sem skiptir langmestu máti í dag er að sjá til þess að samkeppni verði næg og það verði frelsi í verðlagningu — og ég undirstrika verðlagningu, en ég heyrði að hv. 3. þm. Reykv. talaði ávallt um álagningu. Ég undirstrika að það skiptir máli að verðlagning sé sem frjálsust á sem flestum sviðum og það verði tryggt að samkeppni sé næg. Það kemur nefnilega í ljós nú, þegar kannað er verðlag hjá þeirri stofnun sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi margoft í sinni ræðu, Verðtagsstofnun, að verð þeirra vara sem ekki eru lengur háðar verðlagseftirliti, innlendra iðnaðarvara, sem gott er að fylgjast með, er lægra en þegar um er að ræða vörur sem leyfi þarf til að hækka á hverjum tíma. Þetta er kannske órækasti vitnisburðurinn um það, hvernig samkeppnin og þá fólkið sjálft með sinni kostnaðarvitund getur haldið verðlaginu niðri og haldið uppi nauðsynlegu aðhaldi að framleiðsluatvinnuvegunum.

Ég get ekki séð að þessar till., sem hv. þm. hefur lagt hér fram, komi til með að breyta einu eða neinu, nema ef vera skyldi í þá átt að gera kerfið heldur þunglamalegra en það er með því að fjölga leyfum sem þarf að fá til að stunda atvinnustarfsemi. Ég held að hv. þm. hefði fremur átt, ef hann vill greiða fyrir versluninni og lækka vöruverð og koma viti í þessa hluti, en ég veit að hann er mikill áhugamaður um það og áhugamaður um svokallaða milliliði, eins og hann kallar gjarnan verslunina í landinu, að flytja frv. um að losa um leyfin í útflutningsversluninni, en aðaluppistaðan og rökin í hans málflutningi voru að það þyrfti að fá leyfi fyrir innflutningsverslun á sama hátt og fyrir útflutningsverslun.

Það væri ennfremur full ástæða fyrir hv. 3. þm. Reykv. að flytja inn á þingið mál, sem var áhugamál ríkisstj. sem hann sat í á sínum tíma, en það er tollkrítarmálið sem var svæft. (Gripið inn í: Hvar er það?) Tollkrítarmálið veit ég ekki nákvæmlega hvar er núna, en það er eðlilegt að hv. 3. þm. Reykv. spyrji að því, því hann var mikill áhugamaður um þetta efni, enda mikill áhugamaður um innflutningsverslunina. Eins held ég að hann ætti að hugsa um þessi mál út frá því hvort ekki væri ástæða til að losa um bankastimplun á innflutningi, eins og tíðkast í dag, en bankastimplunin er beinlínis gerð fyrir þá sem selja vörur til landsins, en ekki fyrir íslenskan almenning eða íslensku innflutningsverslunina. Þetta eykur á vinnu þeirra sem flytja inn og slíka vinnu verður að greiða með fjármunum, með álagningunni. Það er nú einu sinni eðli atvinnustarfseminnar, að það þarf að fást endurgreiddur sá kostnaður sem lagt er í.

Ég vildi minnast á þessi atriði m.a. vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. ætti ekki að þurfa að fara 4–5 ár aftur í tímann til að finna sér viðfangsefni á hv. Alþingi því að ýmislegt er nær okkur í tímanum sem hægt væri að grípa til ef hv. þm. hefur mikla þörf á að flytja brtt. við lög varðandi innflutningsverslunina. Vil ég þá sérstaklega gefa honum gott ráð þar sem tollkrítarfrv. er.

Það er auðvitað aftan úr grárri forneskju að tala um að auka eigi frekar á leyfisveitingar og takmarka með þeim hætti innflutning og útflutning. Hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefur markað sér aðra og nútímalegri stefnu. Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. er sagt frá því skýrum stöfum, að fyrst um sinn verði ekki heimilt að breyta vöruverði og þjónustuverði, en síðan er gert ráð fyrir að opinberum afskiptum verði hætt, þar á meðal af gjaldskrárákvörðunum sveitarfélaga, þ.e. afskiptum ríkisins af sveitarfélagagjaldskrám, og að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar. Þetta eru þeir verslunar- og viðskiptahættir sem tíðkast í flestum nálægum löndum, okkar viðskiptalöndum, og hafa ótvírætt leitt til bestu niðurstöðu fyrir neytendurna og það er það sem skiptir máli. Allt þetta kerfi byggir á því, að við getum notið þess að fá sem lægst vöruverð. Veit ég að um það markmið erum við hv. 3. þm. Reykv. sammála, þótt okkur greini kannske á um leiðir.

Á sínum tíma tók ég þátt í umr. sem urðu um skýrslu verðlagsstjóra sem lögð var fram snemma á árinu 1979, ef ég man rétt. Það er athyglisvert að fletta upp á bls. 12 og 13 í frv. hv. flm. hv. 3. þm. Reykv., og kanna það sem þar stendur. Ég ætla að leyfa mér að lesa það orðrétt, með leyfi hæstv. forseta. Verðlagsstjóri segir:

„Mín skoðun er sú, að við eðlilegar aðstæður í efnahagsmálum sé að öðru jöfnu rétt að færa verðmyndunarkerfið í frjálsara horf en nú er, en ég tel að slíkar aðstæður séu ekki fyrir hendi í okkar þjóðfélagi í dag.

Ég álít, að á tímum mikilla verðhækkana og spennu eins og nú eru verði ekki hjá því komist, að ríkisvaldið hafi í ríkara mæti en ella hönd í bagga með þróun verðlagsmála.“

Hér er ekki verið að kippa neinu úr samhengi. Þetta er niðurstaða verðlagsstjóra. Þeir sem lesa það sem áður er komið og á eftir fer sjá að þetta er kjarni hans máls. Það þarf ekki að lesa meira. Verðlagsstjóri er með öðrum orðum að segja, að á miklum óðaverðbólgutímum, einmitt þeim tímum þegar hv. flm. var í ríkisstj. og voru afleiðing þeirrar stjórnarstefnu sem hann og hans meðráðh. fylgdu, væri nauðsynlegt að grípa til slíkra aðgerða. En nú er komin ný stjórn og breyttir tímar — stjórn sem telur það vera höfuðatriði að ná verðbólgunni niður m.a. til þess að hægt sé að taka upp viðskiptahætti og verslunarsiði í verðmyndunarkerfinu eins og gengur og gerist meðal þeirra þjóða þar sem verðbólgan er á allt öðru stigi en hv. 3. þm. Reykv. þekkir úr sinni stjórnartíð.

Menn mega ekki vera svona fjötraðir í viðjum vanans. Þeir mega ekki vera svo bundnir við það ástand sem var þegar þeir voru í ríkisstjórn. Menn verða að átta sig á að það hafa orðið breytingar í þessu þjóðfélagi. Stærsta breytingin til bóta er auðvitað sú, að verðbólgan hefur lækkað verulega. Á þetta minni ég vegna þess að orð verðlagsstjóra eru í fullu gildi og ég vil taka undir það sem hann sagði á sínum tíma: Við eðlilegar aðstæður í efnahagsmálum á að færa verðmyndunarkerfið til frjálsara horfs. — Þessa stefnu hefur núv. hæstv. ríkisstj. tekið upp og gert að sinni stefnu. Ef hv. 3. þm. Reykv. er sammála verðlagsstjóra hlýtur hann að geta tekið undir með núv. hæstv. ríkisstj. og undir þann sáttmála sem hún hefur gert í þessum málum og lýst er á bls. 6 í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. dró svo fram nýrri skýrslu og birtir hana reyndar með frv., en undir hana rita þeir Þórður Friðjónsson og Ragnar Árnason. Það sama gildir um þessa skýrslu og hina, að hún er að nokkru leyti úrelt. Í lokaorðum sínum segja þeir sem skrifuðu skýrsluna, þeir Þórður og Ragnar, með leyfi forseta:

„Ítreka ber að lokum, að innflutningstakmarkanir af því tagi, sem um hefur verið rætt, eru tvíeggjað vopn. Meðfylgjandi tillögur helgast fyrst og fremst af þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðarbúið og vissar iðngreinar búa nú við. Tillögur okkar eru því um bráðabirgðaráðstafanir.“

Þessi skýrsla var skrifuð í febr. og mars á þessu ári, á þeim tíma sem hv. 3. þm. Reykv. sat í ríkisstj.ríkisstj. sem hafði mistekist með þeim hætti að verðbólgan stefndi hátt í 200% á þessu ári. Það var af þeim ástæðum sem þessi skýrsla var skrifuð, því að það datt auðvitað ekki nokkrum manni í hug að sú ríkisstj., ríkisstj. hv. 3. þm. Reykv., þyrði að bregðast við með öðrum hætti, því hún var fjötruð við sínar eigin úreltu hugmyndir, sem höfðu gengið sér til húðar á þeim stjórnarárum. Nú eru allt aðrir tímar. Nú á það ekki lengur við að iðngreinar búi við þau skilyrði sem þá var. Tímarnir hafa sem sagt gjörbreyst.

Hitt er svo annað mál, að nokkur atriði sem komu fram í þessari skýrslu er vert að skoða. En meginniðurstaðan er úrelt vegna þess að þegar er búið að gera ráðstafanir sem hafa orðið til þess að nú hefur náðst jöfnuður í viðskiptum við önnur ríki. Nefndin var sett á laggirnar til að finna leiðir til að eyða

viðskiptahallanum. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur með aðgerðum sínum unnið að því að ná slíku jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar, þ. á m. í viðskiptunum við önnur ríki, þannig að till. sem hv. 3. þm. Reykv. var að lýsa eru líka á sinn hátt úreltar, þótt ekki séu þær jafngamlar og þær tillögur sem voru uppistaða hans málflutnings. En ég viðurkenni að líta má á nokkur atriði í þessum niðurstöðum og hafa gagn af því. Ég er því þakklátur hv. 3. þm. Reykv. fyrir að birta nál. í þessu frv. því að þar er vissulega fróðleg lesning og miklu fróðlegri en margt annað það sem frá honum hefur komið á undanförnum mánuðum og árum, enda samdi hann það nú ekki sjálfur.

Niðurstaðan er því sú, að það virðast flestir vera sammála um að þegar verðbólga hefur lækkað eigi frekar að hverfa til frjálsari viðskiptahátta en að auka á boð og bönn og leyfisveitingar. Þetta er niðurstaða verðlagsstjóra, þetta er niðurstaða hæstv. núv. ríkisstj. og ég efast ekki um að hv. 3. þm. Reykv. kemst að þessari niðurstöðu eftir að við höfum fjallað um þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. Nd.

Ég ítreka svo, að auðvitað verða þessar till. skoðaðar í n., það liggur í hlutarins eðli, og jafnframt er ástæða til þess að við fáum að fylgjast með þeirri vinnu sem fram fer í viðskrn. og beinist að því að endurskoða lög um verslunaratvinnu, en frv. hv. flm. gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á þeim lögum.