29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

391. mál, innheimta og ráðstöfun kjarnfóðursgjalds

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 71 er fsp. til landbrh. um innheimtu og ráðstöfun kjarnfóðurgjalds. Fsp. var send Framleiðsluráði landbúnaðarins til þess að fá upplýsingar um 1. og 2. tölul. hennar. Byggjast eftirfarandi svör við þeim töluliðum á upplýsingum sem þar eru fengnar.

Eins og hv. fyrirspyrjandi rakti hér var samkv. brbl. útgefnum af landbrh. 3. júní 1980 ákveðið að innheimta 200% gjald af cif-verði kjarnfóðurs frá 24. júní 1980. Frá og með 1. júlí 1980 var ákveðið að ekki yrði innheimt nema 50% gjald af alifugla- og svínafóðri miðað við cif-verð þess. og frá og með 5. ágúst 1980 var ákveðið að lækka gjaldið á alifugla- og svínafóðri í 40% af cif-verði þess og hélst það svo til 1. okt. 1980, en var þá lækkað í 33.33% af cif-verði og hefur það hlutfall staðið óbreytt síðan.

Hins vegar var innheimt 200% gjald miðað við cif-verð af kúafóðri frá 24. júní 1980 og til og með 31. ágúst sama ár. þá var gjaldið lækkað í 33.33% af cif-verði þess og hefur veríð svo síðan.

Ákvarðanir um hundraðshluta kjarnfóðurgjalds af cif-verði kjarnfóðurs hefur alla tíð verið ákveðið af landbrh. í reglugerð samkv. lögum. Fyrst var það reglugerð nr. 348 samkv. lögum nr. 15/1979, um breyting á lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Þá var það reglugerð nr. 441/1981 sett við lög nr. 95/1981 um sama efni og síðasta reglugerð nr. 465/1983 sett við lög nr. 95/1981 um sama efni.

Áður en breytingar á gjaldi hafa verið gerðar með reglugerðarsetningu hefur verið leitað til Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs landbúnaðarins, svo sem lög nr. 951–1981 mæla fyrir um. Heildarinnheimta kjarnfóðurgjalds fram til 9. þ.m. hefur verið 157 440 367 kr. Framleiðsluráð hefur ekki treyst sér til þess að framreikna þessa upphæð til núgildandi verðlags, þar sem greiðslur þessar hafa verið að berast allan þennan tíma í mörgu lagi í hverjum mánuði. Hins vegar er eftirfarandi sundurliðun milli ára: 1980 3 776 096 kr., 1981 29 571 824 kr., 1982 50 807 919 kr., og það sem af er þessu ári til 9. þ.m. 73 284 528 kr.

Í 2. tölul. er spurt um hvernig þessum fjármunum hefur verið varið í einstökum atriðum. Samkv. greinargerð Framleiðsluráðs skiptist það þannig:

Greitt vegna skorts á útflutningsbótum kindakjöts 20 590 343 kr. Endurgreidd verðskerðing sveitarsjóða vegna kindakjöts 63 501 kr. Vegna hækkunar á grundvallarverði gæra verðlagsárið 1981–1982 7 445 026 kr. Endurgreiðslur til sauðfjárframleiðenda pr. kg kjöts 23 360 374 kr. Greitt vegna skorts á útflutningsbótum mjólkur 12 321 371 kr. Greitt til bænda vegna leiðréttingar á mjólkuruppgjöri 1979–80 1 196 156 kr. Endurgreitt til mjólkurframleiðenda pr. lítra yfir vetrarmánuðina 35 928 836 kr. Endurgreitt til nautgripaframleiðenda pr. kg kjöts framleitt árið 1982 4 186 056 kr. Greitt vegna vorharðinda 1983 11 398 377 kr. Greitt til

Áburðarverksmiðju ríkisins 31 695 761 kr. Styrkir til alifuglaframleiðslu 3 342 117 kr. Styrkir til svínaframleiðslu 1 142 222 kr. Greitt vegna kostnaðar, leiðréttinga hjá innflytjendum o.fl. 2 388 370 kr. Styrkur til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 30 þús. Samtals er þetta 154 088 510 kr.

Frá ársbyrjun 1981 hafa allar ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr sjóðnum verið staðfestar af landbrh. eða gerðar með vitund hans.

Í 3. liðnum er spurt: „Er ekki orðið tímabært í ljósi fyrirhugaðrar styrkveitingar upp á rúmar 5 millj. kr. til væntanlegrar dreifingarstöðvar eggja að taka umboðið af þeim sjálfstæða skattheimtu- og úthlutunaraðila sem Framleiðsluráð landbúnaðarins er nú?“

Enda þótt mér sé ekki fyllilega ljóst hvernig þessi spurning er hugsuð, þá er svar mitt það, að ég tel að enn þá sé full þörf á að Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi heimild til að nota álagningu kjarnfóðurgjalds til að stýra búvöruframleiðslunni. Þegar kjarnfóðurgjaldið var fyrst sett á var mjólkurframleiðslan í landinu um það bil 120 millj. lítra, langt umfram innanlandsmarkað. En eftir að ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að draga úr henni með álagningu kjarnfóðurgjalds og fleiri aðferðum var hún á s.l. verðlagsári komin niður í u.þ.b. 104 millj. lítra sem er lítið umfram innanlandsþörf. Verð fyrir mjólkurafurðir á erlendum mörkuðum er hins vegar svo lágt, að það er mjög brýnt að halda mjólkurframleiðslunni sem næst því sem innanlandsmarkaðurinn hefur þörf fyrir.

Á sama hátt hefur sauðfé fækkað mikið á annað hundrað þúsund síðan 1979. Engu að síður voru birgðir af dilkakjöti í landinu nú við upphaf sláturtíðar, eins og öllum er kunnugt um, þannig að þar er einnig við markaðserfiðleika að etja. Við slíkar aðstæður virðist fráleitt að fella þessa heimild til framleiðslustjórnunar úr gildi. Mér er ekki heldur ljóst af hverju styrkur til eggjadreifingarstöðvar ætti að hafa áhrif á þetta mái.

Ég skýrði frá því í svari við fsp. hér á hv. Alþingi um daginn að þegar samtök voru mynduð um heildsöludreifingu á smjöri og ostum hefði heildsölukostnaður lækkað úr 10% niður í 3–4% og þar með verð til neytenda. Þegar eggjaframleiðendur óskuðu eftir því að fá stuðning úr kjarnfóðursjóði til þess að koma á sambærilegri aðstöðu til eggjaheildsölu fannst mér eðlilegt að verða við því ef samstaða yrði milli þeirra um það mál til þess að stuðla að verðlækkun til neytenda á þann hátt líka. Ég get ekki séð að slíkt gefi tilefni til að afnema framleiðslustjórnun.