29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

397. mál, eftirlit og mat á ferskum fiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningu fyrirspyrjanda vil ég segja eftirfarandi:

Reglugerð nr. 55/1970, um eftirlit og mat á ferskum fiski o.fl., er enn í fullu gildi. Síðasta breyting á reglugerðinni er frá 16. okt. 1981 og varðar flokkun á síld. Í mars s.l. fól sjútvrn. samkv. tillögum frá Fiskmatsráði vinnuhópi, sem skipaður er fulltrúum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og sérfróðum mönnum í meðferð á vinnslu sjávarafla, að endurskoða og gera tillögur um breytingar á reglugerð nr. 55/1970, um eftirlit og mat á ferskum fiski o.fl. Formaður vinnuhópsins er Sigurður B. Haraldsson skólastjóri Fiskvinnsluskólans.

Fiskmatsráð ritaði formanni vinnuhópsins bréf þann 16. mars 1983. Segir þar m.a. með leyfi forseta: „Verkefnið verði að gera tillögur um nauðsynlegar og æskilegar breytingar á umræddri reglugerð. Við endurskoðun verði sérstaklega tekið mið af eftirfarandi atriðum:

1. Endurskoðunin byggist á gildandi lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt kann að vera að taka mið af nýjum lögum, sbr. frv. um ríkismat sjávarafurða, skal halda þeim atriðum sérstaklega til haga.

2. Varðandi flokkunarreglur fyrir ferskan fisk skal leitast við að: a) Nýjar gæðaflokkunarreglur endurspegli sem best gæði og verðmæti hráefnis. b) Reglurnar verði sem auðveldastar í notkun við mat, kennslu og fyrir samræmingu matsstarfa. c) Æskilegt er að matsreglur verði þannig úr garði gerðar að auðvelt verði að tölvuvinna niðurstöður, m.a. í því skyni að fylgjast með orsökum galla.

3. Til upplýsinga og viðmiðunar varðandi starfið má minna á eftirfarandi skýrslur: a) Skýrslu Benedikts Gunnarssonar og Sigurjóns Auðunssonar um úttekt á ferskfiskmati, sept. 1982. b) Skýrslu Fiskmatsráðs um ástand ferskfiskmats og tillögur til endurbóta á skipulagi og starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða varðandi ferskfiskmat, okt. 1982. c) Skýrslu nefndar um bætt gæði afla togskipa frá 4. maí 1981.

Sjútvrn. tók þá stefnu strax í upphafi endurskoðunar á málefnum Framleiðslueftirlitsins að gæðamálin yrðu rædd og vegin ítarlega innan raða hagsmunaaðila sjávarútvegsins. Vinnuhópur sá er hér um ræðir er skipaður ellefu mönnum og ekki óeðlilegt að sitt sýnist hverjum. Þrátt fyrir ólík sjónarmið eru komnar brtt. um fjóra fyrstu kafla reglugerðarinnar, en viðkvæmasti hlutinn, er varðar meðferð fisks, gæðaflokkun á ferskum fiski og fiskafurðum, er enn í vinnslu.

Vinnuhópurinn hefur m.a. látið fara fram tilraunir á þorski vorið 1983 á fjórum matsstöðvum. Matið fór þannig fram að metnir voru einstakir matsþættir, sérstaklega lykt, los, blóðæðar í þunnildum og litur í holdi.

Gefin var einkunn fyrir hvern þátt og tölfræðilegir útreikningar hafa verið framkvæmdir. Niðurstöður þær sem nú liggja fyrir úr þessu tilraunamati benda í þá átt að breyta megi matsaðferðum á þann hátt að matsniðurstöður gefi meiri upplýsingar um raunveruleg gæði hráefnis en hingað til hefur verið unnt að fá.

Sem svar við annarri spurningunni vil ég segja það að við munum ekki láta stöðva eða taka þessa mynd úr umferð. Þessari mynd var ekki ætlað að kenna mönnum alla hluti varðandi meðferð á fiski. Það var hugmyndin með myndinni að reyna að vekja sem mesta umræðu. Ég hafði nú vænst þess að umræða yrði um fleiri þætti, t.d. veiðarfæri, vinnuaðstöðu sjómanna, ísun fisks o.fl., en það hefur því miður farið minna fyrir því. Ég tel mig ekki geta fellt dóm um það hvort ein eða önnur aðferð sé nothæf við blóðgun og slægingu. Það má segja raunar um báðar þær aðferðir sem hafa tíðkast. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá er ekki að sjá að þess sé getið í sambandi við niðurstöður ferskfiskmats að aðferðirnar sem slíkar hafi endurspeglast í niðurstöðum matsins. Það virðist vera að sjómenn og útgerðarmenn fái svipaða útkomu úr ferskfiskmati hvorri aðferðinni sem beitt er. Komi gallar hráefnis ekki fram við ferskfiskmatið hljóta þeir að vera það smávægilegir að þeir skipti ekki máli eða að reglugerðin er röng.

Hins vegar er ég persónulega þeirrar skoðunar, og það er það sem flestir hafa vanist sem umgengist hafa fisk, að það sé rétt að láta honum blæða út fyrst og slægja hann síðan. Og ég er sannfærður um að sú aðferð er enn í fullu gildi, enda í samræmi við reglugerð, og hún víðast viðhöfð eftir því sem ég best hef séð.

Hins vegar tel ég ekki rétt að útiloka aðrar aðferðir ef þær reynast vel og komi ekki fram marktækur munur milli þeirra og hinna hefðbundnu aðferða sem lýst er í 46. gr. reglugerðarinnar.

Ég vil aðeins segja það um það rannsóknarverkefni sem nú er í gangi, og það er nauðsynlegt að menn komist að sem bestum niðurstöðum í þessu efni og menn séu sammála, sem fram kemur í bréfi frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins varðandi tillögur að þessu verkefni. Bréf þetta er dagsett 26. okt. 1983 og vitnaði fyrirspyrjandi til þess þegar hann vitnaði í ræðu mína sem ég hélt á aðatfundi LÍÚ. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Almennt eru menn sammála um að a.m.k. tveir þættir hafi mikil áhrif á það hve vel tekst til með blóðgun bolfisks. Í fyrsta lagi hve fiskurinn er lifandi þegar hann er skorinn, í öðru lagi að fiskurinn sé settur í rennandi vatn strax eftir skurð og látinn liggja þar í nokkurn tíma. Um áhrif annarra þátta fer mjög misjöfnum sögum. Venjan er sú, að þegar blóðgað og slægt er í einu lagi þá fær fiskurinn yfirleitt mjög litla vatnsmeðhöndlun. Oftast er stutt skolun í þvottakari látin nægja. sé blóðgað og slægt sitt í hvoru lagi fær fiskurinn hins vegar vatnsmeðhöndlun bæði í blóðgunar- og þvottakari. Mikilvægt er að rugla þessum tveim þáttum ekki saman, þannig að aðgerðaraðferðinni sé kennt um galla í fiskinum sem í raun stafa af of lítilli vatnsmeðhöndlun. Því er lagt til að gerðar verði tvær tilraunir með samanburði á þessum aðgerðaraðferðum. Önnur tilraunin feli í sér að fiskurinn fái enga vatnsmeðhöndlun eftir skurð en í hinni tilrauninni verði allur fiskurinn látinn liggja í rennandi sjó í jafnlangan tíma, t.d. 15 mínútur. Báðar tilraunir feli í sér aðgerð á fiski sem er a) sprelllifandi og b) búinn að liggja í 3–4 klst. á dekki. Úr helmingi fisksins verði framleidd sérfryst óroðflett flök með þunnildum og saltfiskur úr hinum helmingnum. Niðurstöður myndu verða í formi sem þar er greint. Gert er ráð fyrir að verkefni þetta taki tvo mánuði, þ.e. að skýrsla um niðurstöður lægi þá fyrir. Lagt er til að rn. og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins skipti með sér kostnaði við verkefnið á eftirfarandi hátt“ — sem ég sé ekki ástæðu til að tilgreina.

Síðan var þetta endurskoðað með nýju bréfi og þessi tilraun er nú komin í gang. Ég tel mikilvægt að við fáum sem besta niðurstöðu í þessum efnum. Þar geta í sjálfu sér ekki ráðið persónulegar skoðanir mínar eða annarra, eftir því sem maður hefur vanist. Það verður að komast hér að algildum, vísindalegum niðurstöðum og ég hef lagt á það mikla áherslu að slíkar tilraunir fari fram.

Ég fagna því að veruleg umræða hefur orðið um þessi mál og það má m.a. rekja til þessarar myndar. Við vitum það að þessi aðferð er viðhöfð og ég held að það megi fullyrða að ýmislegt mjög slæmt, sem ekki væri kannske gott að sýna, viðgengst í þessum efnum, því miður. Þarna er ástandið ekki sem skyldi. Það reynist að sjálfsögðu erfitt að hafa fullt eftirlit með því. En mikilvægast af öllu er að ef slíkt er gert og ekki hirt um að gera þessa hluti rétt komi það fram í matinu og verðlagningunni. Þá finna viðkomandi aðilar að sjálfsögðu mest fyrir því og þess vegna er mikilvægt að matið og verðlagningin endurspegli ranga meðferð á fiski.

Ég vænti þess, herra forseti, að svör þessi reynist fullnægjandi.