29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. á þskj. 118 hef ég þetta að segja: Það er á stefnuskrá þessarar ríkisstj. að auka sjálfstæði sveitarfélaga í landinu og fá þeim aukin umsvif í hendur þar sem frumkvæði og fjárhagsleg ábyrgð haldast í hendur og stýring opinberrar þjónustu verður nær þeim sem hennar njóta. Sveitarfélögum, sem frá næstu áramótum eru 223 talsins, stjórna kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum, sem bæði þekkja náið hag fólks í sínu sveitarfélagi og einnig þekkja þörf viðkomandi sveitarsjóðs fyrir tekjur til að standa straum af kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið hefur á sinni könnu.

Almennt vil ég styðja það lýðræðislega fjölræði sem verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga hefur í för með sér og eigi hafa önnur afskipti af innri málum sveitarfélaga en ráð er fyrir gert í gildandi lögum. Og eins og áður segir vill ríkisstj. beita sér fyrir því að sveitarstjórnir fái aukið sjálfstæði og fleiri verkefni.

Í 25. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga stendur þetta varðandi útsvörin: „Útsvar skal verða ákveðinn hundraðshluti af tekjum næstliðins almanaksárs, sem þó má ekki hærri vera en 11% af útsvarsstofni, og skal sami hundraðshluti lagður á alla menn í hverju sveitarfélagi. Við samningu fjárhagsáætlunar fyrir næsta almanaksár ákveður sveitarstjórn hver hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á því ári og tilkynnir skattstjóra um ákvörðun sína eigi síðar en 31. mars á álagningarári. Nú hrökkva útsvör samkv. 1. mgr. ekki fyrir áætluðum útgjöldum og er þá sveitarstjórn heimilt að hækka þau um 10% að fengnu samþykki ráðh.“

Varðandi þetta ákvæði vil ég segja að ég mun framkvæma það eins og til er ætlast í lögunum. Ég mun meta allar beiðnir um álag í hverju einstöku tilviki, en hvorki leyfa né synja álags með einni reglu. Sé sveitarsjóðurinn þannig staddur að álag á útsvarsstiga sé nauðsynlegt vegna skuldastöðu eða óhjákvæmilegra framkvæmda, þá tel ég að engum sé greiði gerður með því að synja um álag, sem síðan kynni að leiða til þess að sveitarsjóðurinn kæmist í greiðsluþrot. Nægir erfiðleikar eru fram undan í samfélaginu vegna aflasamdráttar og annarra ástæðna þótt fjárþrot sveitarsjóða bætist ekki við.

Ég vil þó undirstrika að ég mun ekki veita slíka álagsheimild nema að vandlega athuguðu máli og niðurstaðan sé sú að fjárhagsvandi viðkomandi sveitarfélags sé það alvarlegur að aukaálag á útsvar verði ekki umflúið. Það er ekki átakalaus ákvörðun sveitarstjórnar að þurfa að sækja um heimild til aukaálags á útsvör gjaldenda sinna, ekki síst í erfiðu árferði. Eftir slíku sækist engin sveitarstjórn nema í neyð, en sveitarstjórnin verður að bera ábyrgðina.

Ég vil taka það fram að engin sveitarstjórn getur þó gengið að því sem vísu að fá slíka heimild 1984. Rétt er að taka fram að engar upplýsingar liggja fyrir um ákvarðanir sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun þeirra verður ekki til fyrr en í byrjun næsta árs. Ákvörðun sveitarstjórnar um hver hundraðshluti verði lagður á tekjur gjaldenda verður þá tilkynntur skattstjóra fyrir 30. mars á álagningarárinu.

Það er spurt hvort ríkisstj. muni beita sér fyrir að útsvör og fasteignagjöld verði við það miðuð að skattbyrði heimilanna aukist ekki á milli áranna 1983 og 1984. Í fyrsta lagi vil ég vísa til þess sem ég áður hef sagt um verksvið og ábyrgð hinna kjörnu fulltrúa í sveitarstjórn. Sú umr. sem hér er bryddað upp á á vafalaust eftir að verða í hverri einustu sveitarstjórn í landinu. Ég vil ekki beita sveitarstjórnir lögþvingun í þessu máli, enda skortir mig og þá 59 aðra þm. sem hér sitja þekkingu, sem nauðsynlegt er að hafa, um áhrif lögskipaðrar lækkunar útsvars og fasteignagjalda á fjárhag og stöðu einstakra sveitarfélaga. Að sjálfsögðu vil ég stuðla að því að fjármálastefna sveitarfélaganna í landinu falli að efnahagsaðgerðum ríkisstj. þannig að þar reki sig ekki hvað á annars horn. Og vissulega vill ríkisstj. stuðla að því að skattbyrði heimilanna aukist ekki. Ríkisstj. mun formlega fara þess á leit við sveitarfélögin að fjárfestingar- og framkvæmdaáætlanir sveitarfélaga á næsta ári taki mið af efnahagsstefnu ríkisstj. sem þýðir verulegan samdrátt í framkvæmdum og öðrum umsvifum sveitarfélaganna 1984. Ég treysti sveitarstjórnum fullkomlega til að gæta hófs um álagningu útsvara og fasteignagjalda við þær aðstæður í þjóðfélaginu sem við blasa. Sveitarstjórnir þekkja gjaldþol þegna sinna og munu meta ríkjandi ástand hver á sínu svæði.

Efnahagsaðgerðir ríkisstj. s.l. vor, lækkun verðbólgunnar, lækkun fjármagnskostnaðar urðu til þess að losa sveitarfélögin úr alvarlegum fjárhagsvanda sem við blasti. Sveitarstjórnarmenn skilja því manna best hversu þýðingarmikið það er að stefna ríkisstj. nái fram að ganga og munu því áreiðanlega samræma ákvarðanir sínar um álagningu gjalda, skipulagningu rekstrar, fjárfestingu og framkvæmdir 1984 til að svo megi verða.

Skuldastaða sveitarfélaga um næstu áramót verður vissulega erfið, en með samstilltu átaki, lækkandi verðbólgu á að vera hægt að rétta fjárhag þeirra verulega við á næsta ári. Ég hyggst fara þá leið í þessu máli sem vinir okkar Finnar hafa farið síðan 1975. Finnskar ríkisstjórnir hafa leitað samráðs við sveitarfélögin um fjármálastefnuna og niðurstaðan hefur verið samræmd stefna ríkis og sveitarfélaga. Fulltrúar ríkisvalds og samtaka sveitarfélaga í Finnlandi hafa nú gert fjóra slíka samninga. Þeir eru þess eðlis að samið er um ákveðin markmið í fjármálum sveitarfélaga, sem fulltrúar samtakanna mæla með við aðildarfélög sín, og fulltrúar ríkisvaldsins mæla sömuleiðis með við þjóðþing landsins. Í samningunum eru ákvæði um samráðsfundi aðila og aðlögum efnahagsstefnunnar að aðstæðum í þjóðarbúinu á hverjum tíma. Í umboði ríkisstj. mun ég á næstu dögum óska eftir því við Samband ísl. sveitarfélaga að tilnefndir verði fulltrúar til viðræðna við fulltrúa ríkisins um slíkan samstarfssamning ríkis og sveitarfélaga. Það er von mín að unnt verði með því móti að marka ný spor í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hér á landi.