29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki óeðlilegt að hv. þm. vitni í ummæli þjóðhagsstjóra, Jóns Sigurðssonar, en ég vil taka fram í upphafi að hann tók fram í erindi sínu að mikið af því sem þar kæmi fram væru hans eigin hugleiðingar og um sumt af því sem hann segði ekki við nákvæma rannsókn að styðjast. Vegna þess að þetta erindi hefur valdið talsverðum áhyggjum hjá mörgum sveitarstjórnarmönnum, ef litið yrði á það sem ákveðna staðreynd í málinu, leitaði ég eftir því, á hverju þessar upplýsingar byggjast. Ég verð að segja það alveg eins og er, að það liggur alls ekki fyrir að hægt sé að fullyrða að þær upplýsingar, sem þarna koma fram, fái staðist. Ég hef t.d. nýjustu upplýsingar um skuldastöðu sveitarfélaga. Það kom fram í erindi þjóðhagsstjóra að ætla mætti að skuldir sveitarfélaga hefðu aukist um 200–300 millj. Nýjustu upplýsingar, sem liggja á borði Sambands ísi. sveitarfélaga, eru að skuldastaða þeirra sé milli 500–600 millj. kr. og ekki öll kurl komin til grafar.

En ég vildi endurtaka hér það sem ég hélt að ég hefði sagt nógu skilmerkilega í upphafi. Ég mun ekki beita álagsheimild á útsvörin samkv. heimild tekjustofnalaga nema sérstök tilefni gefist til. Það getur verið að einstaka sveitarfélag verði það illa sett með sín fjárhagsvandamál að nauðsynlegt sé að heimila þeirri sveitarstjórn að leggja aukaútsvar á sína þegna, en það er neyðarúrræði og hver sveitarstjórn verður að gera upp við sig hvað henni finnst réttast.

Hins vegar getur enginn fullyrt í dag að sveitarfélögin muni almennt nota 11% álagið samkv. lögum. Þau hafa enn ekki gert neinar áætlanir um sinn fjárhag og það liggur ekkert fyrir í dag um hvernig fjárhagsdæmið kemur út hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ég er alveg viss um að miðað við þær undirtektir sem þegar hafa komið fram í viðræðum við fulltrúa ríkisvaldsins muni sveitarfélögin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að haga sínum álagningarmálum þannig, að þau verði í samræmi við þau áform ríkisstj. að þyngja ekki skattbyrði á næsta ári. Og ég get bætt því við, vegna þeirra ummæla sem komu fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að ríkisstj. er að ganga frá breytingum á skattalögunum, sem eiga að létta skattbyrði þeirra sem lægri tekjur hafa í landinu. Það fá hv. þm. að sjá næstu daga. Þannig er engin ástæða til að fullyrða á þessari stundu að ríkisstj. muni ekki reyna, bæði í samningum við sveitarfélögin og í aðgerðum í skattamálum, að standa við það fyrirheit sem hún hefur gefið um að sjá til þess að skattbyrði heimilanna þyngist ekki á næsta ári.

Ég held að ég þurfi ekki að svara þessu nánar. En ég vil segja það í sambandi við það sem vitnað er í, erindi Jóns Sigurðssonar á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, að ég tek það ekki sem 100% staðreynd. Það verður fylgst með þessum málum og við munum gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að auknar verði álögur á fólkið í landinu, en jafnframt undirstrika ég að ég vil ekki verða til þess að taka sjálfsforræði sveitarfélaga í mínar hendur. Kjörnir fulltrúar sveitarfélaga eiga að sjá um þessi mál og bera fulla ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins.