29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að ítreka þá fsp. sem hv. þm. Svavar Gestsson lagði fyrir hæstv. ráðh. um hvað hann áliti að útsvarsprósenta þyrfti að verða há til þess að skattbyrði yrði óbreytt. Ég tel að ljóslega komi fram í gögnum Þjóðhagsstofnunar að útsvarsprósentan þyrfti að vera nálægt 10%, ef ekki á að vera um aukna skattbyrði að ræða, og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. hafi kynnt sér þessi plögg Þjóðhagsstofnunar. Það munar þarna um 820 millj. Ef sveitarfélögin leggja næst á sömu álagningarprósentuna og á þessu ári yrðu tekjur sveitarfélaganna 3 760 millj., en ef um óbreytta skattbyrði yrði að ræða yrðu tekjur sveitarfélaganna 2 940 millj. Þarna er um 820 millj. kr. mismunur. Ég tel að þessar tölur segi okkur, að ef skattbyrði eigi ekki að aukast megi útsvar ekki vera nema rétt um 10%. — Ég ítreka svo þá spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni.