29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

403. mál, lögrétta og endurbætur í dómsmálum

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja þá fsp. fyrir hæstv. dómsmrh. hvort hann hyggist leggja fram frv. til l. um nýjan dómstól, lögréttu, á þessu þingi.

Ástæðan til þess að um þetta mál er spurt er sú, að á undanförnum árum hefur málum þeim sem áfrýjað er til Hæstaréttar fjölgað svo verulega að mikill dráttur hefur skapast á uppkvaðningu dóma. Reynt hefur verið að ráða bót á þessu með fjölgun dómara í Hæstarétti. Er þess skemmst að minnast, að breytt var lögum um Hæstarétt á síðasta ári, þar sem heimilað var til bráðabirgða að fjölga dómurum Hæstaréttar um þrjá, en þá sátu alls í réttinum ellefu dómarar. Þessi háttur stóð í tæpt eitt ár, en nú hafa þessir dómarar aftur horfið úr starfi.

Eins og sakir standa bíða um 150 tilbúin mál flutnings í Hæstarétti. Þetta þýðir að biðtími einkamála fyrir réttinum er tæplega eitt og hálft ár frá því að þau eru að fullu tilbúin þar til þau fást flutt.

Það ætti öllum að vera ljóst hver vandkvæði geta skapast af svo löngum drætti á afgreiðslu mála frá æðsta dómstóli þjóðarinnar. Leikur ekki á tveim tungum að dómstólameðferð nær tilgangi sínum best ef hún tekur stuttan tíma. Oft eru mál hluti af fjármálaviðskiptum í atvinnurekstri eða milli einstaklinga og er það oftast báðum aðilum til óhagræðis og stundum verulegs fjártjóns ef dregst að fá úrslit þrætu þeirra.

Sú leið hefur nú þegar verið reynd að fjölga dómurum í Hæstarétti. Hún var mjög umdeild hér á Alþingi og voru af sumum á það bornar brigður að setning dómaranna þriggja væri í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ljóst er að sú leið er engin framtíðarlausn. Það sýnir reynslan, og skýtur því enn frekar stoðum undir þá skoðun að fremur eigi að stofna sérstakan áfrýjunardómstól til þess að sinna mörgum þeirra smærri mála sem nú koma fyrir Hæstarétt.

Fjölgun hæstaréttardómara hefur það einnig í för með sér að réttareiningunni í störfum dómstólsins er stefnt í hættu. Hér er við það átt, að þegar í réttinum starfa ellefu dómendur, eins og á síðasta ári, eða átta dómendur, eins og nú er, skiptir dómstóllinn sér í deildir, þar sem fimm eða jafnvel aðeins þrír dómarar taka þátt í meðferð máls. Af því leiðir að engin trygging er fyrir því að niðurstaða í hliðstæðum málum verði ætíð á sömu lund, heldur getur hún farið eftir því hvaða dómarar sitja í málinu hverju sinni. Af þessu getur leitt og hefur leitt, að frá réttinum hefur komið mismunandi niðurstaða um hliðstætt málefni. Slíkt skapar réttaróvissu, sem til lengdar verður ekki við unað og dregur mjög úr fordæmisgildi dóma réttarins.

Um þetta atriði segir núverandi forseti Hæstaréttar Þór Vilhjálmsson, með leyfi forseta, nýlega í grein í Tímariti lögfræðinga:

„Dómurum í Hæstarétti hefur á tæpum áratug fjölgað úr fimm í átta. Sú stefna felur í sér að Hæstiréttur verði deildaskipt stofnun, þar sem meiri hluti getur farið eftir tilviljun. Í þjóðfétagi okkar er hann þá ekki lengur hæstiréttur, sem hefur að aðalhlutverki að dæma mikilvægustu mál og stuðla að réttareiningu, heldur almennur dómstóll til að sinna áfrýjunarmálum af öllu tagi, þar á meðal smámálum.

Lögréttufrv. mundi, ef lögleitt væri, gera Hæstarétti kleift að einbeita sér að því sem mestu skiptir á starfssviði hans og það mundi jafnframt tryggja að mikilvægustu málin yrðu á fyrsta dómstigi dæmd af dómendum sem ekki væru jafnframt stjórnsýslumenn.“

Þriðja ástæðan sem mælir með stofnun millidómstóls sem lögréttu er nauðsyn á meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdarvalds en nú tíðkast í þjóðfélagi okkar.

Hér á landi er það svo, að dómendur í héraði fara margir með veigamikil störf á sviði stjórnsýslu ríkisins. Þeir eru um leið framkvæmdavaldshafar. Þessi skipan samrýmist ekki réttarhugmyndum manna á Vesturlöndum, enda mun leitun á þjóðfélagi þar sem sami maðurinn er dómari og jafnframt æðsti handhafi ríkisvaldsins á staðnum. Formaður Lögmannafélags Íslands Jón Steinar Gunnlaugsson hefur nýlega dregið í efa hvort íslensk lög standist að þessu leyti ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er aðili að. Menn geta, benti hann á, velt því fyrir sér t.d., hvort bótakrafa á hendur ríkisstofnun í máli sem höfðað er úti á landi yrði talin hljóta viðhlítandi meðferð samkv. þessu ákvæði þegar innheimtumaður ríkissjóðstekna á staðnum er dómari í málinu, eða hvort slíkur dómari, sem jafnframt er lögreglustjóri, yrði talinn óháður í opinberu máli sem ríkið höfðar til refsingar á hendur einstaklingi í héraðinu, eftir að dómarinn hefur lokið frumrannsókn í málinu sem lögreglustjóri.

Ég hef hér rakið þrjár röksemdir fyrir því að stofnaður verði millidómsstóll sá sem kallaður hefur verið lögrétta. Þær röksemdir eru: Hraðari meðferð dómsmála, aðskilnaður dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins í héraði og meiri réttareining í störfum Hæstaréttar.

Frv. um lögréttu hefur oftar en einu sinni verið fram borið hér á Alþingi, síðast á þinginu 1980–1981. Á þinginu 1977–1978 var frv. samþ. í Ed., en tími vannst ekki til afgreiðslu þess frá Nd.

Hér yrði um að ræða einn dómstól sem starfar í Reykjavík, en umdæmi hans yrði landið allt. Lögréttan á að fjalla um hin stærri mál sem fyrsta dómstig, en um önnur mál sem annað dómstig. Ætti þá í síðara tilfellinu ekki að mega skjóta málinu til Hæstaréttar. Á þann hátt mundi Hæstiréttur hætta að vera afgreiðslustofnun fyrir smámál sem litla þýðingu hafa fyrir málsaðila. Hann gæti þá einbeitt sér að því að dæma í hinum mikilvægustu málum og það án ástæðulausrar tafar. Við slíka breytingu yrðu dómstig hér þrjú, en hvert mál gæti þó að jafnaði aðeins farið fyrir tvö þeirra.

Kostnaður vegna hins nýja dómstóls yrði ekki mikill þar sem fækka mætti dómurum við héraðsdóma við breytinguna, sérstaklega hér í Reykjavík.

Þessar eru ástæður þeirrar réttarbótar sem að mínu mati mundu felast í stofnun hins nýja dómstóls. Þar hlýtur dómsmrh. að vera í fyrirsvari og hafa alla forustu og því er þessari fsp. til hans beint.