29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

403. mál, lögrétta og endurbætur í dómsmálum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 140 er í IV. lið fsp. um flutning frv. um lögréttu og endurbætur í dómsmálum, sem hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Reykn., hefur gert grein fyrir.

Fyrri spurningin er: „Hyggst dómsmrh. endurflytja á þessu þingi frv. um lögréttu?“

Svo sem kunnugt er og hann rakti hér hefur frv. til lögréttulaga verið lagt fyrir Alþingi fjórum sinnum á árunum 1976–1981, en ekki hlotið afgreiðslu. Ég skal ekki fullyrða hvað ráðið hafi því að frv. náði ekki fram á þingi. Áreiðanlega var kostnaðarsjónarmið ofarlega í huga, en einnig einhver tregða vegna fyrirhugaðrar röskunar á hefðbundinni málameðferð á héraðsdómsstigum, þar sem að verulegu leyti yrði um að ræða flutning meiri háttar mála frá hinum almenna héraðsdómsstól í hinum dreifðu umdæmum til eins dómstóls, sem hefði aðataðsetur í mesta þéttbýlinu.

Þetta mál hefur verið til athugunar í dómsmrn. og ég hef óskað eftir því að sérstök athugun yrði gerð að nýju á kostnaðarviðhorfum, bæði hvað varðar stofnkostnað, mannafla og almennan rekstrarkostnað, þar sem það var nokkuð óskýrt í huga hv. alþm. um hversu miklar upphæðir yrði að ræða, en ekki er það síður nú að sú hlið málsins er ofarlega í huga. Umrædd athugun mun verða gerð í samráði við réttarfarsnefnd og aðra þá aðila sem besta aðstöðu hafa til að leggja mat á áhrif slíkrar skipulagsbreytingar á dómstólakerfinu að því er kostnað varðar. Þar af leiðandi held ég að litlar líkur séu til að ég muni treysta mér til að leggja frv. um lögréttu fram á yfirstandandi þingi.

Hv. fyrirspyrjandi rakti nokkuð hvað gert hefur verið til að leysa úr þeim vanda sem við er að glíma vegna hins mikla málafjölda sem berst til Hæstaréttar.

Á Alþingi 1981 var samþ. að breyta skipan Hæstaréttar, bæta við þremur nýjum dómurum. Vegna þess hvað samþykktin dróst varð þessi skipan á styttri tíma en reiknað hafði verið með. Engu að síður stytti þetta nokkuð biðtíma mála fyrir Hæstarétti. Ég hef þó engan heyrt tala um að grípa til sams konar bráðabirgðaúrræða aftur. Ég skal ekki meta hvort eða með hverjum hætti þessi skipan hafi haft áhrif á réttareiningu Hæstaréttar, en þess mun hafa verið gætt að mestu eða öllu að hinir fastskipuðu dómarar væru í meiri hluta í báðum deildum á þessu tímabili. — Þess þarf vart að geta, að auðvitað voru hinir settu aukadómarar hinir mætustu lögfræðingar. Einn þeirra er nú raunar orðinn fastskipaður dómari í Hæstarétti. Vitanlega geta orðið breytingar á Hæstarétti þar sem menn koma þar og fara og þarf að skipa nýjan þegar annar hættir.

Að því er varðar seinni lið fsp. hv. þm. vil ég einkum ræða þá meðferð mála sem heimiluð var með breytingu sem gerð var á hæstaréttarlögum 1973, en þá var tekið inn í lögin ákvæði um að dómurinn gæti ákveðið að aðeins þrír dómarar skyldu dæma í málum sem telja mætti einfaldari eða minni háttar að mati dómsins. Munu þá ekki síst hafa verið höfð í huga kærumál, þótt þau væru ekki sérstaklega nefnd. Í greinargerð með frv., sem fylgdi frá Hæstarétti, var þess sérstaklega getið að ætla mætti að hægt yrði að fara af stað með þessa meðferð. Varð það vissulega raunin. Að till. Hæstaréttar voru þessar heimildir lítillega rýmkaðar með lagabreytingunni 1979 og 1982. Það er fyrst nú, eftir að aukadómaratímabilinu lauk, að Hæstiréttur hefur aukið verulega starfsemi þriggja manna dóms. Engu að síður eru reglurnar eftir sem áður þær, að sú meðferð er einungis höfð á einföldustu málum og með minna vægi að mati dómsins. Ég tel ekki ástæðu til að ætla að óreyndu að þessi meðferð, sem raunar hefur verið í lögum í áratug, muni raska réttareiningu í störfum Hæstaréttar. Sýnist raunar einsætt að bíða reynslu af þessum starfsháttum, bæði að því er varðar áhrif í þá átt að draga úr biðtíma mála, en einnig reynslu af réttarfarslegum hliðum þessarar meðferðar. Þann reynslutíma er svo rétt að nota jafnframt til þess að leitast við að fá betri yfirsýn yfir þau úrræði sem best gagna um dómstólaskipunina. Eins og ég sagði áður hef ég lagt áherslu á að það yrði gert með því að gera sér sem besta grein fyrir því, hver áhrif lögréttuskipanin mundi hafa bæði hvað varðar kostnaðarhlið og annað.

Friðjón Þórðarson: Herra forseti. Ég tel rétt að láta örfá orð falla í þessu máli.

Í öllum lýðræðisríkjum er það mikið áhugamál manna að dómsmál hafi sem greiðasta för og menn fái sem fyrst skorið úr sínum málum. Svo hefur verið hér á landi, að Hæstiréttur hefur ekki getað sinnt málum nægilega fljótt, þannig að þar hefur orðið bið eða myndast hali svo sem kaltað er.

Lögréttufrv. hefur verið lagt fram að ég ætla fimm sinnum alls, m.a. einu sinni í minni tíð sem dómsmrh. Þetta frv. er vandlega unnið og undirbúið, en þó hefur ekki verið mikill áhugi hv. alþm. á því frv., eins og dæmin sanna. Því kom snemma fram sú hugmynd að fara þá leið að fjölga dómurum í Hæstarétti, þannig að þeir gætu dæmt í tveim deildum, aðeins þrír í minni mátum, en þá fimm í stærri málum.

Þetta hlaut að leiða hugann að því að dómarar þyrftu að vera átta a.m.k. til þess að deildir gætu unnið og starfað samtímis. Fyrst var hæstaréttardómurum fjölgað ef ég man rétt úr fimm upp í sex og síðan úr sex upp í sjö og með breytingu á lögunum, sem gerð var 1982, var dómurum fjölgað um einn upp í átta, þannig að þeir gætu starfað í tveim deildum í senn. Aukadómarar voru settir eða skipaðir um sinn. Það var ætlunin að þeir störfuðu í sex mánuði árlega í tvö ár, en vegna þess hvað frv. seinkaði á Alþingi urðu það ekki nema þrír plús sex eða níu mánuðir alls. Einnig var ráðinn lögfræðingur til aðstoðar Hæstarétti. Ég er alveg viss um að þessar breytingar hafa gert gott eitt og hali mála hefur styst, þó að hann hafi ekki styst nægjanlega mikið. Jafnframt gerði ég ráðstafanir til þess að lögréttufrv. yrði athugað áfram og fól réttarfarsnefnd að skoða það mál undir forustu hæstaréttardómara Magnúsar Thoroddsens.

En það er fleira sem þarf að athuga í sambandi við Hæstarétt. Það þarf að bæta aðbúnað og húsnæði og mætti um það halda jafnlanga ræðu.