29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

403. mál, lögrétta og endurbætur í dómsmálum

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann veitti áðan við fsp. og þá sérstaklega fyrir þær upplýsingar að hann hefur mælt svo fyrir í sínu rn. að ný og sérstök athugun skuli nú fram fara á þessu máli. Vonandi fer hún þá fram með það fyrir augum að málið fái framgang, ella sér maður ekki mikinn tilgang í athugun, kannske fyrst og fremst vegna þess að þetta mál er ekki nýtt, heldur er búið að margkanna það.

Réttarfarsnefnd, sem upphaflega samdi frv., hefur endurskoðað það og lagfært með tilliti til athugasemda sem fram komu á fyrri stigum og einnig með tilliti til kostnaðaratriðisins. Það er rétt að minna á að það eru bráðum 10 ár síðan þetta frv., að vísu í örlítið annarri mynd, var fyrst lagt fram hér á Alþingi, veturinn 1975– 1976. Í sjálfu sér ætti athugunin á kostnaðinum ekki að taka mjög langan tíma. Þess vegna þótti mér heldur miður að heyra það frá hæstv. dómsmrh. að ekki mundi gefast ráðrúm til að leggja frv. fram á þessu þingi. Ég hefði talið það ákaflega æskilegt, svo að þm. gætu þá tekið til þess afstöðu hvort þeir eru þessu máli fylgjandi eða ekki. Eins og ég vék að samþykkti Ed. á sínum tíma frv., en sökum tímaskorts náði það ekki afgreiðslu í Nd.

Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því, að þó að dómsmálakerfi þjóðarinnar sé ekki fjölmiðlamatur á hverjum degi og dómarar landsins og dómsmálamenn séu ekki að bera vandamál sín á torg er hér engu að síður um mikinn vanda að ræða. Ég vék að því, að menn verði að bíða á annað ár eftir því að fá niðurstöðu þrætu sinnar fyrir Hæstarétti. Það er vitanlega mikill vandi. Það var reynt að leysa hann til bráðabirgða með þremur settum aukadómurum. En ég held að menn geti verið sammála um að þar er ekki um neina framtíðarlausn að ræða. Það er ekki leið sem er skynsamlegt að fara aftur. Hér þarf eitthvað annað til að koma. Þá verður vitanlega fyrir sú lausn sem ég hef gert hér að umtalsefni. Ekki aðeins vegna hraðari afgreiðslu mála fyrir Hæstarétti, heldur einnig hins, að það er í hæsta máta óeðlilegt að sömu mennirnir séu umboðsmenn ríkisvaldsins og jafnframt dómarar og þannig hugsanlega settir í þá aðstöðu að þurfa að dæma í þeim málum sem þeir rannsaka sem æðstu valdsmenn.

Hér eru fyrir hendi mikil rök fyrir því að upp verði settur áfrýjunardómstóll, millidómstóll, eins og í frumvörpunum hefur falist.

Menn benda vitanlega á kostnaðarhliðina. Það yrði sennilega einhver kostnaður þessu samfara. Hann verður ekki mikill vegna þess að þá má fækka dómurum við héraðsdómana, kannske ekki alveg að sama skapi en í verulegum mæli. Ég vildi því að lokum beina því aftur til dómsmrh. að þessari könnun, bæði á málinu í heild og kostnaðarhliðinni, yrði hraðað svo að málið gæti fengið þann framgang sem það á skilið að mínu mati. Sameinað þing, 27. fundur.