29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

6. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Þó að í ræðu hv. 2. þm. Reykn. hafi verið fólgin svör við þeim spurningum sem hv. 11. þm. Reykv. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir varpaði fram til flm. þessarar till., þá finnst mér rétt að svara þeim beint, þannig að það sé ljóst hvað átt er við í þessari till.

Hún bar fram tvær spurningar. Fyrri spurningin var um það, hvað átt væri við með orðunum „raunhæf stefna í afvopnunarmálum“ í fyrri málsgr. till. Í rauninni skýrist það, hvað við eigum við með „raunhæf stefna“, þegar setningin er lesin áfram. Það er að okkar mati stefna sem geti leitt til samninga um gagnkvæma og alhliða afvopnun, þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti, þ.e. stefna sem leiði til samninga sem verði framkvæmdir. Í því efni leggjum við mikla áherslu á þau þrjú atriði sem tilgreind eru í setningunni.

Í fyrsta lagi sé um gagnkvæma afvopnun að ræða. Við erum ekki talsmenn einhliða afvopnunar. Við erum ekki talsmenn þess að vesturveldin t.d., ríki Atlantshafsbandalagsins, afvopnist einhliða að einu eða neinu leyti. Við teljum að þegar um kjarnorkuvopn er að ræða verði að vera um gagnkvæma afvopnun að ræða, sem kjarnorkuveldin taki þátt í.

Við leggjum líka áherslu á að um alhliða afvopnun sé að ræða. Í því felst m.a. að afvopnun fari líka fram á fleiri sviðum en á sviði kjarnorkuvopna og í þeim samningum taki þátt fleiri aðilar en kjarnorkuveldin eingöngu. Við teljum að það verði að gera þjóðir bæði austurs og vesturs og reyndar ýmsar aðrar, sem búa yfir miklu magni vopna.

Í þriðja lagi leggjum við mikla áherslu á hið alþjóðlega eftirlit. Við erum sammála því, sem oft hefur verið haldið fram í umr. af þessu tagi, að samningar um afvopnun geti ekki verið raunhæfir nema framkvæmd þeirra sé tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Eitt af þeim atriðum sem hefur reynst hvað erfiðast í öllum samningum um afvopnunarmál er sérstaklega að fá Sovétríkin til að fallast á alþjóðlegt eftirlit. Það er reyndar svo á allra síðustu tímum að það virðist sem nokkrar glufur hafi opnast í andstöðu Sovétmanna við að fela alþjóðlegum eftirlitsmönnum eftirlit á sovésku landsvæði, en um þetta hafa þó ekki náðst endanlegir samningar. Ég held að ég hafi þar með svarað því, hvað við eigum við með „raunhæfri stefnu“ í afvopnunarmálum.

Hin spurningin var sú, hvort ekki eigi að taka sérstakt tillit til eðlis þeirra vopna sem hér um ræðir. Ég tel að það leiði af sjálfu sér að við hljótum að taka sérstakt tillit til eðlis þeirra vopna. Við bendum á: „með sérstöku tilliti til legu Íslands og aðildar þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi.“ Við teljum að einmitt með orðunum „legu Íslands“ séum við að benda á að eðli vopnanna hljóti mjög að koma til greina. Við eigum að sjálfsögðu við kjarnorkuvopn. Við bendum á það í upphafi till., að við beinum áskorun okkar ekki síst til kjarnorkuveldanna og þá hljótum við að taka mið af því, hver sé lega Íslands með tilliti til langdrægni vopna sem hugsanlega yrði beitt gegn Íslandi.

Ég tek það skýrt fram og gat um það reyndar áðan, að afvopnunarumr. beinist að öðrum vopnum en kjarnorkuvopnum. Þó þau séu það sem allir óttast mest eru hin almennu vopn, sem svo eru stundum nefnd, mjög hræðileg. Það eru þau vopn sem eru notuð í heiminum í dag. Ég hef getið um það hér áður úr þessum ræðustól, að frá árinu 1945 hafa verið háðar 140 styrjaldir víðs vegar um heiminn, sem hafa orðið 10 millj. manns að bana, og þær styrjaldir hafa verið háðar með öðrum vopnum en kjarnorkuvopnum. Við sjáum að þau vopn hafa ekki síður verið gereyðingarvopn en kjarnorkuvopnin, þó að kjarnorkuvopnin séu að sjálfsögðu það sem allir óttast mest. Í þessu efni er rétt að geta um það líka, að alls konar tegundir vopna, eins og eiturefnavopn, hljóta að falla undir þessa skilgreiningu líka.

Við teljum nauðsynlegt að í slíkri úttekt og við slíka stefnumótun sé tekið sérstakt tillit til eðlis þeirra vopna sem afvopnun og takmörkun vígbúnaðar hljóta að taka til.