29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var einkennileg ræða sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson flutti hér, a.m.k. í þessu samhengi. Hins vegar var hún býsna kunnugleg. Ég hef heyrt þessa ræðu oft. Ég heyrði hana á hverjum einasta framboðsfundi á Suðurlandi og sjálfsagt hafa sjálfstæðismenn um landið, sem hafa notið þess að fá að hlýða á hinn nýja foringja, fengið að heyra sömu ræðuna mörgum tugum sinnum.

Þessi hv. þm. lýkur aldrei svo sundur munni að hann sé ekki farinn að skamma Alþb. fyrir allt sem hefur verið að ske í þessu þjóðfélagi af hinu verra taginu mörg undanfarin ár. Það er raunar ekki hægt að heyra annað á ræðu formanns Sjálfstfl. en að altar yfirfjárfestingar í landinu í öllum atvinnuvegum þjóðarinnar séu kommum að kenna. Til öryggis má kannske (Gripið fram í: Hvaða kommum?) benda á að rétt er að setja gæsalappir utan um þetta orð. (Gripið fram í: Þú ert nú oft sammála honum.) Hverjum hefur dottið í hug að tala um að vinda ofan af fjárfestingu? Alþb. hefur sífellt verið að benda á að hér hafi verið yfirfjárfestingar á mörgum sviðum. Þær hafa einnig átt sér stað í sjávarútvegi, en alls ekkert fremur en annars staðár. Menn skulu hafa það í huga. Menn hafa fjárfest vitlaust á þeim sviðum sem hv. þm. Þorsteinn pálsson þekkir best til, hjá vinnuveitendum og verslun í landinu. Það hefur verið gífurleg yfirfjárfesting og aldeilis óþörf í landinu til margra ára og er væntanlegt að hún haldi áfram.

Þessi skætingur í garð Alþb. af hálfu hins nýja formanns, hv. þm. Þorsteins Pálssonar, er auðvitað ekki til neins annars en að reyna að þvo hendur sínar og félaga sinna af þeim mistökum sem þeir hafa verið þátttakendur í. Við skulum hafa í huga að Sjálfstfl. hefur hafi tök í stjórn landsins á síðasta áratug jafnvel þó að hann hafi verið kallaður framsóknaráratugur. Sjálfstfl. stjórnaði landinu t.d. frá 1974–1978 og flutti inn ógrynni af togurum eftir að það var komið hér um bil nóg af þeim. Svo er það allt í einu orðið „kommum“ að kenna.

Svona er allt hans mál. Ég held að ef hv. þm. heldur áfram að flytja ræður af þessu sama tagi, í þessum sama tón og um sama efni, þ.e. að tyggja sífellt á sömu frösunum, verði menn býsna fljótt orðnir leiðir á þessari tuggu þegar hv. þm. hættir að vera nýr formaður.

Ég get fullvissað hv. þm. Þorstein pálsson um að það er einmitt Alþb. sem hefur haft forgöngu um það margsinnis að beita sér fyrir eflingu atvinnutækja í landinu. Það er gersamlega minnislaus maður sem leyfir sér að halda öðru fram. Alþb. hefur einmitt verið sá flokkur í þessu landi til langs tíma sem hefur lagt áherslu á að breikka undirstöðuna undir heilbrigt atvinnulíf og íslenskt atvinnulíf í þessu landi.

Ég veit ekki hvað það þýðir þegar hv. þm. nefnir það að eitt mikilvægasta verkefnið í þessu þjóðfélagi sé að hjálpa mönnum við að hætta útgerð. Það er auðvitað alger misskilningur. Við ætlum að halda áfram að gera út í þessu þjóðfélagi, því að ef við hættum því verður ekki hægt að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Það eru erfiðleikar nú í augnablikinu, en þeir líða hjá eins og áður og menn þurfa ekkert að vera hræddir við að við eigum ekki eftir að veiða fisk og miklu meiri fisk en við megum kannske gera á næsta ári. Það kemur dagur eftir þennan dag og við ætlum ekkert að hætta útgerð. Hins vegar kemur vel til mála að hjálpa útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum til að leggja skipum um stundarsakir, meðan ekki er nægur fiskur til í sjónum. Það er ömurlegt að heyra að formaður stærsta stjórnmálaflokksins í landinu skuli leyfa sér að tala svona æ og æ.

Herra forseti. Það fór eins og venjulega, að þegar hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson fjallar um þessi mál gerir hann það, ég held ég megi segja ævinlega, af hógværð og skynsemi og þekkingu. Ég held að það sé góður siður fyrir hv. þm. yfirleitt, og beini ég þá ekki máli mínu til neins eins eða nokkurs sérstaks flokks, að hefja hér umr. —og halda sig við það um þingtímann — sem þeir hafa þekkingu á og áhuga á, en láta hitt vera. (Gripið fram í: Er því beint til Ólafs Ragnars líka?) Því fer fjarri að þessu sé beint að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. — Það er dálítið einkennilegt af svo rólyndum og þéttvöxnum og hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að það er eins og hann hafi ekki tekið ofnæmispillurnar sínar fyrir Ólafi Ragnari í morgun. Ólafur Ragnar má varla segja orð hér í þingsölum svo að Ólafur Þórðarson sé ekki sífellt galandi fram í. Það er gaman að sumum frammíköllum, en frammíköll sem hafa ekkert að segja eru leiðinleg og óæskileg fyrir þann sem kallar fram í.

Ég ætla ekki að fjalla um það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð nefndi, en þar eru auðvitað möguleikar sem óþarft er að horfa fram hjá. Við vitum það báðir við Eyjólfur Konráð, hv. þm., að tilraunaveiðar á þeim skipum sem eru hæf til að stunda þessi fjarlægu mið eru afar dýrar. En það er eiginlega ekkert of dýrt í þessum efnum ef það getur orðið til þess að stækka fiskimið og auka möguleika í framleiðslu. Ég tel því að það megi skoða þetta og eigi að skoða þetta mjög vel.

Það var einnig skynsamlegt þegar hann talaði um að óskynsamlegt væri að gera út af miklu afli á erfiðustu tímum ársins, sem eru nóv., des. og jan. En við getum ekki hætt að fiska þessa mánuði því að fólkið sem hefur atvinnu af því að verka fisk verður að hafa jafna og stöðuga atvinnu. En þá koma einmitt togararnir að bestu gagni þegar bátaflotinn ræður ekki við þá sjósókn eða þarf að stunda netaveiðar. Þær ætti auðvitað aldrei að leyfa í þessum mánuðum því að þær eru mjög dýrar. Þær gefa lítið og minna en ekkert af sér, gera lítið annað en að eyða olíu og slíta veiðarfærum og stofna mannslífum í hættu. Það er tími til kominn að menn hugi að því að sækja ekki svo grimmt að það kosti ekki aðeins peninga, heldur líf manna.

En þetta breytir engu um og leysir ekki þann vanda sem við erum nú í. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er skammtímavandi — kannske fyrst og fremst vandi næsta árs — og við leysum þann vanda ekki með því að stefna að veiðileyfum annars staðar, sem sjálfsagt er þó að reyna þar sem mikill fiskur er fyrir hendi og vinsamlegt leyfi gæti fengist til veiða. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja í það mikla vinnu, senda hæfa menn að semja um það, því það er víðar hægt að leita fanga en í kringum landið. Það er vel hugsanlegt að arðbærar veiðar megi stunda á mörgum öðrum stöðum í Atlantshafi og þá ekki aðeins í Norður-Atlantshafi, heldur miklu víðar. Það gera margar þjóðir með góðum árangri.

Það kom að því að menn áttuðu sig á því að togararnir væru of margir og það er ekki aðeins vegna þess að við megum veiða minna á næsta ári, heldur hefðum við getað náð þessum þorskafla eða svo gott sem öllum með miklu færri skipum. Á því er varla nokkur vafi, því að í stað skrapdagafjölda, ef við hefðum t.d. lagt skrapdagakerfið niður, hefðu miklu færri skip getað annað þorskveiðum. Það sér hver maður í hendi sér. Togararnir eru of margir og það vissum við fyrir löngu. Kannske getur hv. þm. Þorsteinn Pálsson kennt okkur „kommum“ um það líka, en ég er hræddur um að vandinn sé ekkert síður í flokki hæstv. sjútvrh., að standa fyrir því á sínum tíma, en það er liðin tíð. Við losnum ekkert auðveldlega við þessa fjárfestingu. Ég er ekkert endilega viss um að rétt sé að selja þessi skip. Hins vegar er skynsamlegt, ef á að draga úr sókn á togurunum, að taka fyrst út þau skip sem eru dýrust í rekstri og óhagkvæmust. Sannleikurinn er sá, að hægt er að fækka togurum nokkuð. Það er ekki eins mikið vandamál og staðið hefur upp úr mönnum núna þessa umræðustund. Og þéttbýli. Hvað er þéttbýli? Er ekki þéttbýli í Eyjafirði, á Ísafirði? Eru ekki margir togarar til á ýmsum þéttbýlli stöðum í kringum landið þar sem mætti fækka um einn og einn? Eða Vestmannaeyjum? Það er ekki einungis á Reykjavíkursvæðinu, í Reykjavík og Hafnarfirði, þar sem togaraútgerð hófst á sínum tíma, sem á að fækka skipum (Gripið fram í.) Ja, ég skil ekki alveg hv. þm. Skúli Alexandersson og það er ekki í fyrsta sinn sem móttökutækið hjá mér er ekki alveg í sambandi þegar svona er talað. En ef menn halda að sóknargeta Vestmannaeyjaflotans hafi vaxið er það alger misskilningur. Árið 1910 voru 100 bátar gerðir út í Vestmannaeyjum, en nú eru þeir 70. Þeim hefur fækkað á örfáum árum um meira en helming og þó að við höfum fengið fjóra togara í stærstu verstöð landsins hefur sú sóknargeta ekki komið í staðinn fyrir þá sókn sem við höfðum áður. Hins vegar nenni ég ekki að rífast um þetta á milli byggðarlaga og vera að teygja þetta og toga milli Norðlendinga og Sunnlendinga eða Vestfirðinga. Það er búið að rífast allt of lengi á þeim nótum. Þær eru leiðinlegar.

Enn leiðinlegri eru þær ræður, þar sem hefur verið talað um bölvun sjávarútvegsins í landinu. Það hafa komið upp sífellt fleiri og fleiri spekingar í þessum efnum, sem gera lítið annað tímunum saman en ráðast á sjávarútveginn og öll hans mái. Það er svo sem ekki furða þó að sjávarútvegurinn standi illa í landinu um þessar mundir. Það er ekki bara aflaleysi. Þessum undirstöðuatvinnuvegi í landinu hafa verið sköpuð þau skilyrði til mjög margra ára að ósæmilegt er. Það er enginn vandi að láta þessi skip, sem aldrei hafa fengið það fiskverð sem nauðsynlegt var, safna skuldum og lenda í vandræðum. Menn verða að horfast í augu við það. Það þýðir ekkert að heimta góða útkomu á rekstri þegar afurðir þær sem reksturinn skilar af sér eru seldar fyrir slikk. Það sér hver maður í hendi sinni. Það þarf hvorki kapítalista né „komma“ til þess að finna það út. Það sér hver maður sem hefur opin augu. Það hafa t.d. verið fengnir togarar hér til landsins og veiðiskip sem ekki hafa veitt vinnu. skip hafa verið fengin hingað til lands og í sum byggðarlög úti á landi í því skyni að efla atvinnu á staðnum. Síðan hafa þau verið gerð út eingöngu til að flytja ísvarinn fisk til útlanda og hins vegar til að fullvinna aflann um borð og skapa ekki nokkrum manni atvinnu í landi. Það er óskynsamlegt og það er óheiðarlegt að fá skipin á einum forsendum og gera þau út á öðrum.

Herra forseti. Ég ætlaði alls ekki að tala svona lengi, en ég undrast það dálítið þegar menn eru að tala um álverksmiðjur í sambandi við 200 þús. tonna vandamál okkar. Ég get ekki séð að átverksmiðjan komi því máti nokkurn skapaðan hlut við. En jafnvel þó að einhverjir í landinu vildu fá álverksmiðju, kannske margar þannig, sem ég tel ekki mjög skynsamlegt, erum við ekki svo fljótir að rífa upp álverksmiðjur. Vandinn, sem við stöndum frammi fyrir næstu árin, verður gleymdur þegar þær eru komnar á laggirnar. Þess vegna eigum við ekkert að blanda þessu kryddi í málið því að það er ekki í neinum tengslum við þann vanda sem við erum að eiga við nú.

En eitt hefur þó komið út úr þessum vandamálum til góðs. Það er það, að þegar kreppir að verða menn ævinlega að reyna að leita hinna skynsamlegustu og hagkvæmustu lausna. Það á við um hvert mál, ekki bara sjávarútveg, heldur öll mál. Hvað þessum mönnum dettur í hug þegar kreppir að í sjávarútvegi! Loksins fara menn að skilja að nauðsynlegt er að búa við kvótakerfið í veiði. Þegar heildaraflamagn er skammtað er engin skynsamleg lausn önnur en sú að hafa kvótakerfi á skip. Þetta er augljóst og verður alltaf greinilegra eftir því sem vandinn verður erfiðari og aflinn minni til skiptanna. Þá skilja menn loksins, þegar búið er að reyna áð tyggja þetta í þá til margra ára. Auðvitað kann ég allar hinar röksemdirnar. Það er enginn vandi að lepja upp úr hinum og öðrum í sínu kjördæmi og þora svo ekkert að gera. En menn verða bara að reyna að horfast í augu við staðreyndir.

Að lokum, herra forseti, held ég að ástæða væri til að mælast til þess að menn legðu nú af í þessu máli karp á milli stjórnmálaflokka. Ég sé satt að segja ekki að það komi þessum stjórnmálaflokkum, sem flestir eru að verða eins hér ílandinu, nokkurn skapaðan hlut við. Þarna er um svo alvarleg mál að tefla að eitthvert atkvæðapot eða stjórnmálaflokkaþvaður, þar sem menn leitast við að skamma hver annan út af flestöllu, á ekki heima í þessari umr. Þarna er um björg þjóðarbúsins að tefla. Þar er ekki hægt að leggja neinar sérstakar kapítalískar eða sósíalískar línur. Við höfum blandaða útgerð af öllu tagi, einnig í skipulagi, og það eigum við að halda áfram að hafa. Jafnvel þó að menn séu hrifnir af svokölluðum félagslegum rekstri hefur hann líka galla og ekki þá kosti sem margar einstaklingsútgerðir hafa. Sumar einstaklingsútgerðir í landinu eru eðli sínu samkv. þær heppilegustu í rekstri. Það hljóta allir að viðurkenna sem þekkja til. Hinir geta röflað um teoríuna mín vegna, en það geri ég ekki.