30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

85. mál, sveitarstjórnarkosningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Út af aths. hv. 4. þm. Suðurl. vil ég taka það fram, að þetta er óbreytt till. frá nefndinni sem samdi frv. Að sjálfsögðu er það á valdi Alþingis að taka ákvörðun um kjördaginn.

Eins og ég tók fram áðan var reynt að ná samkomulagi um ákveðinn kjördag í sveitarstjórnarkosningum í sambandi við breytingu á sveitarstjórnarlögum sem samin var í des. 1981. Í meðförum Alþingis tókst ekki að ná samkomulagi um einn ákveðinn kjördag sem virtist henta öllum. Af þessu tilefni efndi Samband ísl. sveitarfélaga til skoðanakönnunar meðal sveitarstjórna í maímánuði 1982. Í dreifibréfi sambandsins til sveitarstjórnanna kom fram að nefndin teldi að helst kæmi til álita að velja annan laugardag í júní eða annan laugardag í október og var leitað eftir viðhorfum sveitarstjórna um hvorn ofangreindra daga þær teldu heppilegri sem almennan kjördag í sveitarstjórnarkosningum framvegis. Af svörum sveitarstjórnanna virtist ljóst að hvorki getur orðið samstaða milli dreifbýlissveitarfélaga og þéttbýlissveitarfélaga um kjördag í maí né júní og hugmyndin um kosningar að haustinu virtist ekki njóta fylgis. Nefndin gerði þess vegna till. þá sem liggur fyrir í þessu frv. að höfðu samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga.

En eins og ég segi er þetta ekki heilagt mál. Það má breyta þessu og er sjálfsagt að skoða það. En aðalatriðið í mínum huga er það, að með þessum lögum verði það fastmótað að sami kjördagur verði í öllum sveitarfélögum landsins. Það er þungamiðja þessa máls.

Ég vænti þess að Alþingi og nefndir þingsins skoði þetta vandlega og reyni að komast að samkomulagi um þetta atriði sem önnur í frv.