30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

85. mál, sveitarstjórnarkosningar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þó að ég eigi sæti í þeirri nefnd sem á að fá þetta frv. til meðferðar vil ég samt segja nokkur orð hér. Ég held nefnilega að nauðsynlegt sé að ræða þessi mál betur og íhuga hvort ekki er hægt að ná saman um einhvern þann dag til að kjósa á sem allir gætu að athuguðu máli sætt sig nokkuð við. Ég held að það sé alveg rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það sé spor í rétta átt og raunar sjálfsagt mál að kosið sé alls staðar sama dag. Það eru ýmis vandkvæði á því að kjósa í júnímánuði. Það eru t.d. vandkvæði fyrir strjálbýli. Það er oft og tíðum sem menn eru ekki lausir við fé, eins og hefur verið á undanförnum árum, fyrr en eftir 10. júní og stundum seinna.

Ég hygg að það sé miklu erfiðara fyrir strjálbýlið að hafa kosningar í maí og a.m.k. fyrri hluta júní en fyrir þéttbýlið, jafnvel fyrir sjómennina, að hafa kosningar í apríl, því að það er ekki lengi verið að kjósa á þéttbýlisstöðunum, jafnvel þó að menn séu í vinnu. Það ættu allir að geta kosið. En þegar kemur að sumarfríunum er þetta nokkuð erfitt. Það þyrfti því að líta til margra átta í þessu efni.

Það er líka óþægilegt að kjósa meðan skólarnir eru, ekkert síður. En ég vil varpa því fram, sem raunar kom fram hjá síðasta ræðumanni, hvort ekki sé heppilegri tími t.d. fyrsti laugardagur í sept., þ.e. áður en skólarnir byrja, eftir að sumarfríin eru búin, á þeim tíma sem er þægilegastur fyrir alla. Ég vil koma fram með þetta sem ábendingu og fá umr. um þetta. Ég vildi að þingflokkarnir t.d. ræddu þetta mál, þar sem ég er í þeirri nefnd sem á að fjalla um þetta. Ég held að það þurfi að verða víðtæk samstaða um svona mál.

Í sambandi við 4. gr. kom hv. þm. Ólafur Þórðarson inn á að nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kosningar. Þetta mál, að nú sitji gamla sveitarstjórnin um tíma eftir að ný er kjörin, held ég að þurfi mjög að endurskoða og hugleiða.

Fleira er auðvitað athugunarvert í þessu frv. þó að í heild haldi ég að það sé til bóta. En varðandi þessi tvö atriði eru samt sem áður, eftir að vera búinn að lesa þetta yfir, miklar spurningar — spurningar um það t.d. hvaða dag við eigum að kjósa. Ég held að við hljótum að ná saman um að eðlilegt sé að kosið sé alls staðar á sama tíma. Það er bara spurningin um tímann.