19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér hér smáskynsemiskast og er hérna með fjórar spurningar til hæstv. fjmrh. Ef við reiknum með því að sú upphæð, sem átti að verja þarna til þessara mildandi aðgerða hafi verið upp á einhverja ákveðna krónutölu, og göngum út frá henni, ég er ekki að tala um yfirboð eða annað slíkt, hvers vegna var þá ekki einfaldlega sleppt þessum litla persónuafslætti og hann nýttur frekar til annarra aðgerða í hinum liðunum sem í lögunum er um rætt? Hvers vegna var ekki tekjumark vegna barnabóta notað í staðinn fyrir aldursmark, þar sem við vitum eins og ég sagði áðan að það eru mjög margir sem fá þessar barnabætur sem ekkert þurfa á þeim að halda, sérstaklega ef maður miðar við fólk eins og hæstv. fjmrh. nefndi áðan, sem er með 8 þús. kr. laun á mánuði.

Í sambandi við mæðralaunin má spyrja hvers vegna var ekki jöfn hækkun pr. barn, hvers vegna lækka mæðralaunin eftir því sem börnunum fjölgar eða gætum við kannske ímyndað okkur að persónuafslátturinn, sem nefndur er í 1. gr., hefði hugsanlega mátt nýtast þarna, og í fjórða lagi hvers vegna var ekki gert átak til betri nýtingar orku til húshitunar frekar heldur en að halda þessari niðurgreiðsluaðferð áfram sem við vitum að er nokkurs konar eilífðarvél sem verður að stoppa, því ef við tökum t.d. dæmi af nágrönnum okkar hér í nágrannalöndunum, miðum í fyrsta lagi við það að 20% landsmanna nýta hérna 80% af þeirri orku sem seld er til almenningsnota og horfum svo til þeirra aðgerða, sem nágrannar okkar hafa gert til sparnaðar og nýtingar orku, þar sem þeir hafa hreint náð sem sé allt að því 20% betri nýtingu orku fram sem þýddi t.d. á okkar mælikvarða svona ca. 1 stk. Blöndu eða meira? Hvers vegna var ekki gert frekar átak í þessum málum heldur en að halda áfram svona — ja, ég kalla það óráðsíu. Ég hef lokið máli mínu.