05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

11. mál, launamál

Frsm. 1. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið skiptist fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar í afstöðu sinni til frv. um launamál sem hér liggur fyrir til staðfestingar brbl. ríkisstj. frá 27. maí s.l.

1. minni hl. n. hefur lagt fram álit sitt í þessu máli á þskj. 153. Er það svohljóðandi, með leyfi forseta: „Fjh.- og viðskn. skiptist í afstöðu sinni til brbl. l. minni hl. n. er andvígur setningu brbl. um launamál og mótmælir harðlega þeim ákvæðum frv. sem fela í sér stórfellda kjaraskerðingu launafólks.

Stefán Benediktsson hefur setið fundi n. sem áheyrnarfulltrúi BJ og er hann samþykkur þessu nál.“ Undir þetta nál. skrifar auk mín Þórður Skúlason. Eins og hér kemur fram eru þeir nm. sem að þessu áliti standa í einu og öllu andvígir því að gripið sé inn í gerða samninga á þennan hátt. Þau brbl. sem hér um ræðir eru sett án nokkurs samráðs við þá samningsaðila sem hlut eiga að máli og vanvirða því löghelgan rétt manna hér á landi til að semja um kaup sitt og kjör. Undir slíkar aðgerðir er á engan hátt hægt að taka, auk þess sem það vekur óneitanlega ugg í brjósti hversu stjórnvöld hafa á undanförnum árum misnotað í sífellt auknari mæli það ákvæði stjórnarskrárinnar sem veitir heimild til setningar brbl.

Við erum hér nú að fjalla um lög sem komu til framkvæmda fyrir rúmu hálfu ári síðan. Segir það sig sjálft að slík skipan mála vegur að undirstöðum þess lýðræðisskipulags er við búum við, að þingræðinu. Af þessum sökum telur 1. minni hl. fjh.- og viðskn. ekki rétt, úr því sem komið er, að gera brtt. við frv. þetta, eins og 2. minni hl. n. gerir, heldur kýs að lýsa yfir eindreginni og óskoraðri afstöðu sinni gegn þeim vinnubrögðum og því virðingarleysi við samninga launafólks sem felst í þessu frv. og sem viðhaft var við setningu þessara brbl. í vor.

Þetta frv. hefur hins vegar tekið þeim breytingum, frá því að það var fyrst lagt fram, að í núverandi mynd kveður það á um að samningar skuli ekki lengur vera bannaðir heldur vera lausir frá og með gildistöku frv. sem laga frá Alþingi. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. er vitaskuld samþykkur þessari sérstöku breytingu á frv. og harmar að ekki skuli gefast tækifæri til að greiða atkv. um hana sérstaklega, sökum þess að hún er sett í grein með öðrum efnisatriðum frv. Á hinn bóginn fæ ég ekki séð að ríkisstj. hafi verið knúin til þessara breytinga af siðferðilegum ástæðum eða sökum þrýstings stjórnarandstöðu eins og menn hafa haft á orði hér í ræðustól.

Það kom glöggt fram í ræðu hæstv. forsrh. við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild að sökum nýrra upplýsinga um ástand þorskstofnsins og breyttra efnahagsforsendna af þeim sökum sé ríkisstj. nauðsynlegt að hafa náið samráð við aðila vinnumarkaðsins um hvernig bregðast skuli við þessum válegu tíðindum og þar með fallvöltum forsendum efnahagsáætlana ríkisstj., eða eins og hæstv. forsrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig gerði ég grein fyrir því í þessari tilkynningu til Alþingis að horfur í efnahagsmálum eru stórum verri en áður var gert ráð fyrir. Fyrst og fremst vegna tillagna Hafrannsóknastofnunar um aðeins 200 þús. tonna þorskafla. Þetta krefst að mati ríkisstj. náins samráðs við aðila vinnumarkaðarins en umrætt ákvæði um bann við hækkun grunnlauna hefur staðið í vegi fyrir slíku. Ríkisstj. vildi því ryðja slíkum þröskuldi úr vegi“.

Þarna stendur það. Auk þess má minna á að þessi breyting felur ekki í sér niðurfellingu bannsins frá og með gildistöku brbl. í maí s.l. heldur aðeins styttingu þess um tvo mánuði. Heldur hefði ég kosið, með heill lands og þjóðar í huga, að þessi breyting, svo langt sem hún nær, væri til marks um siðgæðisvitund ríkisstj. og styrk þingræðis í landinu. En svo virðist því miður ekki vera. Stærð þorskstofnsins er hér úrslitavaldur.

Eins og fram kemur í nái. mótmælir 1. minni hl. fjh.og viðskn. einnig harðlega þeim ákvæðum þessa frv. um launamál sem fela í sér stórfellda kjaraskerðingu launafólks. Þetta frv. er með þeim eindæmum gert að þeim sem verst voru settir fyrir í þessu þjóðfélagi er gert að bera byrðarnar af fyrirhyggjulausri stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum undanfarin ár. Frv. kveður á um skerðingu verðbóta á laun samkv. prósentuhlutfalli þannig að þeir sem lægstu launin höfðu hafa fengið fæstar krónurnar í sinn hlut.

Hvernig dettur hæstv. ríkisstj. í hug að krefjast slíkra fórna sem raun ber vitni af þeim sem þegar bjuggu við kröppust kjörin? Hvers vegna reyndi ríkisstj. ekki að dreifa byrðunum réttlátlegar? Það er mín bjargföst sannfæring að ríkisstj. taldi sig komast upp með þetta og kemst upp með þetta vegna þess að ævinlega heyrist minnst í þeim í þessu landi sem minnst mega sín. Það heyrist minnst í þeim sem minnst mega sín ekki einungis hér á hinu háa Alþingi heldur einnig í verkalýðshreyfingunni og á hvers konar fundum og mannamótum.

Í hópi þeirra sem minnst mega sín eru konur í meiri hluta. Þær mynda láglaunahópa þessa lands. Þær vinna rúm 70% ófaglærðra starfa á vinnumarkaðnum. Þær eru þeir launþegar sem vinna hlutastörfin, þær eru þeir lausráðnu, þeir sem takmarkað atvinnuöryggi hafa, þær eru þeir launþegar sem ekki njóta yfirborgana á vinnumarkaðinum og þær eru þeir launþegar sem ekki geta bætt við sig yfirvinnu, ef hún skyldi bjóðast, því þær komast ekki frá börnum og búi til þess að vinna yfirvinnuna. Hafa menn svo hugleitt það í þessu samhengi að fjórða hvert barn á landinu er á framfæri einstæðrar móður? Hafa hv. þm. hugleitt ábyrgðarhluta sinn að þessu leyti?

Ég heyrði ágætist orð yfir konur um daginn. Konur eru sveiflujafnarar, var sagt, þær eru notaðar til að jafna sveiflurnar í efnahagslífinu. M.ö.o., þær eru sendar út til að vinna, eða heim aftur, eftir þörfum efnahagslífsins á hverjum tíma en ekki eftir þeirra eigin þörfum. Og það er nákvæmlega það sem verið er að gera að sínu leyti í þessu frv. Það er verið að nota konur til þess að jafna sveiflurnar. Enn á ný skal þjarma að þeim eins og ekki hafi þegar verið nóg að gert. Andstaða Samtaka um kvennalista gegn fyrrgreindum ákvæðum þessa frv. er því eindregin.

Þeirri spurningu var beint til hæstv. fjmrh. eigi alls fyrir löngu hér í þessari deild hvernig hann teldi að hægt væri að lifa af um 11 000 kr. á mánuði. Hæstv. ráðh. svaraði þessari spurningu af heiðarleika á þann veg að hann sæi ekki hvernig það væri hægt. Ég sé ekki heldur hvernig það er hægt. Það er einfaldlega alls ekki hægt að lifa af lægstu launum í dag. Um það virðast menn vera nokkuð sammála. Og fyrst menn eru sammála um að ekki sé hægt að lifa af þessum launum, hvernig geta þá hv. þm. í þessari deild samvisku sinnar vegna samþykkt frv., sem leggur slíkt á herðar fólks hér á landi, á herðar umbjóðenda hv. þm. Ég vil biðja þm. að hafa það hugfast í atkvgr. um þetta frv. hér á eftir að hér er verið að greiða atkv. um lífsskilyrði manna. Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.