05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

11. mál, launamál

Frsm. 2. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Það var einkar athyglisverð ræða sem hv. 4. þm. Austurl. flutti hér áðan. Ég vil leyfa mér að segja að hún var ekki aðeins einkar athyglisverð heldur í rauninni afar furðuleg. Hún var afar furðuleg að ekki sé þó dýpra í árinni tekið. Víst er um það að verðbólgan var komin á háskalegt stig. Og víst er um það að hún stefndi undir forustu hv. þm. Tómasar Árnasonar og hans flokksbræðra og raunar fleiri hærra en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Síðan kemur hv. þm. hér og segir að það hafi enginn viljað bera ábyrgð. Það er út af fyrir sig rétt að þeir sem áttu aðild að síðustu ríkisstj. vildu enga ábyrgð á þessu bera, enda þótt þeim væri margsinnis bent á hvert stefndi ef fylgt væri áfram þeirri óheilla- og óráðsíustefnu sem fyrrv. ríkisstj. stóð að. Nú eru allir „stikkfrí“. Og það var engu líkara en hæstv. ráðherrar núv. ríkisstj., m.a.s. þeir sem áttu aðild að fyrrv. ríkisstj., hefðu allir komið af fjöllum þegar þessi ríkisstj. var mynduð. Þeim var engum ljóst hvernig ástandið var, þeim var ekki ljóst hve verðbólga var mikil, þeim var ekki ljóst hvað þeir höfðu tekið mikil erlend lán og enn síður virtist þeim vera ljóst til hverra hluta þau lán höfðu farið.

Það voru engar deilur um það að verðbólgan var komin á háskalegt stig. Það voru engar deilur um það að grípa þyrfti til nokkuð róttækra aðgerða. Um það var hygg ég nokkur samstaða. En þar sem hnífurinn stóð í kúnni var um hvernig ætti að jafna þessum byrðum niður. Við vildum, Alþfl.-menn, að byrðar þeirra sem minnst bera úr býtum í þessu þjóðfélagi yrðu að tiltölu minni en hinna. Á það var ekki fallist og um það stendur sá ágreiningur sem hér er uppi núna.

Vissulega var í stjórnarmyndunarviðræðunum margt og mikið rætt um þær ráðstafanir sem gera þyrfti. Hv. þm. og fyrrv. ráðh. Framsfl. Tómas Árnason sagði hér áðan að Framsfl. hefði viljað lögbindingu aðgerða ef ekki næðist samkomulag. Nú spyr ég: Hvað var gert á vordögum, eða snemmsumars þegar verið var að mynda ríkisstj.? Hvað var gert til að reyna að ná samkomulagi? Það var ekki gerður nokkur skapaður hlutur til þess að reyna að ná samkomulagi við launþegahreyfinguna, ekki nokkur skapaður hlutur.

Þegar hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. halda því fram að þær aðgerðir sem hér var gripið til séu fyllilega sambærilegar við aðgerðir sem gerðar hafa verið í Noregi, í Frakklandi og víðar, þá er það alrangt. Ég vona að það sé óviljandi misskilningur en ekki vísvitandi rangtúlkun á því sem var gert. Hvað var gert í Noregi þegar þar var verðlags- og launastöðvun? Það var gert í samráði við norsku launþegasamtökin. Það var gert í samráði við vinnuveitendur í Noregi. Það voru þessir þrír aðilar, ríkisstj., launþegar og vinnuveitendur sem gerðu með sér samkomulag. Hér var engu slíku fyrir að fara. Og á þessu er auðvitað grundvallarmunur. Hér voru bara sett lög, brbl., í skjóli löngu úreltra stjórnarskrárákvæða sem eru í rauninni ákaflega ólýðræðisleg.

Og þá kem ég að lýðræðisþætti ræðu hv. þm. Hvað er lýðræði? Við þurfum kannske ekki að fara út í langar vangaveltur um það. Ég held að í grundvallaratriðum séum við sammála um það. Þetta var lýðræðisleg ráðstöfun, sagði hv. þm. Sú yfirlýsing gengur gersamlega þvert á allan raunveruleikann í þessu máli, að það hafi verið lýðræðisleg ákvörðun sem þarna var tekin, að svipta alla launþega landsins samningsrétti. Ríkisstj. hefur nú sem betur fer heykst á því. Það var sagt hér að hún hefði haft fylgi 37 þm. af 60. Ég hygg að á það hafi aldrei reynt. Kannske heykist hæstv. ríkisstj. á því að fylgja þessu ákvæði fram til endanlegrar gerðar vegna þess að henni var ljóst að hún hafði ekki meirihluta fyrir þessu. Var það lýðræðisleg ráðstöfun að neita að kveðja þing saman í sumar til að ræða þessar efnahagsaðgerðir? Það var ólýðræðisleg og óþingræðisleg ákvörðun. Og þar sem ég veit að hv. þm. Tómas Árnason þekkir nokkuð til stjórnmálaþróunar og þjóðfélagsgerðar í grannlöndum okkar hygg ég að hann geti verið mér sammála um það að engin ríkisstj. í grannlöndum okkar hefði komist upp með slíka hegðan sem núv. hæstv. ríkisstj. iðkar einungis vegna þess hve þingræðið hjá okkur er veikt. Það er furðulegt að tala um þær ráðstafanir, sem gerðar voru hér í sumar, sem lýðræðislegar ráðstafanir: að svipta launþega samningsrétti. Ég fullyrði það að það hefði ekkert af Norðurlandaþjóðþingunum látið bjóða sér það sem þessi ríkisstj. gerði hér í sumar. Það er staðreynd sem við ættum að hugsa töluvert mikið um eins og við ættum að hugleiða hlutverk þingræðisins hér á landi í ljósi þeirrar þróunar sem var og þess sem gerðist hér í sumar.

Þessi ríkisstj. hefur lækkað launin og hún hefur stórlega dregið úr kaupmætti. Það hefur komið harðast við þá sem lakast eru settir eins og hér er raunar búið að rekja. En hvað gerðist í sumar þegar launin voru fryst? Verðhækkanir héldu áfram óheftar og ekki síst frá opinberum aðilum. Þar er líka grundvallarmunur á þeim aðgerðum sem gripið var til og því sem gert var í Noregi. Hvað var gert í Finnlandi 1967, 1968, þegar vísitalan var afnumin þar? Það voru allar aðrar vísitölur afnumdar um leið. Var það gert hér? Aldeilis ekki. Það var bara launavísitalan sem hér var snert. Og enn furðulegra er þegar menn eru hér að gantast um það hvort þetta hafi nú verið leiftursókn eða niðurtalning, leiftursókn í þrepum eða niðurtalning í einu stökki. Staðreyndin eru auðvitað sú að þótt Framsfl. berðist harkalega gegn leiftursóknarstefnu Sjálfstfl. í kosningunum 1979 þá hefur hann nú tileinkað sér þá stefnu í miklu harðari mynd en um var talað 1979 og gengið langtum lengra. Hafi það verið leiftursókn þá er það, sem við höfum upplifað núna undanfarna mánuði og vikur, leifturstríð. Og þau voru ekki fögur orðin sem formaður Framsfl. valdi þessari stefnu Sjálfstfl. 1979. Það var talað um kverkatak sem hér mundi bókstaflega leggja allt atvinnulíf í rúst á tiltölulega skömmum tíma. En skjótt skipast stundum veður í lofti á himni stjórnmálanna og menn eru býsna fljótir að skipta um skoðun og virðast raunar sumir hverjir lifa eftir þeirri reglu að fólk muni ekki nokkurn skapaðan hlut frá degi til dags. En það er bara ekki þannig sem betur fer.

Víst hefur verðbólgan í fjölmiðlum lækkað í prósentum. Það hlýtur auðvitað að gerast þegar launin eru fryst eins og gert hefur verið en dýrtíðin hefur haldið áfram. Fyrir hverja krónu fæst stöðugt minna. Dýrtíðin hefur haldið áfram. Hækkanir hins opinbera hafa gengið fram óheftar. Hvað hefur bensínverðið hækkað t.d. á einu ári? Hefur skattheimta ríkisins þar minnkað? Hefur hlutfall ríkisins lækkað? Hefur álagning olíufélaganna verið lækkuð? Hún var hækkuð. Og hæstv. fjmrh. lýsti því yfir úr þessum ræðustól hér að það væri raunar kannske það besta, sem hægt væri að gera, að fjölga olíufélögunum. Það var líka athyglisverð yfirlýsing.

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem hér er til umr. til staðfestingar brbl., er auðvitað samkv. eðli brbl. þannig að ákvæði þess eru komin til framkvæmda áður en Alþingi gefst nokkurt tækifæri til að fjalla um þau. Allir hafa stjórnarandstöðuflokkarnir lýst mikilli andstöðu við þessa miklu og einhliða kjara- og réttindaskerðingu sem brbl. ríkisstj. hafa falið í sér en á hinn bóginn teljum við Alþfl.-menn rétt að reyna að ná fram þeim endurbótum á þessum lögum sem miða að því að gera þau nokkru sanngjarnari og draga úr því misrétti sem í þeim felst þótt eðli málsins samkv. geti slík ákvæði einungis náð til þess tíma sem fram undan er en ekki til liðins tíma. Í samræmi við þetta höfum við Alþfl.-menn og ég, sem 2. minni hl. þessarar n., flutt brtt. á sérstöku þskj. sem miðar að því að sníða helstu vankantana af þessu frv. Þær eru í samræmi við þær tillögur sem fulltrúar og þm. Alþfl. fluttu í Nd.

Það er þá í fyrsta lagi til að taka að samkv. því lagafrv., sem hér er til umfjöllunar, er bannað að miða laun við vísitölu en vísitölukerfið stendur að öðru leyti óhaggað þannig að t.d. ríkið hefur sjálfvirkar heimildir samkv. vísitölu til að hækka gjöld eins og bensíngjald, þungaskatt og flugvallagjald og sjálfsagt mætti fleira þar til taka. Og við höfum fylgst með því undanfarnar vikur og mánuði hvernig bensínverðið t.d. hefur sífellt hækkað. Það er auðvitað óeðlilegt og ósanngjarnt að þeir hlutar þessa vísitölukerfis, sem lúta að skattlagningu þegnanna og tekjuöflun ríkisins, séu allir óbreyttir, við þeim sé ekki haggað, þeir séu látnir halda sér en launafólki sé óheimilt hins vegar að njóta dýrtíðarbóta sem miðast við vísitölu. Þess vegna er sú till. okkar hér á þskj. 155 sem gengur í þá átt að þessar sjálfvirku heimildir ríkisins verði afnumdar. Ef ríkisstj. óskar hins vegar eftir að hækka slík gjöld yrði að bera fram sérstök frumvörp um það á Alþingi ef þessi till. okkar nær hér fram að ganga.

Af nákvæmlega sama toga eru gjaldskrár sem miðast við fasteignamat. Fasteignamatið er hækkað samkvæmt ákvörðun fasteignamatsnefndar ríkisins og er þá heimil gjaldtaka samkv. gildandi lögum miðað við hið nýja fasteignamat. En þegar verðlag hækkar langt umfram launabreytingar felur þetta í sér óréttláta heimild til sjálfvirkrar gjaldtöku af öllum þorra fólks í landinu. Og eigi að ráðast að vísitölukerfinu verður auðvitað að ráðast að öllum greinum þess í heild sinni eins og gert var t.d. í Finnlandi á sínum tíma en ekki bara að því sem snýr að launafólki og varðar tekjur fólks.

Síðasti ræðumaður, hv. 11. þm. Reykv., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, minntist á það hér áðan að hæstv. fjmrh. hefði verið að því spurður hvernig fólk ætti að lifa á 11–12 þús. kr. mánaðarlaunum. Og eins og hún greindi frá svaraði hann því heiðarlega. Ég vil nú spyrja hv. þm. Tómas Árnason, fyrrv. ráðh.: Hvernig á fjölskylda að framfleyta sér með 12 þús. kr. mánaðarlaunum? Hvernig ætti slík fjölskylda að skipta þessum útgjöldum milli húsnæðiskostnaðar og framfærslukostnaðar? Hvernig mundi hv. þm. leggja til að þetta yrði gert? Það er greinilegt eins og þetta mál hefur verið afgreitt í Nd.hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstj. ætla fólki að lifa af þessum launum og þeir hljóta þá að hafa einhverjar hugmyndir um hvernig að því eigi að fara. Og það verður fróðlegt að heyra svör hv. þm. við því. Lágmarkstekjur á mánuði eru núna tæpar 11 þús. kr. en ef verðbætur hefðu verið reiknaðar samkv. ákvörðun kjarasamninga væru þessar lágmarkstekjur nú um 15 þús. kr. á mánuði. Það má öllum vera ljóst, það er deginum ljósara, að á þessum launum lifir engin fjölskylda. Nú þegar þrengist um á vinnumarkaði, atvinnuleysi skýtur upp kollinum, yfirvinna og möguleikar á aukavinnu minnka, þá er það auðvitað staðreynd að rekstrargrundvöllur fjölmargra heimila í landinu er brostinn. Það þarf ekki annað en tala t.d. við þá sem stunda verslun með matvörur til að heyra hjá þeim hvernig hagur neytenda hefur breyst. Þeir eru með fingurinn á slagæðinni í þeim efnum og fylgjast mætavel með. Það hefur orðið veruleg breyting til hins verra nú að undanförnu.

Auðvitað er öllum ljóst að það er og hefur verið við erfiðleika að etja. Spurningin var bara um að jafna niður eftir efnum og ástæðum eins og það var orðað hér í eina tíð. Þó að skiptar séu skoðanir um það hvernig eigi að bregðast við þessu hljóta allir að vera á einu máli um að það er ekki réttlætanlegt — og var ekki réttlætanlegt — að skerða hlut þeirra sem lakast eru settir. Það er ekki hægt að segja fólki að lifa af 11 þús. kr. á mánuði; það er gersamlega útilokað. Þess vegna flytjum við hér brtt. á þskj. 155 um lágmarkstekjur. Sú till. miðar að því einu að engum séu greidd lægri laun í heild að meðtöldum öllum álagsgreiðslum en 15 þús. kr. á mánuði og nær aðeins til þess launafólks sem hefur lægri heildarlaun en ekki til þeirra sem ná hærri launum með álagsgreiðslum af einhverju tagi. Við gerðum okkur alveg grein fyrir því að þetta er vandasamt og erfitt mál en ég held að við getum líka verið sammála um það að þær aðgerðir, sem hér var gripið til, hafa komið svo harkalega við þá sem fyrir voru lakast settir í þjóðfélaginu að við það verður með engu móti unað. Því eru þessar tillögur fluttar hér til þess að freista þess að sniða nokkra helstu vankantana af þessu frv. og ég vona, virðulegi forseti, að þessar tillögur fái brautargengi hér í þessari virðulegu deild.