05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

11. mál, launamál

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason, 6. landsk. þm., spurði mig að því hvað ríkisstj. ætlaði að gera til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Ég er ekki í neinum vafa um það að það langþýðingarmesta í því efni er að færa niður verðbólguna; ég er í engum vafa um það. Ég er sannfærður um það að ef menn missa vald á þeim málum og verðbólgan hækkar þá verða ekki aðeins nokkur hundruð manns atvinnulausir í landinu heldur þúsundir; ég er sannfærður um það. Og ég er heldur ekki í nokkrum vafa um það að þessi mikla verðbólga, sem hefur geisað hér á Íslandi um langan tíma, hefur haft þau heildaráhrif að við lifum við verri og lélegri kjör en við hefðum ella gert ef við hefðum haft hér litla verðbólgu og eðlilegt ástand í okkar efnahags- og atvinnumálum; ég er sannfærður um það. Ég vildi þess vegna svara þeirri spurningu þm. á þá leið að það þarf að lækka verðbólguna enn og skapa skilyrði til þess að atvinnufyrirtæki, sem eru að stöðvast, geti haldið áfram rekstri og treyst atvinnu fólks. Þá held ég að skilyrði séu fyrir æskilegu og eðlilegu framhaldi.

Hv. þm. sagði að ég hefði sagt að verðbólgan stafaði eingöngu af kjarasamningum. Ég held að þetta sé nú ekki alveg rétt vegna þess að ég tók mjög skýrt fram að verðsprengingarnar í olíunni bæði 1974 — eða í árslok 1973 og 1974 — og aftur 1979 hefðu haft veruleg áhrif í þessum efnum. En ég sagði einnig að kjarasamningarnir 1974 og 1975 hefðu verið óraunhæfir og ég endurtek það: Það er mín skoðun, að þeir hafi verið óraunhæfir. Þeir hafa ekki svarað til þeirra möguleika sem okkar framleiðslukerfi hafði til þess að mæta þeim. Það er mín skoðun.

Ég tók það einnig fram án þess að orðlengja um það að það væru fleiri atriði sem þarna hefðu vafalaust komið til eins og t.d. það að ég er þeirrar skoðunar að of mikil heildarfjárfesting í landinu á undanförnum mörgum árum hafi verið þensluvaldur í þessum efnum. Þar var okkur þó nokkur vorkunn því að við vorum á vissan hátt í kapphlaupi við t.d. olíuverðhækkanir, við vorum að festa verulega mikið fjármagn í okkar orkulindum og vorum að leggja hitaveitur um allt landið og fleira mætti nefna. Ég er ánægður að heyra að Alþfl. er á móti vísitölukerfinu, þessu, sem nú er verið að afnema, og Alþfl. hefur sagt það áður að hann væri því andvígur. Ég held að miklu nær hefði verið fyrir Alþfl. á s.l. vori að hætta við það skilyrði í sambandi við stjórnarmyndunarviðræðurnar að hann vildi endilega fá forsrh. landsins, og tala um vísitölukerfið og efnahagsmálin í staðinn. (KSG: Við gerðum það Tómas Árnason.) Tala um vísitölukerfið og efnahagsmálin í staðinn og draga sig ekki út úr ríkisstj.-viðræðunum svo að segja strax eða eftir 1–2 fundi. Það kann vel að vera að Alþfl. hefði getað haft áhrif til góðs (Gripið fram í: Það er ljótt að skrökva Tómas.) í sambandi við stjórnarstefnu. Ég er ekkert frá því, ég var fylgjandi því að fá Alþfl. inn í þessar viðræður. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar það skilyrði var strax sett af Alþfl. að hann vildi fá forsrh., og síðan ekki söguna meir og þeir hurfu úr viðræðunum. Það voru mér veruleg vonbrigði.

Hv. þm. Eiður Guðnason, 5. landsk. þm., spurði mig að því hvernig fjölskylda ætti að lifa af 12 þús. kr. á mánuði. Ég geri ráð fyrir að það sé erfitt ef það er mögulegt, fer sjálfsagt eftir ýmsu. En ég álít að það sé erfitt. En ég vildi þá spyrja þegar verið er að ræða um efnahagsaðgerðir: Hvernig mundi fjölskyldu reiða af ef fjöldaatvinnuleysi hefði haldið innreið sína á Íslandi í sumar og haust (Gripið fram í.), ef ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur atvinnulífsins í sumar? Ég hugsa að við séum sammála um, ég og hv. þm., að það hefðu ekki verið betri kjör og betra hlutskipti fyrir láglaunafólkið í landinu. En ég hygg, að það hefði kannske fyrst bitnað á því ef atvinnuleysi hefði haldið innreið sína.

Ástæða er til í þessu sambandi að vekja athygli á að 1. júní áttu laun að hækka um 22%, verðbótavísitalan sagði svo fyrir um. Þá hefðu laun manns, sem hafði 50 þús. kr. á mánuði, hækkað um 11 þús. kr., en laun þess, sem hafði 12 þús., hefðu hækkað um 2 600 kr. á mánuði. sem sagt, 8 500 kr. munur. Og ég spyr: Var þetta réttlæti? Ég geri ráð fyrir því að Alþfl.- mennirnir svari þessu neitandi vegna þess að þeir hafa lýst því yfir að þeir teldu að vísitölukerfið sem var hafi verið ranglátt og óheppilegt. En margar spurningar vakna upp í sambandi við þessi mál. Þau eru erfið og það er ekkert létt pólitískt að vera með í því að taka á þeim. Ég get sagt hv. þm. Eiði Guðnasyni að ég tek á mig ábyrgð á því sem gerðist meðan ég var í ríkisstj. Ég er ekki að skorast undan því. En ég vil hins vegar ekki sitja undir því þegjandi sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði hér áðan, að ég hafi ekkert meint með ræðum um verðbólgu. Ég man eftir mörgum ræðum um verðbólgu, bæði hér í þinginu um áraraðir, í ríkisstj. og víðar. Ég hef meint hvert einasta orð af því sem ég hef sagt þar. Hins vegar illu heilli tókst ekki samkomulag í þeim ríkisstj. sem ég sat í frá 1978–1983 um raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálum og mér voru það mjög mikil vonbrigði. (Gripið fram í: Þið sátuð samt.) Já, við sátum kannske of lengi. Ég verð að viðurkenna að mér voru það mikil og sár vonbrigði í bæði skiptin. Ég er nú þeirrar skoðunar, og veit það kannske eins glöggt og margir aðrir, að Alþfl. hefur ekki staðið sig þegar verið var að setja lögin um efnahagsstjórn, lög nr. 13 frá 1979. Hann stóð sig ekki þegar verið var að fjalla um vísitölukaflann í þeim lögum, því miður. Og það þarf ekkert að ræða um Alþb. í þessu efni. Það hafði ekki þrek til þess að standa að raunhæfum ráðstöfunum í efnahagsmálum. Og þess vegna kannske fór sem fór.

Hv. þm. Eiður Guðnason ræddi dálítið um lýðræði. Er ekki nauðsynlegt að staldra við og skilgreina lýðræði? Hvað er lýðræði? Ég vil skilgreina það svona, ég veit ekki hvort hv. þm. er mér sammála: Lýðræði er það er meiri hluti þjóðarinnar ræður málum, stjórnfyrirkomulag þar sem meiri hluti þjóðarinnar ræður málum, en minni hlutinn hefur möguleika í frjálsum kosningum til þess að verða meiri hluti. Mér finnst að menn brengli þessu hugtaki talsvert. Og þegar rætt er um að svipta aðila vinnumarkaðarins samningsrétti þá er auðvitað skylt, ef menn vilja vera heiðarlegir í málflutningi, að taka fram að hér er ekki um að ræða sviptingu um aldur og ævi. Hér er um að ræða sviptingu um tiltekinn tíma vegna þess að raunverulega er um að ræða neyðarástand í efnahags- og atvinnumálum. Neyðarástand krefst þess að neyðarréttur sé notaður. Það má segja að þetta sé eins konar neyðarréttur sem menn eru að nota í svona tilvikum, þegar allt er á hverfanda hveli.

Þegar gerður er samanburður á Íslandi og Norðurlöndunum, — ég sagði réttilega frá því að laun hefðu verið fryst, bæði á Norðurlöndunum og í Frakklandi og miklu víðar, — þá er náttúrlega alveg nauðsynlegt, ef maður ætlar að vera heiðarlegur í málflutningi, að gera grein fyrir því að við erum hér að fást við 100% verðbólgu. Við skulum ekkert vera að fara hærra í því efni. Við erum staddir í 100% verðbólgu. En hvað var verðbólgan í Noregi þegar þeir gerðu þessar neyðarráðstafanir sínar? Ætli hún hafi ekki verið eitthvað í kringum 11%? Ætli sé ekki dálítill munur á að taka á málum þar sem verðbólgan er 11–12% eða þar sem hún er 100%? Ætli verði ekki að gera dálítið aðrar kröfur til ráðstafana, sem eru gerðar, þegar um er að ræða svona gífurlegan mun á ástandinu?

Það er hárrétt hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, í Finnlandi 1967–1968 var samkomulag milti aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. um að afnema vísitölukerfið og það hefur ekki verið endurvakið þar í landi. Þá var verðbólga í Finnlandi líklega um 25 eða 27%, sem er náttúrlega mikið. En hvað er það miðað við 100%? Það sem er e.t.v. meginatriði í þessum umr. er hvaða árangur hefur þegar náðst í þessum málum sem ég álít að sé mjög þýðingarmikill þó að menn deili hart um aðferðir. Það er staðreynd að fyrir liggja tillögur og stefna ríkisstj., og hún er harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni. En hverjar eru í raun og veru tillögur stjórnarandstöðunnar? Ég hef ekki séð tillögur stjórnarandstöðunnar heillegar lagðar á borðið. Maður heyrir hitt og þetta sagt. Það er sagt að jafna þurfi byrðunum frekar o.s.frv., en ég hef ekki séð heitlegar tillögur sem hafa verið rökstuddar þannig að þær væru nægilega róttækar til þess að ná þeim árangri sem er lágmark í viðureigninni við t.d. verðbólguna. Þess vegna er ástæða til þess að spyrja stjórnarandstöðuna um marktækar tillögur, ekki bara lauslegt tal, heldur marktækar tillögur um hvað þurfi að gera til þess að ráða bót á þessu háskalega ástandi.