05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

11. mál, launamál

Landbrh. (Jón Helgason):

Virðulegi forseti. Það er vissulega eðlilegt að umr. verði um þetta mál, þar sem hér er verið að fjalla um tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, sem er kannske eitt af grundvallaratriðum í stjórnmálaumr. Hins vegar hefur farið svo í þessum umr., eins og reyndar vill oft verða, að þær verða lítt málefnalegar.

Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að benda á örfáar staðreyndir, en ætla að öðru leyti ekki að lengja umr. mikið.

Er ég orða það þannig að umr. hafi orðið lítt málefnalegar er það vegna þess að hér, a.m.k. hjá sumum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar, hefur því verið haldið fram að þær aðgerðir sem ákveðið var að ráðast í í vor beri vott um mikla mannvonsku hjá ríkisstj. og stjórnarflokkunum og það hafi, eins og einhver orðaði það, átt að ná sér niðri á launþegahreyfingunni og annað eftir því. Í mínum huga voru þær aðgerðir sem gripið var til á s.l. vori með þessum brbl. alger nauðsyn og fyrst og fremst alger nauðsyn fyrir fólkið í landinu. Þar í hópi er launþegahreyfingin, sem er svo stór hluti af íbúum þessa lands. Það blasti sem sagt við að atvinnulífið var að stöðvast. Við vissum það í maímánuði. Þá var atvinnuvegunum haldið gangandi meðal annars með erlendum lántökum, þar sem verðbólgan var að eyða ekki aðeins rekstrargrundvelli atvinnuveganna, heldur einnig öllu rekstrarfjármagni, þannig að það var ekkert fjármagn til upp í þann sívaxandi krónufjölda sem til þurfti til að halda atvinnulífinu gangandi. Fram undan, ef slíku átti að halda áfram, blasti þess vegna við stöðvun fjölmargra atvinnufyrirtækja og atvinnuleysi, sem allir ræðumenn hér eru þó sammála um að sé það versta.

Það hefur verið nokkuð rætt um hve verðbólguhraðinn væri mikill. Ég hef látið það frá mér fara að verðbólgan hafi verið nálægt 150% í maímánuði. Það sem liggur þar til grundvallar er sú vísitala sem reiknuð var út einmitt um það leyti sem ríkisstj. var mynduð, þ.e. lánskjaravísitalan. Framfærsluvísitalan var reiknuð úf 1. maí og þá hafði hún hækkað um 23.4%, eins og fram kemur í Hagtíðindum, og það þýðir ef það er sett í fjórða veldi, þ.e. ef sami hraði væri áfram næstu þrjá ársfjórðunga til viðbótar, að hún væri orðin 131.5% um áramót. Lánskjaravísitalan hækkaði um 8.25% í einum mánuði. Það þýðir ef það er sett í tólfta veldi, þ.e. framreiknaður sá hraði sem var á því augnabliki á henni, 158.9%. Þetta eru tölur sem hægt er að sjá í Hagtölum mánaðarins, þannig að þetta liggur skjalfest fyrir, en er enginn tilbúningur.

En þá er það um þá miklu kjaraskerðingu sem ríkisstj. á að hafa gripið til af einhverri mannvonsku eða illvilja í garð launþegahreyfingarinnar. Ég býst við að allir hér hafi séð auglýsingu sem launþegasamtökin birtu hinn 1. september s.l. Þar er m.a. þetta línurit. Þetta er línurit sem sýnir hvernig þróunin hefur orðið á kaupmætti kauptaxta. Þar kemur í ljós að frá 1. sept. 1982 er hápunktur á þessu línuriti, en síðan er fallið beint niður og þannig var það allt til 1. júní s.l., þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Eftir málflutningi í umr. nú ætti þetta að sýna illvilja fyrrv. ríkisstj. í garð launþegahreyfingarinnar og þeirra flokka sem að henni stóðu. Það er langt frá því og vitanlega fjarri öllu lagi að halda slíku fram. Mér dettur ekki í hug að bera slíka ásökun á Alþb., sem stóð að þeirri ríkisstj. Framsfl. stóð líka að þeirri ríkisstj. En það var ágreiningur í þeirri ríkisstj. um efnahagsmálin milli flokka. Framsfl. vildi einmitt í ágústmánuði 1982 að það yrðu gerðar breytingar á vísitölukerfinu, taldi að náðst hefði samkomulag um það milli stjórnarflokkanna, en því miður náði það ekki fram að ganga. Alþb. treysti sér ekki til þess. Þess vegna m.a. fór verðbólgan svona upp, og afleiðingin varð fallið sem Alþýðusamband Íslands birti hér á línuriti og varð á þeim tíma sem ríkisstj. sat, því miður. Þar við bættust síðan, og er önnur grundvallarástæðan, minnkandi þjóðartekjur, eins og öllum er kunnugt. Það urðu færri krónur til skiptanna.

Síðan heldur fallið áfram aðeins lengra, fram að 1. sept. Því miður tókst ekki algerlega á stundinni að stöðva þetta fall. Þar átti stærstan þátt aflabresturinn sem varð á vertíðinni á s.l. vetri. Það dró stórlega úr þorskafla, þannig að vegna stöðu útgerðarinnar 1. júní var gengisfelling nauðsynleg til að styrkja stöðu útflutningsatvinnuveganna. En nú hefur sem betur fer tekist að draga stórlega úr verðbólgunni og jafnframt breytist þetta línurit um leið. Það hættir að falla. Vonin var sú, að hægt yrði þegar kæmi fram á næsta ár að fara að síga heldur upp á við, en því miður hefur komið nú hin svarta skýrsla, sem hér hefur verið rædd, sem veikir vonir manna um að slíkt sé mögulegt.

Ég vildi aðeins benda á þetta línurit til að sýna hversu þær umr. sem orðið hafa um illvilja núv. ríkisstj. eru fjarri því að vera málefnalegar. Menn sjá hér á því svo glöggt hver þróunin varð frá árinu 1982. Ég hef ekki heyrt ræðumenn hér tala um að fyrrv. ríkisstj. hafi komið þarna fram af illvilja. Orsökin er þróunin í þjóðfélaginu, annars vegar minnkandi þjóðartekjur og hins vegar að ríkisvaldið bar því miður ekki á þeim tíma gæfu til að stöðva verðbólguþróunina.