05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

11. mál, launamál

Frsm. 2. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort við eigum að hafa þá umr. sem hér á sér stað á því stigi að vera að tala um illvilja og mannvonsku valdhafa, ég minnist þess ekki að hafa tekið mér þau orð í munn hér í þessum ræðustóli. Hins vegar stendur sú staðreynd óhögguð og henni verður ekki haggað að hinir lægst launuðu og lakast settu í þjóðfétaginu hafa verið verst leiknir af þessum ráðstöfunum. Ríkisstj. fékkst t.d. ekki til að ganga að till. okkar Alþfl.-manna um auknar mildandi aðgerðir sem svo voru kallaðar í þessum stjórnarmyndunarviðræðum varðandi þá sem allra lægst launin höfðu. Það stendur eftir. Mér dettur ekki í hug að ætla þeim ágætu einstaklingum sem í ríkisstj. sitja eða málum þar ráða einhverja sérstaka mannvonsku, en það var ekki pólitískur vilji hjá Framsfl. og Sjálfstfl. til að ganga lengra en þetta, þeirri staðreynd fáum við ekki haggað. Menn geta svo kallað það hvaða nöfnum sem þeir vilja, en ég kýs að kalla það að ekki hafi verið pólitískur vilji til að ganga lengra. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. dóms- og kirkjumrh., að sumu leyti hefur þessi umr. kannske verið lítt málefnaleg.

Þá vil ég enn á ný víkja máli mínu til hv. 4. þm. Austurl. Satt best að segja komu þau ummæli sem hann viðhafði áðan þegar hann var að ræða um stjórnarmyndunarviðræður mér afskaplega mikið á óvart. Ef maður ætlar að vera heiðarlegur í málflutningi, sagði hann. Nú held ég að við viljum flestir, allir vonandi vera heiðarlegir í málflutningi, en þau orð sem hann mælti hér úr þessum ræðustóli áðan get ég ekki með nokkru móti kallað heiðarlegan málflutning. (Gripið fram í: Hvað var það?) Nú skal ég koma nánar að því, hv. þm., og rekja það, kannske ekki í mjög löngu máli því nú gerist áliðið, en það mætti tala um það nokkuð langt mál.

Á ákveðnu stigi og á ákveðnum tíma var um það rætt að Alþfl. ætti aðild að ríkisstj. með Sjálfstfl. og Framsfl. Þess þurfti ekki þm.-fjöldans vegna, við vitum allir hvern meiri hluta þessir flokkar hafa í dag, 37 þm. til samans, engin þörf var á Alþfl. Alþfl. vildi tryggja stöðu sína í slíkri ríkisstj. ef til kæmi. Við vorum ýmsir sem höfðum raunverulegan áhuga á að taka þátt í slíku stjórnarsamstarfi ef um gæti samist. Þá setti Alþfl. fram þá till. að embætti forsrh. yrði hjá Alþfl. í slíkri þriggja flokka stjórn. Það mundi hafa haft nokkur áhrif til að tryggja stöðu flokksins í ríkisstj. þar sem hans var tölulega ekki þörf vegna meiri hluta. Þessari kröfu var hafnað umsvifalaust og hún ekkert frekar rædd. Síðan héldu stjórnarmyndunarviðræður áfram í a.m.k. viku eftir að þetta gerðist. Og þess vegna segi ég það aftur og enn að það er ekki heiðarlegur málflutningur að koma hér í þennan ræðustól og segja við þingheim að það hafi verið af þessum ástæðum sem Alþfl. tók ekki þátt í ríkisstj. Hv. þm. Tómas Árnason veit mæta vel að það voru allt aðrar ástæður. Þess vegna eru þau ummæli sem hann viðhafði hér áðan ekki rétt og við skulum nú reyna að hafa þá reglu í heiðri hér að hafa það sem sannara reynist.

Hv. þm. veit mjög vel að um allt önnur atriði var að ræða. Vissulega settum við þessa kröfu, ósk eða tilmæli fram, en því var hafnað og síðan var ekkert meira um það talað. Þetta vita allir sem tóku þátt í þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Og það er mönnum sæmst að viðurkenna það sem rétt er og hafa það sem sannara reynist. Hann spurði hér um till. stjórnarandstæðinga. Hann veit líka mæta vel hvaða till. við lögðum fram í stjórnarmyndunarviðræðunum í þessum efnum. Við vildum ekki fallast á að samningsréttur yrði afnuminn með þeim hætti sem gert var. Það getur enginn jafnaðarmannaflokkur gert þegar ekki hefur verið leitað neins samráðs eða samninga við verkalýðshreyfinguna um hvernig mætti haga þeim málum. Og hann veit vel að það var eitt þeirra meginatriða sem strandaði á. Það kom í ljós daginn sem upp úr þessum viðræðum slitnaði að bæði Sjálfstfl. og Framsfl. voru búnir að læsa sig svo rækilega inn á þetta að því varð ekki haggað. (Gripið fram í: Þið vissuð ekkert hvað þið vilduð.) Það kom fram í samtölum sem áttu sér stað í þessu virðulega húsi. Við vissum, hv. þm. Egill Jónsson, nákvæmlega hvað við vildum. Það var vegna þess að við vissum hvað við vildum sem við tókum ekki þátt í þessari ríkisstj., en þar virtust hins vegar sumir vera tilbúnir til að fórna hverju sem var bara fyrir stólana. Það kom í ljós þegar þessi stjórn var sett á laggirnar.

Till. Alþfl. í landbúnaðarmálum voru m.a. mjög ítarlegar og þær mættu ákveðinni andstöðu t.d. hjá framsóknarmönnunum í Sjálfstfl. og framsóknarmönnunum í Framsfl. Ég held nú samt að við hefðum verið tilbúnir til að slaka til varðandi það sem við þar lögðum til, ef við hefðum séð eitthvert ljós fram undan, ef við hefðum séð til lands, en því miður þar höfðum við ekki árangur sem erfiði. Þó við kæmum ekki fram þeim kerfisbreytingum þar sem við vildum voru þau mál ekki gerð að úrslitaatriði. Við erum búnir að heyja það langa baráttu í þessum málum þar sem menn hafa nú viðurkennt réttmæti skoðana og afstöðu Alþfl. undanfarin 20 ár eða rúmlega það, tekið upp framleiðslustjórnun í stað óheftrar framleiðslustefnu. En við eigum mikið verk óunnið að koma nokkuð meiri skynsemi í þá stefnu en nú er og við munum að sjálfsögðu halda því áfram þó að ýmsir þvælist þar fyrir sem mest þeir mega.

Hv. þm. Tómas Árnason spurði hér áðan: Hvað er lýðræði? Það er ekki hið eiginlega lýðræði þegar menn sitja hér í tveimur flokksherbergjum niðri og setja þjóðinni lög. Það er ekki lýðræði, það er skrípamynd af lýðræði eins og þessi brbl.-heimild nú er orðin þegar menn sitja hér á lokuðum flokksfundum í herbergjum Framsfl. og Sjálfstfl. Þar á ekki að setja landinu lög, það á að gerast á Alþingi. Og auðvitað er brbl.-útgáfa með þeim hætti sem hér hefur verið iðkuð afskræming á lýðræðinu, við skulum bara viðurkenna það, og þar þurfum við að breyta.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, en hv. þm. Tómas Árnason viðurkenndi að erfitt mundi verða að lifa af 12 þús. krónum á mánuði, hann viðurkenndi að það mundi verða erfitt venjulegri fjölskyldu. Ég fullyrði að það er ekki hægt.