05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

11. mál, launamál

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. Jón Helgason kom hér upp áðan og sýndi okkur auglýsingu sem Alþýðusamband Íslands hafði birt um kaupmátt kauptaxta. Hann sýndi okkur línurit af því hvernig kaupmáttarstigið hefði fallið og sleppti því að lesa auglýsinguna sem slíka sem sýnir miklu meira en þetta línurit. Þar segir, með leyfi forseta:

„1. júní hækkuðu lágmarkstekjur um 10% en önnur laun um 8%. Lágmarkstekjur eru nú 10 539 kr. á mánuði og samkvæmt kjarasamningum vantar 33% eða 3 500 kr. á öll laun, vantar 1. sept. 36% en svokallaðar mildandi aðgerðir svara til 2% í kaupi.“

Þá segir jafnframt í þessari auglýsingu: „Matarreikningur vísitölufjölskyldunnar varð 1. ágúst 1983 8 600 kr. á mánuði. Lágtekjufólk sem var 96 stundir að vinna fyrir matarreikningi fyrir ári þarf nú að vinna 141 klukkustund.“

Þá er jafnframt bent á að jafnhliða því að klipið er af kaupinu eru altar hugsanlegar verðhækkanir leyfðar, bæði á opinberri þjónustu og öðru og greiðslubyrði af lánum hefur aukist hrikalega. Þessa auglýsingu birtu alþýðusamtökin til að benda á hversu mjög hefur verið ráðist á kjör launþega og ég hygg að birting þessarar auglýsingar hafi orðið til að gera fólki grein fyrir hve harkalega var að gengið.

Í umr. áðan varpaði hv. 4. þm. Austurl. oft fram spurningunni: Hvað er lýðræði? Og ég leyfi mér að fullyrða að þær aðferðir sem stjórnarflokkarnir hafa notað til að keyra fram þær aðgerðir sem nú er verið að leita staðfestingar á eru ekki lýðræði. Ég bendi á að Sjálfstfl. sagði fyrir kosningarnar og löngu eftir kosningar að hann væri á móti því að svipta verkalýðsfélögin samningsrétti. Framsfl. kúgaði hann til að samþykkja það og ég efast um að hann hafi fengið þá alla í lið með sér í þeim efnum. A.m.k. hefur orðið sú raunin á að nú þegar þing er komið saman hafa þeir hver á fætur öðrum neitað því að vilja samþykkja slíkt og sjálfsagt er það þess vegna sem nú er ætlunin að afnema þetta samningabann.

Tómas Árnason leyfði sér að vitna í stjórnarmyndunarviðræður og hélt því fram að á því einu hefði strandað að Alþfl. hefði viljað forsrh. Þetta er náttúrlega eins og hvert annað rugl og er afskaplega undarlegt að hann skuli sjá sig knúinn til að halda slíku fram. Alþfl. setti á sínum tíma fram þá kröfu að honum yrði falið forsæti í ríkisstj. til að tryggja stöðu sína vegna þess að á Alþfl. þyrfti ekki að halda atkvæðalega séð, en það var ekki á það hlustað því miður. Ég tel að ef svo hefði verið gert þá litu þjóðmálin öðruvísi út en þau gera í dag.

Ég minni á að það er ekkert einsdæmi að flokkur sem ekki hefur fleiri þm. á bak við sig en Alþfl. ber slíka ósk fram. Ég minni á að 1978 þegar Framsfl. var minnsti flokkurinn í landinu féllumst við kratarnir á að leyfa þeim að hafa stjórnarforustu illu heilli og fer það ekki eftir stærð flokka hver eða hverjir þá ábyrgð axla.

Hitt er annað að þegar ljóst varð að ekki var fallist á þessa kröfu héldum við áfram viðræðum og reyndum að ná samkomulagi um manneskjulegar aðgerðir til varnar verðbólgu til að bæta efnahagsástandið, en þar strandaði á Sjálfstfl. og Framsfl. Það var á málefnum sem strandaði en ekki því að við hefðum ekki fengið tilskilin embætti og það eru málefni sem við deilum um í þessum efnum en ekki vegtyllur.

Hins vegar var það Framsfl. ekkert mál um hvaða málefni var rætt. Þeim var mest í mun að sitja í ríkisstj. Völdin voru þeim fyrir mestu og eru þeim alltaf fyrir mestu, sama hverju á gengur. Reyndar kom það fram hjá hv. þm. áðan þegar hann var að lýsa því hver ágreiningur hefði átt sér stað í fyrri ríkisstj. Þeir hefðu verið á móti hinu og þessu. Þeir hefðu viljað gera miklu meira og allt öðruvísi en gert var. Þeir hefðu verið á móti vísitölunni og viljað skerða hana en aðrir ekki viljað skerða hana. En þrátt fyrir að þeir hafi verið á móti þessu sátu þeir sem fastast. Þeir sátu og sátu því að völdin voru þeim meira virði en nokkur skoðun. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og þeir sem ekki eru samþykkir þeirri stefnu sem þeir sjálfir eru að framkvæma eiga ekki að standa í því að vera í ríkisstj. eða axla ábyrgð.

Ég lýsti hér áðan yfir að ég væri á móti því vísitölukerfi sem í gildi var. Ég tel að það hafi ekki tryggt kaupmátt sem skyldi. Það hefði mátt semja um vísitölu sem tryggði kaupmátt lægstu launa betur, en því miður varð ekki samkomulag um þá hluti, hvorki í verkalýðshreyfingunni né annars staðar. En ég tel að vísitölur verði að vera þrátt fyrir það og ég get ekki skilið annað en verkalýðshreyfingin verði að semja um einhvers konar vísitölu í því verðbólguástandi sem í þjóðfélaginu er enn í dag. Og við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir að menn láti svo að verðbólga sé komin niður úr öllu valdi, — og ég held að forsrh. hafi verið kominn niður fyrir núllið þegar hann var á yfirreið um landið nú á dögunum, er verðbólgan í 30–40% nú og í slíku ástandi hlýtur láglaunafólk að verða að tryggja sín kjör með einhverju móti, hvort sem það er kallað vísitala, rauðstrik eða annað. En að afnema vísitölu eina sér og láta allar aðrar vísitölur, allt verðlag stórhækka áfram getur ekki gengið til lengdar og það verður til þess að þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari.

Ef ég vík aftur að þeim ágreiningi sem hv. þm. var að tala um var það nú aldrei ljóst fyrr en eftir að ríkisstj. lagði upp laupana að þessi ágreiningur hefði átt sér stað og því var neitað statt og stöðugt í þingsölum að nokkur ágreiningur væri fyrir hendi. Þetta var allt í einni kærleikssæng. Ég vona að hv. þm. komi ekki oftar með þær fullyrðingar sem hann kom með áðan varðandi stjórnarmyndunarviðræður því að ég hygg að þetta hafi verið sagt í stundarbræði. Honum hlýtur að hafa verið það ljóst að það hvort Alþfl. hlaut forsrh.-embættið eða ekki var ekki aðalatriði stjórnarmyndunarviðræðna heldur allt aðrir hlutir, allt önnur mál sem þar skiptu sköpum. (EgJ: Þið eru fljótir að gleyma.)

Við Alþfl.-menn lögðum á það ríka áherslu að ef gera ætti uppskurð í þjóðfélaginu yrði að taka á málum eins og t.d. landbúnaðarmálunum. Yngri menn í Sjálfstfl. voru því sammála að svo ætti að gera. En gamla liðið, framsóknarmennirnir í Sjálfstfl., eins og kom fram hér áðan, neituðu öllum breytingum í þeim efnum. Menn eins og hv. þm. Egill Jónsson stóðu í vegi fyrir að slíkt yrði gert. (EgJ: Þú minntist aldrei á þetta.) Og ég minni á, ef við eigum að halda áfram samtali hér á meðan ég er í ræðustól, að Egill Jónsson tók aldrei þátt í þessum stjórnarmyndunarviðræðum og hefur því lítið af þeim að segja. En það þykir mér verst að á þeim fáu fundum sem Tómas Arnason sat við stjórnarmyndunarviðræður skyldi hann öllu hafa gleymt eða allt skrumskælt sem þar fór fram.