05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

11. mál, launamál

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp er það, að hér kom maður áðan og þóttist vita allt um allt og mínar innstu hugrenningar einnig. Hann ræddi um árið 1979 þegar tekist var á um efnahagsmálin eins og oft áður. Ég vil upplýsa hann um að ég hef sömu skoðun á vísitölumálum nú og þá. Ég tel að það þurfi að koma vísitölu þannig fyrir að óvandaðir stjórnmálamenn geti ekki ráðskast með hana hvenær og hvernig sem þeir vilja. Og ég tel að það eitt að krukka í vísitöluna lækni engan vanda.

Ég spyr: Hvað hefur vísitölukrukkið á undanförnum árum leyst? Hvað leystu 7% 1981? Hvað leystu hinar skerðingarnar? Þær leystu ekki neitt. Vandinn hélt áfram og verðbólgan óx.

Við Alþfl.-menn gerðum vorið 1979 tillögur í efnahagsmálum um gerbreytta efnahagsstefnu. Við lögðum á það þunga áherslu að tekið yrði á vandanum öllum. Við fengum ekki stuðning Framsfl. við þær tillögur og ekki Alþb. heldur, því miður. Þá væri öðruvísi um að horfast í efnahagsmálum í dag ef Framsfl. hefði ekki talið sig fyrst og fremst þurfa að gæta að völdum sínum í stað þess að koma til samstarfs við okkur Alþfl.-menn um að bæta úr í efnahagsmálum. Ég tel að það sé einn höfuðvandi efnahagslífsins í dag að Framsfl. skuli yfirleitt koma nálægt þeim. Það er sú fylking sem hefur komið þessu öllu í kaldakol og heldur því væntanlega áfram ef svo fer sem horfir.

Afnám vísitölunnar leysir ekki neitt. Það á hv. 4. þm. Austurl. eftir að sjá. Það eitt að ráðast á launþegasamtökin og þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu leysir ekki neitt. Það mun þegar til lengdar lætur auka vandann og gera allt erfiðara, vegna þess að þær aðferðir sem nú er beitt eru gerðar án samráðs við einn eða neinn. Það er notað grimmdarlegt einræði í þessum efnum, hlustað á það eitt að taka af launþegum án tillits til þess hvort þeir geti lifað af launum sínum eða ekki.