05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ekki kemur til mála að mínum dómi að þetta frv., sem hér er til umr., gangi fram óbreytt. Hins vegar er þetta mál sem þarf að leita samkomulags um og vissulega væri æskilegt að ná í málinu fram sáttum milli þéttbýlis og dreifbýlis. Aðstæður í hinum ýmsu sveitarfélögum eru mjög mismunandi gagnvart sumarbústöðum. Annars vegar er um að ræða dreifða bústaði í sveitum, þar sem engin þjónusta er veitt. Hins eru mörg dæmi í þorpum úti á landi, að sumarbústaðir eru nánast við aðalgötur á skipulagsbundnum svæðum. En væri ekki hægt að sættast á hálft prósent fasteignagjald á allt íbúðarhúsnæði í landinu, eins og raunar segir í 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga?

Ég á sæti í félmn. þessarar hv. deildar, sem væntanlega fær þetta mál til skoðunar, og mun þar ásamt öðrum nm. leita leiða að finna viðunandi samkomutag í þessu máli.