05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sú meginregla að sveitarfélög ákveði sjálf sína gjaldheimtu byggist m.a. á því, að sveitarstjórnarmenn standi frammi fyrir sínum kjósendum og geri þeim skil á þeirri gjaldheimtu við næstu kosningar. Nú vill svo til að þegar sumarbústaðaeigendur eiga í hlut standa sveitarstjórnarmenn ekki frammi fyrir sínum kjósendum við næstu kosningar og þurfa þess vegna aldrei að gera þeim skil á þeirri ákvarðanatöku sinni þegar þeir ákveða gjald á sumarbústöðum. Þetta atriði gerir það að verkum að hér er um nokkra sérstöðu að ræða.

Ég vil einnig, eins og 1. flm. gerði hér, rekja nokkuð gang þessa máls. Ég fel að það hafi verið misráðið á sínum tíma að fella algjörlega niður sýsluvegasjóðsgjald af sumarbústöðum, ekki vegna þess að ég sé ósammála því, sem kom fram hjá 1. flm., að það sé rétt að þeir hafi í flestum tilfellum byggt sjálfir sína vegi í nágrenni við sumarbústaðina, heldur hins, að tilvist sumarbústaðanna mun að sjálfsögðu þýða að eigendur þeirra ferðast um nærliggjandi sveitir og njóta þess umhverfis sem þar er og aka þá m.a. á sýsluvegunum, sem eru mjög lélegir og þyrftu gjarnan að batna og eðlilegt að allir greiði til þeirra sem um þá vegi fara.

Hins vegar vil ég taka undir það með honum alveg sérstaklega að ég tel að við þurfum að ná sáttum á milli dreifbýlis og þéttbýlis í þessu máli. Ég er hræddur um að sá stóri hópur utanbæjarmanna sem á íbúðir í Reykjavík, sem er ekki svo lítill fjöldi, teldi að það væri ansi harður kostur ef þeir yrðu skyldaðir til að greiða af þessu íbúðarhúsnæði miklu hærri gjöld en þeir sem búa í borginni. Það mundu að sjálfsögðu upphefjast ansi harðar umræður og athugasemdir við slíkt.

Ég hef séð reikninga frá sveitarfélögum sem hafa skattlagt sumarbústaðaeigendur upp á 1.2% á sama tíma og fasteignagjöld í Reykjavík voru 0.42%. Þetta hlýtur að leiða hugann að því að það gengur einfaldlega ekki að svo misjafnt sé að málum staðið gagnvart íbúðareign, hvort sem um er að ræða sumarbústað í dreifbýli eða íbúð í eigu manna utan af landi hér í Reykjavík.

Hins vegar vil ég bæta því við að ég hef alltaf talið ákaflega óeðlilegt að önnur lög skuli gilda um stéttarfélög í landinu. Sumarbústaðir í eigu stéttarfélaga eru atgjörlega skattlausir. Þetta nær náttúrlega engri átt. Hvers vegna skyldu stéttarfélögin ekki greiða gjöld af sínum sumarbústöðum eins og aðrir? Eiga sérstök lög að ná yfir þá og hvers vegna? Það er ekkert sem mælir með því. Þetta var einu sinni gert, sennilega nokkurs konar dúsa í samningum, og lítið hugsað út í það gagnvart framtíðinni hvaða afleiðingar þetta hefur. Auðvitað verður þetta til þess að sveitarfélög forðast eins og heitan eldinn að stéttarfélög fái að byggja sumarbústaði í þeirra sveitarfélögum, þar sem þau vita að það þýðir að þau fá enga skatta af þeim.

Ég tel nauðsynlegt að þetta mál komi til afgreiðslu hér í þinginu og ég tek undir það með 1. flm. að mér finnst það óeðlilegt ef mönnum dettur í hug að reyna að svæfa það í nefnd og koma þannig í veg fyrir afgreiðslu þess í þinginu.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram að komi fram brtt., sem bjóði málamiðlun í þessu máli af sanngirni, þá tel ég að þeir sem standa að flutningi málsins eigi að íhuga hvort ekki sé skynsamlegra að ná landi á þann hátt. En það skyldu menn hafa sem grundvallaratriði í þessu máli að það verður engum til góðs til lengdar, ef svona mál verða til þess að auka á togstreitu milli dreifbýlis og þéttbýlis.