05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., hv. 12. þm. Reykv., hafði ég sérstöðu í þessu máli þegar það var síðast til meðferðar hér á hv. Alþingi þar sem ég lagði fram brtt. þess efnis að frv. yrði fellt. Rökstuðningur minn fyrir því er að sjálfsögðu óbreyttur að því leyti til, að ég hef þá bjargföstu skoðun að sveitarfélögin sjálf eigi að ráða yfir sínum tekjustofnum og hafa ákvörðunarvald um hvernig þeim er varið og hvernig gjöldin sem liggja þeim til grundvallar, eru lögð á.

Ég vil benda á að á síðasta þingi skeði það að sýsluvegagjald var fellt niður, sem vissulega var sjálfsögð aðgerð vegna þess að það var löngu orðin úrelt skattheimta eins og allir viðurkenndu. Þess vegna var sjálfsagt að fella það niður. Ég tel eðlilegt að skoða þetta mál í því ljósi að allir eigendur slíkra sumarbúða eða sumarhúsa, orlofsbúða, greiði sama gjald og íbúðahúsaeigendur í landinu. Þess vegna greiddi ég brtt., sem kom fram frá hv. 4. þm. Suðurl. á sínum tíma, atkvæði mitt. Ég vil meina að það sé málamiðlun sem Alþingi gæti gert ef það vill á annað borð hafa bein afskipti af þessum þætti tekjustofnalaga sveitarfélaga.

Hér kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf. gagnrýni, sem heyrist víða um land, á þá ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að orlofsbúðir samtaka launþega í landinu væru undanþegnar fasteignasköttum. Þetta verður vissulega rætt af meiri þunga á næstunni ef sú ákvörðun verður tekin að taka 2/3 hluta tekna viðkomandi sveitarfélaga af með samþykkt hér á hv. Alþingi. Ég er ekki að taka afstöðu til þessa. Þessir samningar voru gerðir á sínum tíma og hafa að sjálfsögðu verið haldnir og það hafa ekki komið fram bein mótmæli gegn þessu ákvæði. Hins vegar óttast ég það, ef svona róttæk aðgerð yrði gerð í einu stökki, að þá muni þetta fljótlega vekja umræðu og sveitarfélögin muni leita réttar síns á þessu sviði.

Svo að vikið sé að þjónustu sveitarfélaga þá má vel vera að hún sé víða af skornum skammti en ég fullyrði að það er vaxandi þáttur í starfsemi margra sveitarfélaga að auka þjónustu sína við sumarbústaðaeigendur og er það að sjálfsögðu eðlilegt.

Ég vildi sem sagt beina því eindregið hér inn á hv. Alþingi að þetta verði skoðað vandlega, það verði reynt að forðast illdeilur eða mikinn ágreining um þetta mál en reynt að fara samkomulagsleið til að jafna þann ágreining sem uppi er um þetta. Mér finnst of harkaleg aðgerð að taka 2/3 hluta þessa gjalds af með einni samþykkt því að mörg dreifbýlissveitarfélög eru þannig í sveit sett að þetta er einn aðaltekjustofn þeirra. Ég vara þess vegna eindregið við því að það sé gert en tel sjálfsagt að reyna samkomutagsleið. Ég styð heils hugar þá hugmynd sem hér hefur þegar komið fram frá hv. 6. þm. Suðurl.