05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta er kannske ekki stórt mál og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Það er hins vegar réttlætismál. Og þegar svo er komið að ræðumenn hver á fætur öðrum vitna til þess að þetta sé tilefni til að sætta nú sjónarmið dreifbýlis og þéttbýlis og þegar það undur hefur gerst að við hv. 5. þm. Vestf. erum á einu máli, þá hljóta það að skoðast sem eins konar sögulegar sættir. Hann er flm. að þessu máli. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess.

Þær röksemdir sem hæstv. félmrh. notar í málinu, sem eru þær að sveitarfélög eigi að vera einráð um að ákveða tekjustofna sína, eru ekki gildar í þessu máli m.a. af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi hefur verið sýnt hér fram á að einstök sveitarfélög notfæra sér hæstu heimildir og gera sumarbústaðaeigendum, þrátt fyrir litla þjónustu, að greiða helmingi hærri fasteignagjöld en sínum eigin þegnum. Í annan stað, ef menn vilja nota þau rök að þetta eigi að vera sveitarstjórninni í sjálfsvald sett, þá gilda þau rök að sjálfsögðu um álagningu gjalda á íbúa í viðkomandi sveitarfélögum. Hitt er verra, svo vitnað sé til orða flm., þegar sumarbústaðaeigendur eru notaðir sem aukabúgreinar. M.ö.o.: sveitarstjórnir eru hér að leggja gjöld á aðila sem ekki eru í þeirra sveitarfélagi og nota þá aðstöðu til þess að mismuna mönnum gagnvart þessari skattlagningu. Þetta er kjarni málsins. Þetta er réttlætismál í þeim skilningi að það á að láta eitt yfir alla ganga. Hér er því of langt gengið í skattlagningu án þess að sambærileg þjónusta komi í staðinn.

Á það ber að leggja áherslu að því er varðar þetta mál sumarbústaðaeigenda, að kostnaður sveitarfélaga er í flestum tilvikum vegna þjónustu við þá lítill og í mjög mörgum tilvikum nánast enginn. Þess vegna er þetta, eins og ég sagði, réttlætismál sem ég styð eindregið.