05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að taka til máls. Það er afskaplega óheppilegt og óeðlilegt að menn fái ekki að svara þeim fullyrðingum sem fram koma þegar þeir flytja sín mál. En ég skal verða við beiðni virðulegs forseta um að reyna að stytta mál mitt mjög mikið þó að annað sé tilefnið.

Ég vil þá fyrst svara hv. 3. þm. Reykv., Svavari Gestssyni. Það er alveg rétt sem hann segir að gengisfesta og þær fullyrðingar sem ráðh. og ríkisstj. hafa haldið á lofti geta vel verið reistar á sandi. En þessi sandur sem hv. þm. talar um er blandaður sterkri blöndu af sementi og þá vita menn hvað það dugar lengur en sá sandur sem fyrrv. ríkisstj. byggði á. Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að bera saman festu í gengi og festu í verðlagi við þær sífelldu gengislækkanir og gengissig sem var hjá fyrrv. ríkisstj. og ætla að telja þjóðinni trú um að ráðstafanir sem koma verðbólgunni hátt á annað hundrað prósent séu betri en staðfast verðlag og staðfesta í stjórn? Þetta er kannske í fyrsta skiptið í mörg ár sem þjóðin hefur fengið að finna mun á hvað það er að vera stjórnað af stjórn sem leiðir af sér betri lífskjör. Fólk er farið að finna og skilja þetta. Slíkum áróðursmeistara sem hv. 3. þm. Reykv. er mistekst í raun og veru gersamlega í málflutningi sínum vegna þess að hann nær ekki einu sinni inn til þeirra lægst launuðu. Þeir finna hvað festan í verðlagi hefur að þýða.

En ég ætla ekki að svara honum frekar. Um frv. sjálft sem hér er á dagskrá var ekki annað sagt en að það hafi verið lýðskrum. En ég get svarað honum og öðrum þeim hv. þm. með því að vísa til þess samanburðar sem ég hef gert á bráðabirgðaráðstöfunum, brbl. fyrrv. ríkisstj. og þessarar ríkisstj. Í þessum ráðstöfunum eru mildandi aðgerðir á móti enn þá harðari aðgerðum en nokkru sinni hafa verið gerðar í brbl. fyrrv. ríkisstj. og okkar mildandi ákvæði voru með hækkuðum persónuafslætti, hækkuðum mæðralaunum, hækkuðum barnabótum. Til samanburðar voru viðbótarskattar lagðir í vörugjaldi og viðbótarvörutegundir færðar inn í vörugjaldsflokka. Að öðru leyti voru þessi frumvörp ákaflega svipuð.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu þó að ég eigi margt eftir ósagt og hefði gjarnan viljað svara og mun svara þeim öðrum sem hér hafa tekið til máls þegar þessari umr. verður fram haldið.