05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera lengi. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur fyrir að færa þetta mál inn á þingið því að með umr. hér gefst þm. og þjóðinni vonandi tækifæri til að kynnast því hvaða rök liggja í þessu máli. En ég fel í rauninni hart að það skuli þurfa að fara upp utan dagskrár til að Alþingi fái að láta í sér heyra um mál eins og þetta því að um allan heim ríkir nú dauðans angist vegna kjarnorkusprengjanna og í löndunum allt í kringum okkur eru þessi mál rædd utan þinga og innan. Og ég held að það sé sómi þessa þings að ræða svona mál einu sinni til hátíðabrigða nokkurn veginn samstiga við umr. sem fer fram í þjóðfélaginu en lenda ekki í því sí og æ að vera á öðrum tímaskala.

Ég lýsi áhuga mínum og eindreginni stefnu okkar Bandalagsmanna í þá átt að Alþingi ræði og marki stefnu í utanríkismálum, en þetta sé ekki eingöngu í verkahring ráðh. og embættismanna hans. Ég vil skjóta því með að í tillögum BJ er einmitt lögð rík áhersla á frumkvæði Alþingis í utanríkismálum.