19.10.1983
Neðri deild: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

36. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 8131. maí 1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Frv. þetta er flutt til þess að opna möguleika fyrir smærri fiskiskip á suðurlandi til þess að geta stundað dragnótaveiðar yfir sumar- og haustmánuði. Nú á seinni árum hefur það orðið æ algengara að fiskiskip í verstöðum sunnanlands, sem eru um og yfir 20 metra að lengd eru verkefnalaus eða verkefnalítil eftir að humarvertíð lýkur og fram að áramótum. Helst hefur verið reynt að gera þessi skip út á fiskitroll eða netaveiðar. Það hefur reynst óarðbær útgerð, fiskitrollin vegna þess hve olíukostnaður er gífurlega mikill og afli langoftast lítill og lélegur. Það sama má segja um afla netaveiðibáta á þessum tíma. Netaveiðar hafa þó verið stundaðar af nokkrum smærri fiskiskipum, en eins og áður er sagt hefur afli þeirra, nær eingöngu ýsa, verið lélegur og lítill. Eðlilegast væri að dregið væri úr þessum netaveiðum yfir haustmánuði en dragnótin leyfð í staðinn, þar sem hún gefur miklu betra hráefni til vinnslu í landi. Þau stærðarmörk, sem sett eru í frv. þessu, að leyfa þessar veiðar fiskiskipum allt að 23 metrum að lengd, eru til komin vegna þess að fiskiskip, lengri en 23 metrar, eiga hægara með að stunda veiðar á fjarlægari miðum.

Í frv. er tekið fram að þessar veiðar skuli heimilaðar tvö ár, 1984 og 1985. Þarna er um tilraunaveiðar að ræða og þess vegna heppilegt að ekki verði um of mikinn skipafjölda að ræða. Ef hins vegar reynslan verður sú að veiðarnar gefist vel er ekkert sem mælir á móti því að heimila þær stærri skipum að þessum tíma loknum.

Eins og segir í frv. hefur það ítrekað komið fram að skarkolastofninn er ekki nærri því fullnýttur, en koli er sá fiskur sem helst veiðist í dragnót. Skarkoli og sólkoli hafa veiðst töluvert úti fyrir Suðurlandi, en þær veiðar mætti auka til muna. Bolfiskafli hefur dregist saman á undanförnum árum og horfur eru á að á komandi ári verði um enn frekari samdrátt að ræða. Nauðsyn þess að auka veiðar og vinnslu annarra fiskstofna er því augljós. Á árum áður var það dragnótaveiðin sem hélt uppi atvinnu í fiskvinnslunni yfir haustmánuðina. Þær veiðar voru síðan stöðvaðar og veiðarfærið fordæmt vegna þess að möskvastærð þess var talin mjög óheppileg, möskvarnir allt of smáir, og ennþá eru til menn sem halda þessu fram þó svo að búið sé að stækka möskvana og margsanna að dragnótin gefur mun betra og verðmætara hráefni heldur en þau veiðarfæri sem nú eru leyfð. Sem dæmi má nefna að koli, sólkoli eða skarkoli, sem veiðist í dragnót, er þrisvar sinnum verðmeiri en koli veiddur í fiskitroll. Samt eru menn enn að þrjóskast við og viðurkenna ekki staðreyndir.

Staða fiskvinnslunnar og útgerðar er mjög slæm. Þar verður að leita leiða til úrbóta. Ég tel að með því að leyfa dragnótaveiðar í auknum mæli sé stigið stórt skref í rétta átt.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til sjútvn.