06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

58. mál, eggjaeinkasala

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 5. landsk. þm. er nei. Miðað við þá samkeppni, sem hefur verið við sölu á eggjum, samrýmist raunveruleg einkasala á eggjum ekki því sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að dregið skuli úr opinberum afskiptum af verðlagsákvörðunum þannig að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar, þar sem samkeppni er næg. Það skal jafnframt upplýst að 1. nóv. s.l. ritaði viðskrh. bréf til Verðlagsstofnunar og óskaði tillagna hennar um framkvæmd þessa atriðis í stefnuyfirlýsingunni. Þessu til viðbótar vil ég að fram komi að verðlagning á eggjum er hins vegar háð sérstökum lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl. nr. 95/1981 sem landbrn. hefur með að gera en ekki viðskrn.