06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

108. mál, kreditkort

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins minna á að árið 1980, þ.e. á 102. löggjafarþingi, bar ég fram fsp. um hvort leita þyrfti leyfis stjórnvalda til stofnunar lánakortafyrirtækja hér á landi. Þá svaraði því þáv. hæstv. viðskrh. Tómas Árnason svohljóðandi, ef ég má lesa með leyfi forseta:

Ekki þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar slíks fyrirtækis. Sé slíkt fyrirtæki stofnað í formi hlutafélags fylgist hlutafélagaskrá með því að við stofnun félagsins sé gætt ákvæða nýju hlutafélagalaganna nr. 32 12. maí 1978, um skilyrði fyrir skrásetningu félagsins. Í þessum lögum, sem tóku gildi að því er ég hygg um áramót, eru allítarleg ákvæði um skrásetningu hlutafélaga, og viðskrn., sem á að annast þá skrásetningu, er nú að fjalla um það með hverjum hætti verði best fyrir komið framkvæmd þeirrar skrásetningar sem nýju hlutafélagalögin segja fyrir um.“

Ég hygg nú að hrollur kunni að fara um ýmsa hv. þm. og aðra, sem á kynnu að hlýða, ef fyrirtæki, sem hafa slíka veltu eins og þarna gæti orðið á ferðinni, hafa ekki meiri og alvarlegri skyldur, ef illa færi, en hlutafélög hafa. Og ég vil taka undir orð hv. þm. Kjartans Jóhannssonar því að ég hygg að það sé miklu meira en ástæða til að setja lög um rekstur slíkrar starfsemi, sem auðvitað er nýtt form á bankastarfsemi.

Ég spurði einnig í sama fyrirspurnartíma árið 1980, hvort slík fyrirtæki væru háð eftirliti, t.d. samsvarandi bankaeftirliti. Hæstv. þáv. viðskrh. kvaðst hafa sent fsp. til umsagnar Seðlabankans. Svarið var á þá leið, að lánakortafyrirtæki væru ekki samkv. þágildandi lögum og reglum háð eftirliti sem samsvaraði bankaeftirliti. Mér þykir það líka nokkuð atvarlegt ef menn mega reka meiri háttar bankastarfsemi utan við bankakerfið og án eftirlits bankaeftirlitsins.

Í þriðja lagi spurði ég: Ef slík lánastarfsemi er óháð lögum, hyggst þá viðskrn. beita sér fyrir lagasetningu sem tekur til slíkrar starfsemi og tryggir eftirlit með henni? (Forseti hringir.) Ég skal ljúka máli mínu. Hæstv. þáv. viðskrh. kvaðst hafa gert ráðstafanir til að afla upplýsinga um lög og reglur um lánakortafyrirtæki og kvað það vel kúnna að vera að talið yrði nauðsynlegt að setja lög um slíka starfsemi.

Þetta var á 102. löggjafarþingi, veturinn 1979–1980, og ég held að þar sem núv. hæstv. viðskrh. og þáv. hæstv. viðskrh. sitja saman í ríkisstj. nú ættu þeir að taka höndum saman og koma þessu í verk.