06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

420. mál, efling kalrannsókna

Fyrirspyrjandi (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Á þskj. 135 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 27. apríl 1982 um eflingu kalrannsókna?“

Um þá þál. sem að ofan greinir urðu allmiklar umr. á Alþingi á sínum tíma. Með till. fylgdi nokkuð ítarleg grg., þar sem rökstudd var með gildum rökum nauðsyn þess að efla kalrannsóknir.

Það ár sem till. var flutt, þ.e. haustið 1981, voru mönnum í fersku minni gífurlegar kalskemmdir sem orðið höfðu á túnum, einkum sunnanlands. Í ár hefur annar landshluti, uppsveitir norðaustanlands, orðið fyrir þungum búsifjum af þessum sökum.

Landbúnaður á Íslandi er einhæfari en víða erlendis. Um það bil 98% af ræktuðu landi eru nytjuð sem tún og uppskera af því landi ásamt uppskeru beitilanda er grundvöllur búfjárhalds. Vegna þess að hagstæðast er að afla mikils af ódýru grasfóðri hlýtur uppskera graslendis að ráða miklu um hagfræðilega afkomu þeirra sem eiga sitt undir búfjárhaldi. Kal og grasleysi hefur fyrr og síðar valdið miklum búsifjum og uppskerusveiflu og gert arð búfjárhaldsins fremur ótryggan. Þetta á við um Ísland í heild, en þó í mestum mæli á norðausturhluta landsins eða norðurhluta landsins öllu heldur.

Það hlýtur að vera sama hvaða skoðanir menn hafa á búvöruframleiðslu. Það hlýtur að vera allt of dýrt að rækta land og bera á það og fá svo enga eða sáralitla uppskeru. Mikil sveifla hefur verið á útbreiðstu kalskemmda milli ára og staða og hafa í sumum tilvikum allt að 85% túna skemmst af kali. Það hlýtur að hafa mikla fjárhagslega þýðingu að rannsaka orsakir þessara túnskemmda svo að e.t.v. verði hægt að hindra slík áföll í framtíðinni.

Það er afskaplega mikil einföldun að halda því fram að hér sé um einkamál bændastéttarinnar að ræða eða jafnvel aðeins þeirra bænda sem verða fyrir búsifjum hverju sinni. Þegar upp er staðið er þetta tap á verðmætum sem öll þjóðin ber kostnaðinn af fyrr eða seinna.

Það eru mjög skiptar skoðanir um orsakir þessa vágests. Þeir sem best þykjast vita telja þær margar og mun það rétt vera. Þar ber á góma kenningar eins og eitrun jarðvegsins með óhæfum tilbúnum áburði, lélega eða ófullkomna ræktun, kalk- eða steinefnavöntun o.fl. Ekki skal tekið fyrir að þetta og margt fleira geti stutt að kali, en frumorsökin er þó varla hér upp talin þegar um útbreitt kal er að ræða. Það er frumorsökin sem fyrst og fremst ber að leita að og síðan að leysa staðbundin vandamál eftir því sem verða má.

Á Íslandi eru fjárveitingar til vísindarannsókna fremur takmarkaðar, svo að ljóst er að það verður ekki hægt að vinna að umfangsmiklum fræðilegum rannsóknum á öllum sviðum. Kalrannsóknir hljóta þó að verða framarlega í forgangsröð rannsóknaverkefna í landbúnaði hérlendis. Einmitt það virðist hafa verið markmið þál., sem að framan er getið, og því er fsp. fram komin.

Staðreyndin er sú, að það hefur lítið orðið vart við eflingu rannsókna á þessu sviði síðan ályktunin var samþykkt.