06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

420. mál, efling kalrannsókna

Fyrirspyrjandi (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svarið.

Mér sýnist á svari Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að ýmislegt sé á döfinni er snertir viðfangsefnið, þó að tiltölulega lítið hafi frést af niðurstöðum rannsókna. Enn er mér þó til efs að þál. hafi verið framkvæmd og að rannsóknir á kalskemmdum hafi verið efldar. Ef þar er um að ræða þessar 146 500 kr., þá er það auðvitað matsatriði hvort menn meta það eflingu kalrannsókna eður ei.

Enn er Bjarni Guðleifsson á Möðruvöllum í 1/4 hluta úr starfi við þessar rannsóknir. Enn hefur ekkert frést um aukna áherslu Rannsóknastofnunar landbúnaðar á þessu verkefni, fyrr en þá nú, ef fram heldur sem horfir. Bændur, sem með stuttu millibili verða fyrir þungum búsifjum af kali og vita af vilja hins háa Alþingis í þessum efnum, eru orðnir fremur óþreyjufullir að bíða eftir árangrinum.

Ég undirstrika að það yrði mikill sparnaður fyrir þjóðarbúið og landbúnaðinn ef hægt væri að komast hjá slíku tjóni sem kalið veldur. Sá kostnaður sem af auknum rannsóknum mundi leiða hlýtur að skila sér fljótt aftur ef hægt yrði að grípa til réttra ráða um leið og þekkingin eykst.

Það er alveg ljóst að þessar rannsóknir, eins og allar grundvallarrannsóknir, taka langan tíma, en þeim miðar augljóslega afar hægt ef aðeins fjórðungur manns er starfandi að verkefninu. Ég veit ekki hvaða fjórðungur það er, vinstri frampartur eða hægri afturpartur eða hvað.

Eins og ég sagði áðan hljóta kalrannsóknirnar að hafa þó nokkurn forgang í verkefnaröðun Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þrátt fyrir þröngan fjárhag rannsóknastofnana yfirleitt, sem engum er kunnari en mér, er mögulegt að leggja meiri áherslu á eitt verkefni fremur en annað, ekki síst ef ráðh. leggur á það áherslu. Það er hægt að færa til stöðugildi og mannafla ef menn kæra sig um. Ég beini þess vegna þeim tilmælum til hæstv. landbrh. að hann leggi sitt af mörkum til að eflingu kalrannsókna verði hraðað svo sem verða má.

Ég vil að lokum undirstrika að í upphaflegu þáltill., sem flutt var, var sérstaklega undirstrikað að miðstöð þeirra rannsókna skyldi verða að Möðruvöllum í Hörgárdal og þá í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Mér finnst ekki hafa komið fram nein gild rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að miðstýra þessum rannsóknum úr Reykjavík. Mér finnst að það sé ekkert síður hægt að stýra þessum rannsóknum frá tilraunastöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal, ekki síst af því að þar er búsettur og vill vera búsettur færasti sérfræðingur landsins á þessu sviði, Bjarni E. Guðleifsson.

Ég hef lokið máli mínu.