06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

420. mál, efling kalrannsókna

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það kom fram í svarinu sem ég las hér að auk þeirrar rannsóknastarfsemi sem hér hefur verið rakin og verið hefur í umsjá dr. Bjarna Guðleifssonar tengjast ýmis önnur verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins kalrannsóknum beint eða óbeint, þannig að vitanlega eru það fleiri sem vinna að þessum málum. Það er einnig gert af aðilum utan Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

En vegna þeirra ummæla, sem hér hafa komið frá þm., þá er þeim vitanlega ljóst að framkvæmdavaldið verður að sníða sér ramma eftir þeim fjárveitingum sem Alþingi skammtar til þessarar starfsemi. Það er þess vegna sem ég gat þess í orðum mínum áðan að æskilegt væri — og ég hef eindregið óskað eftir því að það yrði nú við afgreiðslu fjárlaga-að reynt yrði að sinna þessu verkefni betur. Eins og kom fram í svarinu er verkið tvíþætt: annars vegar þarf að efla rannsóknir á jarðvegi og öðru slíku, sem menn vita ýmislegt um nú þegar. Hins vegar eru svo rannsóknir á nýjum grasstofnum, sem þola betur það álag og þá veðráttu sem hér er. Er það reyndar engu síður mikilvægt. Að því hefur verið unnið, auk þess sem hér er getið, t.d. á tilraunastöðinni á Sámsstöðum, að leita að nýjum grastegundum. Úr tilraunum þaðan er fenginn Beringspuntur sem er mjög frostþolinn og virðist skera sig þar nokkuð úr öðrum grastegundum sem reyndar hafa verið. Auk þess er hann góð fóðurjurt og sameinar þess vegna þá kosti. Vandamálið er hins vegar að hann er mjög sjaldgæfur og virðist vera mjög erfitt að fá fræ af honum erlendis frá. Það hefur þess vegna verið reynt að afla þess á Sámsstöðum. En það kallar þá náttúrlega á meiri umsvif þar til að auka þá framleiðslu.