06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

116. mál, krabbameinslækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sú grg. sem þm. vitnar hér til er ítrekun læknaráðs Landspítalans á nauðsyn þess að ekki dragist enn úr hömlu að K-bygging Landspítalans verði byggð. Af heilbrrn. hálfu hefur fyrir löngu verið tekin afstaða til þess að það sem brýnast væri að byggja af nýbyggingum á Landspítala væri K-bygging, og þá sá hluti hennar sem á að hýsa nýjan tækjabúnað fyrir krabbameinslækningar. Allt frá árinu 1978 hefur þessi bygging verið á forgangslista rn. og fé hefur verið veitt til hönnunar byggingarinnar af Alþingi síðan 1979. Svo sem fram kemur í svari við síðari spurningu þm. þá hefur hönnunarvinnu og öllum undirbúningi við K-byggingu Landspítalans verið hraðað svo sem verða má en framkvæmdir hafa ekki hafist vegna þess að Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um það. Við þær aðstæður sem nú ríkja hefur af hálfu heilbrrn. verið reynt að koma krabbameinslækningum í eins gott horf og auðið er við þær aðstæður sem upp á er að bjóða nú.

Síðan 1977 hefur verið þróað sérstakt göngudeildarkerfi fyrir krabbameinssjúklinga og á árinu 1980 fékkst bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda þessarar göngudeildar í húsnæði Kvennadeildar Landspítalans. Á þessari göngudeild er fyrst og fremst sinnt almennri göngudeildarþjónustu og lyfjameðferð en jafnframt undirbúningi geislameðferðar. Frá byrjun var vitað að þetta húsnæði væri of lítið fyrir þessa starfsemi en þegar það var tekið í notkun ríkti bjartsýni um að áfram yrði haldið fyrirhugaðri byggingu yfir þessa starfsemi í K- byggingu Landspítalans.

Rn. er fyllilega ljóst að nútímageislameðferð verður ekki framkvæmd hér á landi fyrr en línuhraðall verður keyptur og hann kominn í not. Rn. hefur ekki talið að kóbalttæki Landspítalans væri úrelt og ónothæft, en hefur hins vegar vitað að það eitt fullnægði ekki nútímakröfum um geislalækningameðferð. Það er á valdi Alþingis að ákveða það hvenær nútímaleg meðferð í geislalækningum getur hafist hér á landi. Af hálfu heilbrrn. hafa undanfarin ár verið gerðar tillögur um að skapaðar yrðu aðstæður til þess að kaupa línuhraðal og koma honum fyrir. Alþingi hefur ekki treyst sér til að fallast á þær tillögur fram til þessa. Það er á valdi þeirra lækna sem ákveða um meðferð hvort kóballtæki Landspítalans verður notað til geislalækninga og það er á valdi Alþingis að ákveða hvort fé verður veitt til þess að greiða fyrir ferðir sjúklinga til útlanda vegna krabbameinsmeðferðar eða endurgreiða kostnað sem þeir yrðu fyrir vegna slíkrar meðferðar.

Ég tel rétt að segja hér frá því að á árinu 1979 fóru 28 sjúklingar utan til lækninga vegna illkynja sjúkdóms eða gruns um illkynja sjúkdóm og nam kostnaður það ár 406.5 millj. kr. Árið 1980 fóru 46 sjúklingar utan, sem Tryggingastofnunin og sjúkrasamlög báru kostnað af, og nam kostnaður 877 þús. kr. Árið 1981 fóru 37 sjúklingar utan og nam kostnaðurinn 1 208 þús. kr., 1982 fóru 19 sjúklingar utan og nam kostnaður 2 552 þús. kr. og til 28. nóv. á þessu ári hafa 14 sjúklingar farið utan og nam kostnaður 5 585 þús. kr.

Vegna síðari spurningarinnar verður að minna á að bygging sú sem nefnd hefur verið K-bygging Landspítalans hefur verið í hönnun síðustu 4–5 árin. Tilgangurinn með þessari byggingu er sá að skapa aðstöðu fyrir krabbameinslækningar, þ.e. ísótópastofu, rannsóknarstofur í meinaefnafræði og blóðmeinafræði, rannsóknarstofur í röntgengreiningu, skurðstofur og gjörgæsludeild. Hönnun var það langt komin á árinu 1981 að við gerð fjárlagatillagna fyrir árið 1982 var lögð fram mjög sundurliðuð áætlun um byggingarframkvæmdir sem þá var afhent fjvn. og alþm. höfðu aðgang að. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að á árabilinu 1982–1990 yrði byggingunni að fullu lokið, en gert ráð fyrir ákveðnum áfangaskiptum þannig að á árinu 1986 yrði tilbúið rými fyrir krabbameinslækningar og ísótópastofu, árið 1987 rými fyrir meinaefna- og blóðmeinarannsóknir, árið 1988 aðstaða fyrir skurðstofur, en að byggingunni yrði að fullu lokið með tengigöngum á árinu 1990.

Á hverju ári síðan hafa tillögur um þessa byggingu legið fyrir við gerð fjárlaga nokkurn veginn óbreyttar, en Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til þess hvenær framkvæmdir skyldu hefjast. Þegar fjárlagatillögur rn. vegna ársins 1984 voru sendar til fjárlaga- og hagsýslustofnunar á s.l. vori hafði mér ekki gefist tími til að endurskoða fyrri tillögur um K-byggingu og mótuðust því till. rn. þá af fyrri till.

Á þessu hausti hafa farið fram miklar viðræður um framgang þessa máls. Formaður yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð, Hallgrímur Snorrason, hefur átt ítrekaðar viðræður við mig um málið og sérstaklega hefur verið kannað hvort áfangaskipting sú sem áður var lögð til grundvallar væri skynsamleg. Sérstaklega hefur verið á það hlið hvort hægt væri að byrja framkvæmdirnar þannig að skapa mætti aðstöðu fyrir krabbameinslækningar og þá sérstaklega að hýsa það krabbameinslækningatæki, þ.e. línuhraðal, sem ekki er til hér á landi og talið er nauðsynlegt til að krabbameinslækningar hér geti samsvarað því besta sem gerist í heiminum í dag. Í þeim áætlunum sem ég minntist á áður og liggja fyrir sem framreikningur þeirra áætlana sem gerðar hafa verið undanfarin ár er gert ráð fyrir að nýtanlegt flatarmál K-byggingar verði 8 000 m2 en af þeirri byggingu fái krabbameinslækningadeild 2 000 m2. Áætlanirnar gerðu ráð fyrir að hægt yrði að byggja húsið á árunum 1983–1991 og að byggingarkostnaður yrði 261 millj., en búnaður er áætlaður 203 millj. Heildarkostnaður við bygginguna var því talinn 460–470 millj. kr.

Nú er fyrirsjáanlegt að framkvæmdir hefjast ekki á þessu ári og að öllum óbreyttum aðstæðum mundi byggingartíma seinka um eitt ár. Yrði tekin ákvörðun nú um að hefjast handa væri hægt að byggja húsið á árabitinu 1984–1992. Þessi byggingarhraði þýðir að það þyrfti að leggja til 52 millj. kr. á ári í bygginguna. Öll útboðsgögn til að hefja verkið eru til og yrði þessi áætlun að veruleika yrði hægt að taka krabbameinslækningadeild í notkun um áramótin 1989–1990. Það er hægt að stytta þennan byggingartíma með örari fjárveitingum og þá yrði hægt að taka krabbameinslækningadeildina í notkun 1–2 árum fyrr en þessar áætlanir greina frá.

Í nýrri skýrslu yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð til mín, sem dags. er 1. des., er gerð sérstök grein fyrir athugun á staðsetningu krabbameinslækninga og mögulegum kostum við framkvæmdir á K-byggingu Landspítala. Jafnframt þessari skýrslu var send skýrsla Jörgen K. Nielsen, sem er danskur ráðgefandi verkfræðingur sem hefur verið yfirstjórn mannvirkjagerðar til ráðgjafar í sambandi við tæknileg vandamál við þessa byggingu.

Í þessari nýju skýrslu yfirstjórnar er talið skynsamlegt að hverfa frá þeirri áætlun um áfangaskiptingu sem áður hafði verið ráðgerð og talið að í stað þess að byrja á framkvæmdum við lagnagang sem talið hefur verið forsenda þess að byrja á byggingunni sé hægt að byrja á jarðvinnu við vesturenda og byrja á því að steypa upp húsið frá vesturgafli. Með þessum byggingarmáta yrði hægt að innrétta krabbameinslækningadeild að hluta þannig að starfsemi gæti hafist þar, síðara stig yrði síðan að fullgera lagnagang og grafa út eystri hluta hússins. Með þessari framkvæmdaröð er talið að krabbameinslækningadeild gæti komist í not fyrr en ella.

Þessi skýrsla sem hér er greint frá er, svo sem sagt var, nýkomin til rn. og hefur ekki verið tekin afstaða til hennar þannig að svarið við spurningunni: „Hver eru áform heilbrmrh. um framkvæmdahraða við K-byggingu Landspítalans?“ er það að þær till. sem sendar voru frá rn. á s.l. vori og ég hef lýst hér eru enn í fullu gildi en athuganir fara fram á því hvort skynsamlegt er að endurskoða þær með tilliti til þess sem ég hef áður sagt.