19.10.1983
Neðri deild: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

11. mál, launamál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að verða við þeim tilmælum forseta að hafa mál mitt sem styst, enda hefur mikið verið um þetta mál rætt, m.a. í útvarpsumræðum á Alþingi í gærkvöld. Einnig má vísa til þjóðhagsáætlunar um grundvallarupplýsingar um stöðu mála. Skal ég því aðeins minnast á það örfáum orðum.

Í maí kom í ljós að staða efnahagsmála hér á landi var töluvert erfiðari en gert hafði verið ráð fyrir. Verðbólga var orðin stórum meiri en þjóðhagsspár höfðu talið fyrr á árinu og í lok þess síðasta. Framfærsluvísutala hækkaði 1. júní um 23.5%, sem þýðir verðbólgu á ársgrundvelli frá mars til maí 131%. Verðbólgan var því orðin miklu meiri en við Íslendingar höfum kynnst til þessa og erum þó á því sviði ýmsu vanir.

Einnig kom í ljós að erlend skuldasöfnun var meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Um síðustu áramót voru erlendar skuldir þjóðarinnar taldar vera 48% af þjóðarframleiðslu. Þótt ekki lægju fyrir öruggar tölur á vormánuðum var ljóst að þær voru komnar töluvert þar yfir og síðan hefur sýnt sig að þær eru nú í kringum 60% þjóðarframleiðslu. Ég hygg að allir hv. þm., sem hafa setið á undanförnum þingum a.m.k., hafi mjög tekið undir það að erlendar skuldir sem nema um 50% þjóðarframleiðslu eru mikið hættumerki og eitt það alvarlegasta sem þessi þjóð hefur staðið frammi fyrir.

Að sjálfsögðu eru ýmsar ástæður til þessarar erlendu skuldasöfnunar, m.a. þær að þjóðartekjur hafa dregist mjög saman eða u.þ.b. 9% á hvert mannsbarn á tveimur árum samkv. áætlun um samdrátt þjóðartekna í ár, en um 11% á hvern vinnandi mann. Vitanlega hefur þetta leitt til þess að erlendar skuldir hafa aukist sem hundraðshluti af þjóðarframleiðslu. Einnig er það rétt að erlendar skuldir þjóðarinnar eru að verulegum hluta í dollurum og dollarinn hefur hækkað mjög á undanförnum árum. En það er jafnframt ljóst að viðskiptahalli hefur verið mjög mikill, og ljóst var á vormánuðum að viðskiptahalli á þessu ári yrði enn æði mikill. Hann var á síðasta ári 10% og á árinu þar áður 5% en árið 1980 2.5%. Viðskiptahalli hefur þannig farið vaxandi ár eftir ár og hefur átt stóran þátt í því að erlendar skuldir þjóðarinnar hafa vaxið.

Ég hygg að það sé óumdeilanlegt að við þessar aðstæður hefði reynst mjög erfitt að halda atvinnulífinu gangandi. Í mikilli verðbólgu brennur rekstrarfé atvinnuveganna upp og útvega verður meira, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Hins vegar var og er inniendur lánamarkaður í þessu sambandi mjög þröngur og ekki lengur um það að ræða að vísa á erlendan lánamarkað eins og erlendar skuldir þjóðarinnar eru orðnar. Í þessari stöðu var ekki um annað að ræða en að brjóta blað í efnahagsstjórn landsins. Má segja að þá hafi verið um tvær leiðir að ræða. Önnur var sú, að láta þá hækkun ganga yfir sem fólst í 23.5% hækkun framfærsluvísitölu, og þá m.a. 22% hækkun launa samkvæmt verðbótavísitölu, sams konar hækkun á fiskverði, enda hefðu sjómenn að sjálfsögðu átt rétt á slíkri launahækkun, ef við getum talað um rétt í þessu sambandi, og hækkun á búvöruverði. Þessu hefði svo orðið að fylgja eftir með gengisfellingu, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, og að sjálfsögðu hækkun verðlags og enn vaxandi verðbólgu, sem þá var spáð að færi töluvert upp fyrir þau 131% sem hún reyndist frá mars til maímánaðar.

Ég hygg að enginn hafi út af fyrir sig mælt með slíkri leið og þegar hún er afskrifuð er vart um nema tvennt að ræða. Annars vegar að fella ekki gengi og bæta ekki atvinnuvegunum upp þá kostnaðarhækkun sem fólst í þeirri miklu skriðu sem hlaut að fylgja þessari hækkun framfærsluvísitölu og þá launa, fiskverðs og búvöruverðs, sem vitanlega hefði til þess eins leitt að atvinnuvegirnir hefðu stöðvast og hér hefði orðið fjöldaatvinnuleysi. Sú leið hefur víða verið farin og hefur verið nefnd peningamálaleiðin eða eitthvað í þá áttina. Fjármagn er þá dregið inn úr umferð og verðbólga minnkuð með því að draga úr þeirri þenslu sem fylgir fullri vísitölu og gengisfellingu í verðbólguástandi.

Ríkisstj. taldi ekki fært að fara þá leið, enda hefur hún á stefnuskrá sinni atvinnuöryggi og leitast við að halda fullri atvinnu í landinu. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar að atvinnuleysi sé hið versta böl, og reyndar hafa fyrri ríkisstjórnir haft svipað markmið eða sama að leiðarljósi. Ríkisstj. ákvað því að beita annarri aðferð, sem nefna mætti launamálastefnu, draga fremur úr þeim launahækkunum sem fylgt hefðu þessari hækkun framfærsluvísitölu og freista þess þannig að halda atvinnuvegunum gangandi og fullri atvinnu í landinu. Ég hygg jafnframt að því verði ekki á móti mælt að launahækkun eins og sú sem fylgt hefði 23.5% hækkun framfærsluvísitölu hefði reynst ákaflega lítil kjarabót í svo miklum sveiflum. Í hækkun launa og hækkun á verði er raunin sú, að sérstaklega þeir sem lægstu launin hafa bera mjög skarðan hlut frá borði, því að allt hækkar þegar á eftir og er launahækkun þá runnin út í sandinn á ótrúlega skömmum tíma.

Það var við þessar aðstæður sem brbl. voru sett sem nú er flutt frv. til staðfestingar á. Efni frv. felst fyrst og fremst í tveim greinum sem ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir.

Í 1. gr. er svo ákveðið að vísitala svonefnd eða verðbætur á laun falli niður á tímabilinu frá 1. júní 1983 til 31. maí 1985, og jafnframt lagt bann við að samið verði um vísitölu á laun eða annað sem því er tengt. Hér er að sjálfsögðu um að ræða hina frægu vísitölubindingu sem um hefur verið rætt hér á undanförnum árum að leiðrétta þurfi og leitað eftir víðtæku samkomulagi um breytingar á. M.a. beitti síðasta ríkisstj. sér fyrir fundum í flest þau ár sem hún sat um þetta mál og leitaði eftir samkomulagi um breytingar. Svo varð því miður ekki. Ég segi því miður, því að ég er þeirrar skoðunar að æskilegt hefði verið fyrir löngu að draga mjög úr þessari vísitölubindingu, svo að hún verkaði ekki sem skrúfa á verðbólguna eins og verið hefur á, undanförnum árum. Að mínu mati er það síður en svo til hagsbóta fyrir þá sem lægri launin hafa þegar verðbólga er orðin svo mikil sem hún var orðin um mitt ár eða í maímánuði. Hér er því brugðið á það ráð að afnema vísitöluna í tvö ár. Að þeim tíma loknum er að sjálfsögðu frjálst að taka upp vísitölu í einhverri mynd, ef um það nást samningar, og reyndar gert ráð fyrir því í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að það verði kannað. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni og þeirri persónulegu von minni að þá semjist um eitthvað sem viðráðanlegra er en það sem verið hefur upp á síðkastið.

Í 2. gr. er hins vegar ákveðið að í stað þeirrar vísitölubótar sem felld er niður komi ákveðnar hækkanir á laun 1. júní og 1. okt., 1. júní 8% á öll grunnlaun nema 10% á lægstu launin, en 4% 1. okt. Jafnframt er bannað að samið verði um frekari hækkun launa til 31. jan. 1984. Þessi grein hefur verið töluvert umdeild og vil ég gera grein fyrir því að hún var sett ekki síst vegna þess að á tímabilinu höfðu vissir starfshópar samið um áfangahækkanir sem ég hygg að hefðu numið, með öllu sem þar til telst a.m.k., 10% hækkun launa. Þessar áfangahækkanir áttu að koma til framkvæmda 1. sept. og 1. des. Að mati ríkisstj. hefði þá vart verið gegn því staðið að slík hækkun hefði gengið í gegnum allt kerfið og megintilgangi með hjöðnun verðbólgu því ekki náð. Ég vil jafnframt láta þess getið að það er skilningur ríkisstj. að um slíkar áfangahækkanir verði að semja að nýju ef þær eiga að koma til framkvæmda.

Ríkisstj. setti sér í upphafi það markmið að koma verðbólgunni niður í 30% í lok ársins. Um það má lengi ræða hvort það sé stefnt að of hraðri hjöðnun verðbólgu. Mitt mat er það, að komið hafi verið fram á slíkt hengiflug um mitt árið að vart hafi verið um annað að ræða en að komast frá því sem fyrst, ef ekki átti að leiða til áframhaldandi erlendrar skuldasöfnunar og erfiðleika í atvinnulífi með atvinnuleysi og fleiru. Ég hygg að segja megi að þetta mat ríkisstj. á nauðsynlegum aðgerðum hafi reynst rétt. Við munum komast niður í 30% verðbólgu í lok þessa árs og það hefur sýnt sig að aðgerðir í þessa veru, sem voru ákveðnar og liggja hér fyrir til staðfestingar, hafi verið nauðsynlegar. Vitanlega má mikið ræða um aðra útfærslu á slíkum aðgerðum, t.d. meiri hækkun á lægri laun, sem ég vil leyfa mér að fullyrða að mikill skilningur sé á. Hins vegar sýndi sig, þegar þær leiðir voru skoðaðar, að þeim fylgja margir annmarkar, m.a. mikil hækkun á framleiðslukostnaði í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, fiskvinnslunni, þar sem ákvæðiskjör byggjast á þessum lægstu launum. Þótti því ekki fært að fara þá leið.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að við fyrri tilraunir til slíkra leiða hafa niðurstöður ætíð orðið þær að mjög fljótlega hefur slík hækkun gengið upp í gegnum allan launaskalann. Ég vil hins vegar lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að enn eigi að gera tilraunir til að nota það svigrúm sem til er til þess að hækka fyrst og fremst, þegar að frjálsum samningum kemur í lok janúarmánaðar, þau launin sem lægst eru. Samkvæmt þessum lögum, ef þau verða samþykkt, er það ekki unnt fyrr en 31. jan. n. k.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta frv., enda er, eins og ég sagði í upphafi, gerð ítarleg grein fyrir öllum grundvallaratriðum þess í þjóðhagsáætlun, sem þm. hefur borist, og sömuleiðis í umr. sem fram fóru hér á hinu háa Alþingi í gærkvöld. Ég vildi því að loknum þessum orðum gera að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.