06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

116. mál, krabbameinslækningar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. svör hans. Ég veit að hann hefur lagt sig fram í þessu máli og er áfram um framgang þess. Hann segir að vísu réttilega að málið sé nú í höndum Alþingis en ég teldi þó að það skipti verulegu máli upp á framgang þess nú að ríkisstj. sjálf sé jákvæð fyrir því að sú breyting eigi sér stað við gerð fjárlaga að hækkað verði framlag til þessarar byggingar. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að ríkisstj. beiti sér fyrir því að þetta framlag verði hækkað.

Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. vegna þess að hann er hér. Hérna sjáum við í fjárlagafrv. þessa tölu, 2.3 millj., sem ljóst er að ekki er hægt að hefja framkvæmdir fyrir á næsta ári ef þetta framlag verður ekki hækkað. Ég vildi því gjarnan heyra skoðanir hæstv. fjmrh. á því hvort ríkisstj. muni beita sér fyrir því við fjvn. og við afgreiðslu málsins á þingi að þetta framlag verði hækkað.

Málið er svo alvarlegt að það verður að grípa til skjótra úrræða. Við getum tekið sem dæmi að á árinu 1982 var fjöldi þeirra sem þurftu á geislameðferð að halda 289 manns. Því er haldið fram að helmingur eða jafnvel 2/3 þeirra sem þurfi á geislameðferð að halda þurfi á að halda þeirri geislameðferð sem fæst í þessum línuhraðal, sem ekki er fyrir hendi en staðsetja á í K-byggingunni.

Mér hefur ekki gefist tími til að skoða þær tölur sem hæstv. ráðh. kom fram með hér um fjölda þeirra sem hafa verið sendir utan á undanförnum árum og kostnað við það, en samkvæmt þeim tölum sem ég hef fengið upp gefnar hjá Tryggingastofnuninni var meðalkostnaður vegna fjögurra sjúklinga, sem sendir voru utan á þessu ári og þurftu á inniögn að halda vegna geislameðferðar frá 17 upp í 43 daga, meðalkostnaður á hvern þessara fjögurra sjúklinga varð tæplega 440 þús. kr. Ef á næstu árum þarf í auknum mæli að senda krabbameinssjúklinga til úflanda mun þessi kostnaður margfaldast. Ef við einungis tökum t.d. helming af þessum 289 sjúklingum sem geislameðferð fengu á s.l. ári, en talað er um að helmingur til 2/3 hlutar sjúklinga þurfi á meðferð í línuhraðal að halda, þá yrði hér um að ræða kostnað sem nemur á ári miðað við núverandi verðlag um 63–64 millj. kr. Er það rúmlega sú upphæð sem farið er fram á í K-bygginguna á næsta ári. Það er auðvitað ljóst að spara verður í þjóðfélaginu en ég tel að lítill sparnaður sé í að halda aftur af framkvæmdum við K-bygginguna.

Við skulum frekar líta á aðra hluti sem má spara. Við getum tekið til samanburðar við þessa tölu, 53 millj., sem farið er fram á á næsta ári í K-bygginguna, að samanlagt eyddum við á s.l. ári 54 millj. í utanferðir á vegum rn. og stofnana, á þessu og síðasta ári eyddum við svipaðri upphæð í algjörlega óþarfa útþenslu í bankakerfinu og þannig mætti áfram telja. Ég spyr: Væri ekki nær að spara á þessum eða öðrum sviðum en beina frekar fjármagni í þá lífsnauðsynlegu framkvæmd sem K-byggingin er? Hér er ekki um svo óheyrilegt fjármagn að ræða til að koma á viðunandi aðstöðu krabbameinslækninga að ekki ætti að vera hægt að ná samstöðu um það hér á hv. Alþingi. Mætti benda á ýmsa liði í fjárlögum sem fremur þyldu bið en þessi brýna framkvæmd.

Ég vil líka benda á að sérfræðingur frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, sem hér var á ferð, benti á að línuhraðallinn til krabbameinslækninga ætti að hans mati að vera algjört forgangsverkefni hér á sviði heilbrigðismála. Að öllu þessu athuguðu vara ég við því ef sú verður raunin á nú við afgreiðslu fjárlaga að ekki verði hægt að hefja framkvæmdir við K-bygginguna. Ég tel algjört lágmark að veittar verði a. m. k. 16–17 millj. kr. sem þarf til þess að útboð geti farið fram á þessum tengigangi..

En ég fagna því að ráðh. er með þessi mál í athugun og ég treysti því að hann muni beita sér eftir því sem hann getur fyrir því að þetta framlag verði hækkað þegar við fáum fjárlagafrv. aftur til meðferðar eftir afgreiðstu úr fjvn. Ég beindi einni ákveðinni spurningu til hæstv. fjmrh. sem ég vænti að hann svari hér við þessa umr., því það er auðvitað brýnt að fá einnig fram hans afstöðu í þessu máli, hvort hann muni beita sér fyrir hækkun nú við afgreiðslu fjárlaganna.