06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

116. mál, krabbameinslækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég tók það fram í haust þegar hér var til umr. fsp. varðandi hjartaskurðlækningar að ég hefði mun meiri áhyggjur af krabbameinslækningunum. Hins vegar er mér ljúft að segja frá því hér að náðst hefur samkomulag um að fé verði veitt til rannsóknarstarfsemi í sambandi við hjartasjúkdóma. Það kemur fram í tillögum fjvn. eins og síðar verður skýrt frá.

Þegar við tölum alltaf um forgangsverkefni verðum við að hafa í huga hversu Alþingi markaði hér stefnu með setningu laga um heilbrigðisþjónustu 1973. Þau lög tóku gildi 1. jan. 1974. Þá hafði ríkisstj. sem þá sat tekið ákvörðun um viðamiklar framkvæmdir í sjúkrahúskerfinu, bæði hér í Reykjavík og utan Reykjavíkur, upp á nokkra milljarða gkr. á verðgildi þess tíma:

Í þeim lögum er gert ráð fyrir að landsbyggðin njóti forgangs í uppbyggingu heilsugæslukerfis. Það var lagt undir mjög viðamikið verkefni, langt umfram það sem fjárhagsgeta eða réttara sagt möguleikar ríkisstj., allra ríkisstjórna á þessu tímabili, leyfðu. Af þeim sökum hafa safnast saman verkefni sem hafa beðið miklu lengur en menn hefðu kosið.

Sömuleiðis eru þá, ef við einblínum aðeins á Landspítalann eða ríkisspítalana, gerðar till. um framkvæmdir þar. Það er tekin ákvörðun um byggingu geðdeildar að mig minnir á árinu 1972. Þar með eru mörkuð fjárframlög til þeirrar ákveðnu starfsemi í æðilangan tíma. Enn er sú framkvæmd, þó að hún sé langt komin, ekki að öllu leyti búin.

Þannig höfum við tekið ákvarðanir æði langt fram í tímann og þrátt fyrir afar erfiða stöðu til fjárveitinga hefur heilbrigðisþátturinn ekki verið látinn eftir liggja. Eigi að síður tek ég allshugar undir orð hv. fyrirspyrjanda og þeirra annarra sem hér hafa talað, að á þessu liggur mikið. Ég vil skoða þennan nýja möguleika sem kemur fram í till. hins danska ráðgjafarverkfræðings, sem ég álít við fyrstu yfirsýn vera athyglisverða og þess virði að við leggjum hana niður fyrir okkur, bæði í rn., við þá nefnd sem sér um mannvirkin á Landspítalalóðinni og í nánu samstarfi við krabbameinslækna sem hafa best vit á þessu máli. Í framhaldi af því verðum við svo að vinna. Það er dýr grunnur en ef við getum liðað þessar framkvæmdir niður með líkum hætti og þessi danski ráðgjafarverkfræðingur gerir ráð fyrir, þá verður málið mun auðveldara og þessi þáttur, K-byggingin, kemst þá fyrr í höfn.